Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 18:29:04 (1643)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð. Ég geri ráð fyrir því og er raunar fullviss um að hugmyndir okkar hv. 4. þm. Austurl. um hálendið fara mjög saman. Frv. sem ég mælti fyrir í fyrra, um stjórn skipulags og byggingarmála á miðhálendinu, hlaut eins og hann réttilega sagði ekki mjög jákvæðar undirtektir. Raunar varð það tilefni hártogana af ýmsu tagi. ( HG: Misjafnar.) Misjafnar, segir þingmaðurinn. Það er kannski nákvæmar til orða tekið, á það skal ég vissulega fallast. Það varð tilefni ótrúlegra útúrsnúninga og hártogana. Í rauninni sýndi það hjá sumum sorglegt skilningsleysi á kjarna þess máls sem þarna var um að tefla og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom svo ágætlega að í sinni ræðu.
    Ég hef velt því fyrir mér hvort ég eigi að flytja frumvarpið að nýju efnislega lítið breytt frá því sem var í fyrra. Ég hef ekki tekið ákvörðun í því efni en hér er mál á ferð sem er mjög brýnt að ráða til lykta. Ég hef hins vegar hugsað mér að freista þess að ræða við fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem ég hygg að séu nálægt því að vera 38 talsins sem eiga land inn á miðhálendið, ræða við þá og vita hvort hægt er að finna einhverja aðra leið að því marki sem við stefnum, þ.e. að vernda þessa auðlind, sem þetta svæði er, og koma á stjórn í stað stjórnleysis í þessum efnum. Það er mér ekkert heilagt mál að fara nákvæmlega þá leið sem frv. gerir ráð fyrir. Ef hægt er að ná þeim markmiðum sem þar eru sett eftir öðrum leiðum þá er meira en sjálfsagt að freista þess að ná samkomulagi um slíkt. Aðalatriðið er að ekki verði haldið áfram á þeirri stjórnleysisbraut sem við höfum verið á varðandi nýtingu og notkun miðhálendisins.
    Það er rétt sem hv. þm. sagði að stundum rekast hagsmunir veiðimanna og umhverfisverndar á. Þó hygg ég nú að þannig sé hægt að halda á málum að þar verði ekki um alvarlega árekstra að ræða. Af viðræðum við félaga í Skotfélagi Íslands og aðra veiðimenn, t.d. stangveiðimenn, veit ég að margir þeirra eru umhverfisverndarmenn sem vilja umgangast náttúru landsins með þeirri virðingu sem hún verðskuldar. Ég held því að þarna sé hægt að sneiða hjá árekstrum.
    Að lokum, virðulegur forseti, held ég að þetta sé kannski ekki rétti dagskrárliðurinn til að fara út í ítarlegar umræður um túlkun á ákvæðum sem varða landbúnaðarmál og stendur kannski öðrum nær en þeim sem hér talar. Það má sjálfsagt deila um þá túlkun sem hv. þm. Jón Helgason gerði hér að umræðuefni og menn geta haft fleiri en eina skoðun á því. En ég sé ekki ástæðu til að setja hér á langa tölu um það efni en ítreka aðeins það sem ég sagði. Ég held að við eigum auðvitað þegar við undirritum samninga og göngum til samninga að gera það með því hugarfari að við ætlum að standa við þá. Ég hygg að þegar öllu er á botninn hvolft séum við í grundvallaratriðum sammála um það.