Lánsfjárlög 1993 o.fl.

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 18:36:40 (1645)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað ber þess merki að annars vegar erum við langt komin í að ræða þau fylgifrumvörp sem fylgja EES-samningnum og hins vegar er þinghaldið að færast í hefðbundið horf með því að við erum að ræða ríkisfjármálin og margt sem þeim tengist.
    Ég ætla að hefja mál mitt með því að rifja það upp að fyrir ári síðan var gefinn út bæklingur undir heitinu: ,,Velferð á varanlegum grunni``. Þessi bæklingur er í fallegri útgáfu en honum er ekki mikið hampað af ríkisstjórninni enda engin furða þegar maður fer að glugga í þennan bækling. --- Fjmrh. dregur bæklinginn upp úr pússi sínu og veifar honum. Það er gott að hann skuli hafa hann til handargagns. En það væri nú skemmtilgera ef meira væri eftir honum farið í sumum efnum. ( Gripið fram í: Hann er nú ekkert máður.)
    Varðandi ríkisfjármálin segir í þessum bæklingi, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á þann ásetning sinn að gerbreyta fjármálastjórn hins opinbera. Dregið verður úr umsvifum ríkisins og þannig búið í haginn fyrir hóflega skattheimtu í framtíðinni. Þessar fyrirætlanir eru forsenda þess að viðreisn efnahagslífsins takist. Versnandi viðskiptakjör, aflasamdráttur og horfur á minnkandi landsframleiðslu undirstrika hve brýnt þetta er.
    Um leið og dregið verður úr hallarekstri ríkissjóðs árið 1992 með því að stöðva þau vaxandi ríkisumsvif sem viðgengist hafa undanfarin ár verða næstu skref til uppbyggingar og kerfisbreytinga í ríkisrekstrinum undirbúin. Uppstokkun og ný vinnubrögð eru nauðsynleg ef tryggja á markvissa opinbera þjónustu. Ríkisvaldið mun beita nýjum aðferðum í ríkisrekstri til að tryggja hagkvæma, en jafnframt hóflega og skilvirka skattheimtu. Markmiðið er öflug, vel skilgreind, en góð ríkisþjónusta, ásamt aukinni valddreifingu og ábyrgð stjórnenda og starfsmanna.
    Stefnt er að því að fjármál ríkissjóðs verði komin í jafnvægi í árslok 1993, en með því skapast svigrúm fyrir aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu. Með minnkandi lántökum ríkisins ætti einnig að vera unnt að lækka vexti og örva fjárfestingu og uppbyggingu.``
    Eins og flestum má ljóst vera sem fylgst hafa með atburðum síðasta árs er býsna langt í frá að þessi stefna ríkisstjórnarinnar hafi yfir höfuð verið reynd hvað þá að hún hafi náð fram að ganga nema í örfáum atriðum. Það verður auðvitað að segjast eins og er að ríkisstjórninni er ekki alfarið um að kenna heldur hafa ytri áföll bæst við. En þegar litið er á frv. sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1993, er erfitt að sjá að þessar miklu hugsjónir birtist í frv.
    Ég ætla aðeins að ræða um ríkisfjármálin í heild áður en ég kem að frv. sjálfu enda hafa fá tækifæri gefist það sem af er þessu hausti til þess að ræða þau mál við ríkisstjórnina.
    Eins og þingheimi er kunnugt má greina ríkisfjármálin niður í nokkra þætti og er þar fyrst að nefna fjárlögin en öllum þeim sem fylgdust með fjárlagaumræðunnni má ljóst vera að þau eiga eftir að breytast mikið. Menn hafa kallað þau ,,ekki-fjárlög`` og ýmsum nöfnum, en það er ljóst að þau eiga eftir að breytast mikið, annars vegar vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur boðað að það þurfi að ná ríkisútgjöldunum meira niður en gert er í fjárlagafrv. og hins vegar verður að segjast eins og er að tekjuhlið fjárlagafrv. er mjög óviss, m.a. vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Ef það ástand versnar er ekki við öðru að búast en að forsendur tekjuhliðar fjárlagafrv. muni raskast verulega.
    Í öðru lagi eru það lánsfjárlögin sem hér eru til umræðu. Við hljótum alltaf að velta fyrir okkur þeirri spurningi hversu vel lánsfjárlögin standist og hvort halli ríkissjóðs á þessu ári, sem ætlunin er að greiða með lánum á næsta ári, verði jafnvel meiri en spár gera ráð fyrir núna.
    Í þriðja lagi er sá þáttur ríkisfjármálanna sem birtist okkur í skattafrumvörpum og

enn þá hefur lítið komið fram um það hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á skattalögum. Fjmrh. er í þeirri slæmu stöðu að hann er að innheimta skatta og framlengja skatta ár eftir ár sem hann hefur lýst yfir andstöðu sinni við eins og skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og það sýnir best að það er ekki tekið út með sældinni að innheimta skatta í þessu þjóðfélagi, ekki síst þegar kreppir að eins og nú.
    Það kemur fram í fjárlagafrv. að fyrirhugað er að endurskoða ýmsa liði, svo sem vaxtabætur, húsnæðissparnaðarreikninga o.fl. og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. í þessu samhengi hver þau fyrirheit eru því þau hafa að sjálfsögðu áhrif á skatttekjur ríkisins og tekjur ríkisins hafa að sjálfsögðu áhrif á lánsfjárþörfina. Ég spyr vegna þess að áform af þessu tagi var líka að finna í fjárlagafrv. í fyrra, þ.e. fyrir þetta ár, en ég hef ekki orðið vör við að þeim hafi verið fylgt eftir og ég á von á því að félmrh. hafi kannski staðið þar fyrir, svo sem varðandi vaxtabæturnar.
    Í fjórða lagi eru það hinar svokölluðu ráðstafanir í ríkisfjármálum sem birtast á hverju ári og hamingjan má vita hvað okkar bíður í þeim efnum núna. En reyndar gerist það, og ég ætla að víkja betur að því síðar, að í þessu frv. til lánsfjárlaga þá birtist einn sá þáttur sem einkenndi ráðstafanir í ríkisfjármálum á þessu ári, bandorminn, en það eru hin svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` sem birtast nú í frv. til lánsfjárlaga.
    Það verður auðvitað ekki hjá því komist að ræða aðeins stöðu þjóðarbúsins í þessu samhengi og við vitum það öll að því miður blasir við okkur vaxandi samdráttur sem birtist í öllum þessum frumvörpum sem við erum að ræða. Því er spáð að skuldir þjóðarbúsins muni vaxa sem m.a. er afleiðing af minni tekjum. Auðvitað vaknar sú spurning hvort við erum komin að hættumörkum í þeim efnum og ég vil gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvar menn draga mörkin. Hver eru mörkin? Hvar telja menn að veruleg hætta blasi við? Það kunna að vera skiptar skoðanir á því en ég held að ég hafi það rétt eftir að forstjóri Þjóðhagsstofnunar telji að við séum komin í býsna slæma stöðu, auðvitað eru miklar skuldir ríkisins alltaf slæmar en við séum þó ekki komin að hættumörkum. En ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. fjmrh. á því.
    Það kemur fram að halli ríkissjóðs fer minnkandi í kjölfar mikils niðurskurðar en þó verður ekki annað sagt en að stefna ríkisstjórnarinnar hafi mistekist að því leyti að ná ríkishallanum niður á tveimur árum og það var svo sem fyrirséð. Við sögðum það í umræðunni í fyrra að þetta væru algjörlega óraunhæf markmið og reyndar miklu viturlegra að stefna að því að ná ríkissjóðshallanum niður á lengri tíma. Það hefur komið í ljós að sú mun verða raunin.
    Víða erlendis er mikið rætt um halla ríkissjóðs og hvernig beri að taka á honum og m.a. hafa menn bent á það vestur í Bandaríkjunum að stjórnvöld þar hafi lagt allt of mikla áherslu að ná niður halla ríkissjóðs. Þeir hafi staðið í stanslausum niðurskurði sem hafi dregið úr fjárfestingum og hagvexti og valdið neikvæðum áhrifum í hagkerfinu og menn hafa lagt hart að Bush Bandaríkjaforseta að breyta um stefnu en það er líklega orðið of seint fyrir hann því það stefnir allt í það að hann missi sitt embætti og vonandi tekur við betri tíð fyrir almenning í Bandaríkjunum.
    Atvinnuleysið spilar að sjálfsögðu inn í og komið hefur fram að allar spár um þróun þjóðarbúsins eru í jákvæðari kantinum. Menn óttast að samdrátturinn verði meiri og það á ekki síst við um atvinnuleysið og ef atvinnuleysið verður verulega mikið meira en spáð er þá veldur það auðvitað auknum útgjöldum ríkissjóðs sem auðvitað raskar allri keðjunni.
    Það bólar því miður lítið á aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr atvinnuleysi þó boðaðar hafi verið nokkrar framkvæmdir, einkum í vegamálum, en ég hlýt að benda á að þær framkvæmdir munu fyrst og fremst gagnast karlmönnum og við hljótum að kalla á tillögur og aðgerðir sem geta gagnast konum og þá er manni ekki síst í huga það slæma ástand sem er á Suðurnesjunum sem er náttúrlega að verða aldeilis voðalegt og mjög erfitt og illt upp á að horfa og kallar hreinlega á að þar verði komið upp helst auðvitað arðbærri og skapandi vinnu, en ef ekki þá alla vega einhvers konar atvinnubótavinnu, því ástandið er komið á mjög alvarlegt stig. Það virðist bara magnast og er kannski fyrirboði þess sem koma skal annars staðar þó við vonum að svo verði ekki. En við hljótum að

kalla á aðgerðir, bæði aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, til þess að draga úr atvinnuleysinu.
    Allt tengist þetta svo stöðu fyrirtækjanna sem því miður er heldur slæm ef litið er á meðaltalið og þá ekki síst í sjávarútvegi. Það leiðir auðvitað af sér enn meiri samdrátt og atvinnuleysi sem kemur niður á hag heimilanna í landinu, þannig að við megum aldrei gleyma því í þessu samhengi, hvort sem við ræðum um ástand þjóðarbúsins, ríkisfjármálin eða atvinnulífið, að þetta er allt saman samhangandi keðja.
    Ég ætla þá að víkja að frv. sjálfu. Eins og ég nefndi áðan eru lánsfjárlögin ein hliðin á ríkisfjármálunum og í þeim birtist stefna ríkisstjórnarinnar og lánsfjárlögin spegla auðvitað stöðu ríkissjóðs. Í lánsfjárlögum fyrir árið 1993 birtist bæði það að samdráttur ríkir í þjóðfélaginu en líka það sem er kannski það jákvæða, að lánsfjárþörf ríkisins er heldur að dragast saman. En spurningin er hvort það sé í rauninni jákvætt, hvort það sýni hina raunverulegu stöðu eða hvort það birti fyrst og fremst niðurskurð. Því eins og ég hef nefnt þá getur líka niðurskurður í lántökum ríkisins og þar af leiðandi ýmsum framkvæmdum orðið til þess að magna samdráttinn.
    Ríkisstjórnin hefur hrósað sér af því að lánsfjárþörfin fari minnkandi en því miður verður ekki séð að sú minnkandi eftirspurn hafi skilað sér í lægri vöxtum á lánamarkaðnum. Það er örlítil lækkun en hún er í rauninni alls ekki sú vaxtalækkun sem þyrfti að verða. En eins og við vitum þá eru lægri vextir eitt af því sem getur haft mikil áhrif á stöðu fyrirtækjanna í landinu og það er jafnbrýnt nú og það var fyrir ári síðan að ná niður vöxtunum.
    Það kemur fram í þeim gögnum sem liggja fyrir að lánsfjáreftirspurn annarra en ríkisins hefur farið minnkandi, bæði fyrirtækja og heimila og það birtist ekki síst í þeim mikla samdrætti sem hér er í fjárfestingum sem er eitt af þessum alvarlegu teiknum sem við þurfum virkilega að huga að. En því miður virðist það vera svo að eftirspurn ríkisins eftir lánsfé sé enn þá það mikil að hún haldi vöxtunum uppi nema skýringin sé einhver önnur. Það hefur ekki tekist að ná vöxtunum niður eins og stefnt hefur verið að. Því verð ég að segja að ég fæ ekki séð að stefna ríkisstjórnarinnar hafi skilað sér að þessu leyti.
    Heildarlántaka ríkisins er 15,8 milljarðar kr. sem er nokkur lækkun frá síðasta ári. Ef við lítum á einstaka liði þá er enn að finna þá stefnu sem ríkt hefur á undanförnum árum að það er verið að vísa ýmsum stórum sjóðum ríkisins út á lánamarkaðinn. Hér gerist það t.d. að Lánasjóði íslenskra námsmanna er ætlað að taka 3 milljarða 540 millj. kr. að láni á næsta ári sem er aukning um 735 millj. kr. Þannig að þrátt fyrir þessar breytingar sem gerðar hafa verið á lánasjóðnum, þrátt fyrir niðurskurðinn sem þar á að eiga sér stað, þá er Lánasjóður íslenskra námsmanna að taka enn stærri lán. Þetta skýrist auðvitað fyrst og fremst af því að það fer meira og meira í afborganir og vexti af lánum hjá þessum sjóðum vegna lántaka á undanförnum árum. Þetta kemur mjög vel fram í þessu frv. Það gildir það sama um Byggðastofnun sem fær endurlán upp á 1.300 millj., fyrst og fremst vegna afborgana. Landsvirkjun 7 milljarða 450 millj. kr., fyrst og fremst vegna afborgana. Og sama gildir um byggingarsjóði ríkisins.
    Það er nokkuð merkilegt hvað lántaka Byggingarsjóðs ríkisins er mikil miðað við það hve útlánin hafa minnkað en þetta skýrist auðvitað fyrst og fremst af því að þeir sitja uppi með lán frá fyrri árum sem sjóðurinn þarf að greiða. Það sama gildir um Byggingarsjóð verkamanna, hann þarf líka að taka aukin lán, fyrst og fremst vegna afborgana og auðvitað lækkandi ríkisframlaga.
    Það vekur enn upp þá spurningu og hugleiðingar um það sem ég ætla að varpa hér fram að ég tel að við eigum að hyggja að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna, hvort ekki er hægt að fjármagna Byggingarsjóð verkamanna með öðrum hætti en gert hefur verið, þ.e. með ríkisframlögum og lántökum. Nú blasir sú staðreynd við okkur að þær tilraunir, sem hér hafa verið gerðar á undanförnum árum til ýmiss konar húsnæðissparnaðar, hafa meira og minna mistekist. Það er rætt um að leggja niður skyldusparnaðinn sem hefur verið neikvæður um nokkurra ára bil, það er verið að tala um að fella niður eða lækka skattafslátt af húsnæðissparnaðarreikningum og allt hlýtur þetta að vekja spurningar um það hvernig við fjármögnum þetta félagslega kerfi. Menn hafa neyðst til að setja ákveðnar takmarkanir á húsbréfakerfið en ég held að við hljótum að verða að huga að því ef við ætlum að tryggja gott félagslegt húsnæðiskerfi að það þarf að vera fjármagnað á ábyrgan og góðan hátt og ég varpa því fram eins og ég hef gert áður að menn hugi að því hvort ekki er hægt í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og ekki síst verkalýðshreyfinguna að leita leiða til öruggrar fjármögnunar fyrir Byggingarsjóð verkamanna því það er auðvitað óviðunandi að það fari alltaf stærri og stærri hluti af fjármagninu til afborgana af lánum og vöxtum.
    Það vekur nokkra athygli hve Iðnlánasjóður tekur mikið að láni, 2,3 milljarða, og þar er sama sagan, þetta fé á fyrst og fremst að fara í afborganir. Allt sýnir þetta okkur að þessar miklu lántökur á undanförnum árum ef ekki áratugum hafa leitt þessa sjóði út í þá stöðu að þeir eru stöðugt að borga af lánum en spurningin er hversu gagnast atvinnulífinu til nýsköpunar og fjárfestinga.
    Ég sé ekki ástæðu til að nefna sérstaklega ábyrgðirnar sem getið er í 5. gr., þ.e. til Vatnsleysustrandarhrepps, Norræna fjárfestingarbankans og Bæjarveitu Vestmannaeyja en kannski má geta þess að Vatnsleysustrandarhreppur er að undirbúa hafnargerð í Flekkuvík og er álverið þar aftur komið til sögunnar þó allt sé óvíst um þá framkvæmd.
    Ég ætla þá sérstaklega að víkja að 11. gr. frv. Ég verð að hrella hæstv. fjmrh. með því að þar eru mörg af mínum áhugamálum sem fara illa út úr fjárlögunum núna eins og í fyrra. Ég ætla aðeins að nefna nokkur atriði. Þó það fyrst að ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. um þessa lagasetningu. Mér þykir það afar einkennilegt að þessar ráðstafanir skuli vera settar inn í lánsfjárlög. Það kom fram á fundi efh.- og viðskn. að þetta hafi verið svona áður en það breytir ekki því að þessi ákvæði eru að mínum dómi afar sérkennileg inni í þessu frv. og ekki síst það að í þessum lögum er verið að vísa til þess að fjárframlög séu ákveðin í fjárlögum. Þarna er verið að vísa á milli laga og mér þykir þetta býsna sérkennilegt, fyrir utan það hve við erum í rauninni í vondum málum þegar menn endurtaka það ár eftir ár að skerða framlög, jafnvel framlög sem eru samkvæmt lögbundnum tekjustofnum.
    Hér er um mikinn niðurskurð að ræða, upp á 1.541 millj. kr. samkvæmt yfirliti frá fjmrn. Margt af þessu er gamalkunnugt, annað er nýrra og ég hlýt að vekja athygli á nokkrum liðum og þá er fyrst að nefna Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins sem er tekinn með öllu, 200 millj. kr. Þá minnist ég þess að okkur þingmönnum barst í sumar bréf frá Ríkisútvarpinu þar sem vakin var athygli á slæmri stöðu framkvæmda á vegum Ríkisútvarpsins. Það hefur komið hér fram að menn eru að biðja um fréttamenn í ýmsum landshlutum og það þarf að endurnýja endurvarpsstöðvar og ýmislegt en ríkið stingur þessu í eigin vasa. Ég tel það nú vera af hinu vonda.
    Ég vil nefna sérstaklega Húsfriðunarsjóðinn sem er skertur um 24,5 millj. kr. Við gerðum Húsfriðunarsjóðinn mjög að umtalsefni í upphafi þessa árs þegar við ræddum bandorminn. Ég hlýt að minna á það aftur að hans bíða gríðarlega mikilvæg verkefni og þá ekki síst það að gera upp marga gömlu torfbæina fyrir utan ýmis gömul hús sem liggja undir skemmdum en eru á skrá hjá Þjóðminjasafninu og þurfa virkilega mikilla viðgerða við.
    Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi vegna þess að þessi hús skapa miklar tekjur. Þetta eru minjasöfn. Þau kalla á fjölda ferðamanna og ef þau eru öll í niðurníðslu er náttúrlega lítil von til þess að fólk vilji koma að skoða þau.
    Við kvennalistakonur vorum á ferð um Norðvesturland nú í haust og komum m.a. á Hofsós þar sem er að finna eitt af elstu húsum á landinu, mjög merkilega skemmu sem var reist hér á landi eiginlega fyrir tilviljun. Þetta merkilega hús var í umsjá Þjóðminjasafnsins en var að grotna niður þar til sveitarfélagið hreinlega tók sig til, lánaði Þjóðminjasafninu peninga og lét gera við húsið. Þetta hús hefur valdið því að ferðamenn streyma til Hofsóss til að skoða þetta merkilega hús sem átti að reisa sem veiðikofa á Grænlandi á 18. öld en lenti hér uppi á Íslandi. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum en þarna er að mínum dómi um mjög alvarlegt menningarmál að ræða og ég skora á hæstv.

fjmrh. að skoða þetta mál betur.
    Þá er að nefna Menningarsjóð sem nú er algerlega skorinn niður og ber þess vott að ríkisstjórnin og hæstv. menntmrh. fremstur í fylkingu hefur unnið að því að leggja Menningarsjóð og bókaútgáfu hans niður að því er ég tel á algerlega ólöglegan hátt. Við munum koma síðar að því máli í þingsölum.
    Þá vekur athygli liðurinn Uppgjör við sveitarfélög sem er skorinn niður um 295 millj. kr. Mér þætti gaman að vita hvað sveitarfélögin hafa um þetta mál að segja.
    Þá er Stofnlánadeild landbúnaðarins enn einu sinni skorin hressilega niður. Við munum að sjálfsögðu kalla á þessa aðila í efh.- og viðskn. Þar skýrist væntanlega hvernig þessi niðurskurður kemur við þessa aðila. Það hlýtur að vekja athygli hér eins og reyndar í upphafi þessa árs og í fjárlögunum sem eru til umræðu hvað landbúnaðurinn verður fyrir miklum niðurskurði að þessu sinni.
    Ég ætla ekki að nefna önnur atriði nema Ferðamálaráð og Ferðamálasjóð sem skorinn er niður um 111 millj. Þetta er auðvitað sama markinu brennt og annað hjá ríkisstjórninni að það er gjarnan verið að höggva af vaxtarbroddana og krukka í fjárframlög til þeirra aðila sem gætu orðið atvinnuskapandi. Ég lýsi yfir sérstakri óánægju minni með þetta. Við munum að sjálfsögðu athuga þetta mál sérstaklega í efh.- og viðskn.
    Ég ætla ekki að fara nánar út í Vegagerðina. Það er stórt og mikið mál sem við þurfum að skoða rækilega.
    Að lokum langaði mig til að koma aðeins inn á örfá atriði. Í fyrsta lagi það að frv. fylgir viðauki. Það er nýjung í þessum lögum að þeim fylgi viðauki þar sem birtar eru heimilaðar innlendar og erlendar lántökur hins opinbera árið 1993. Sú spurning hlýtur að vakna hvort það sé eðlilegt að fjmrn. ákveði með þessum hætti hvernig lántökum skuli háttað hjá opinberum sjóðum, þ.e. það sé ákveðið fyrir fram hversu mikið skuli tekið að láni innan lands og hversu mikið erlendis. Væri ekki eðlilegra að þeir sem stýra þessum sjóðum ákveði það sjálfir og leiti hinna hagstæðustu kjara? Mér þykja ákvarðanir af þessu tagi ekki alveg í samræmi við það viðskiptafrelsi sem hér er verið að innleiða og spurning hvort þetta séu eðlilegir og góðir stjórnarhættir. Þetta eru sjálfstæðir sjóðir þó þeir séu á ábyrgð ríkisins og ég teldi eðlilegt að þeir ákveði sjálfir hvernig þeir haga sínum lántökum. Það er að sjálfsögðu skiljanlegt að ríkisvaldið vilji fylgjast með skuldum þjóðarbúsins og halda lántökum innan ákveðins ramma. En að ákveða þetta með þessum hætti er ég ekki sammála.
    Að lokum ein spurning til hæstv. fjmrh. Hún varðar þá ákvörðun fjmrh. að á næsta ári skuli heimild til yfirdráttar í Seðlabankanum afnumin. Sú spurning hlýtur að vakna hvort þetta sé skynsamlegt við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu, hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa upp á eitthvað að hlaupa og hvaða áhrif þetta muni hafa. Hvaða áhrif mundi þetta hafa á ríkissjóð? Hvaða áhrif mundi þetta hafa á vaxtastigið? Því er haldið fram að yfirdrátturinn í Seðlabankanum, sem má segja að sé auðvitað peningaprentun, valdi aukinni spennu og haldi uppi vöxtum en við hljótum að velta því fyrir okkur hvort skynsamlegt sé við þær aðstæður sem nú ríkja að afnema þennan möguleika ríkissjóðs.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið í gegnum frv. og velt nokkuð vöngum yfir þeim forsendum sem það byggist á. Hér er margt að skoða og eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni speglar þetta frv. bæði stefnu ríkisstjórnarinnar og ástandið í þjóðmálum, en það gildir eins og reyndar í fyrra að margt er í óvissu og það verður að koma í ljós hvernig frv. og þær áætlanir sem ríkisstjórnin hefur sett fram standast. Við kvennalistakonur munum taka afstöðu til þessa frv. á síðari stigum.