Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 18:33:36 (1644)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Það er tvennt sem ég vil nefna vegna ummæla hæstv. ráðherra. Það fyrra er varðandi frv. um stjórnsýslu á miðhálendinu. Ég vil eindregið hvetja hann til að koma með það mál á ný inn í þingið og helst sem líkast því sem það var lagt fyrir í fyrra þó að auðvitað sé sjálfsagt að líta á atriði til endurskoðunar ef það má verða til að breikka verulega samstöðu um málið án þess að hrófla við grundvellinum og markmiðunum. Auðvitað var ljóst að það voru mörg atriði sem gátu þurft endurskoðunar við gagnvart byggðum og slíku. Vafalaust hafa komið fram einhver viðbrögð við því. En það sem ég vil vara við er sú hugsun, sem ég tel ekkert óeðlilegt að komi af hálfu sveitarfélaga sem eru að líta á málin út frá sínu hlaði, og það er að framlengja stjórnsýslumörk sveitarfélaganna inn til landsins og í rauninni hverfa frá því að líta á miðhálendi landsins sem eina sameiginlega stjórnsýslueiningu. Ég held að það hafi kannski verið það þýðingarmesta í frv., að varðveita þá sýn til mála, til þess að unnt væri með skilvirkum hætti að taka á málefnum hálendisins, ekki út frá þröngt afmörkuðum reitum sveitarfélaga heldur út frá heildarsýn og heildarhagsmunum. Þannig liggja málin inn til landsins að það þarf að taka heildstætt á þeim, óháð því hver telst þar vera í þröngum skilningi yfirráðaaðili, út frá sjónarmiðum landsins alls.
    Þetta var annað atriðið sem ég vildi nefna. Síðan vil ég nefna í sambandi við veiðiskap og hagsmuni umhverfisverndar að þá er hættan ekki tengd ofveiði á stofnum, þótt vissulega geti slíkt komið til, heldur það ónæði gagnvart öðrum sem nytja landið og alveg sérstaklega umferð, umferð vélknúinna tækja sem tengjast veiðiskap. Það er kannski það sem maður hefur mestar áhyggjur af.