Fræðsluefni um EES

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:31:45 (1649)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér á hv. Alþingi er til meðferðar í nefnd till. til þál. þess efnis að samningur um Evrópska efnahagssvæðið verði borinn undir atkvæði þjóðarinnar.

    EES-samningurinn er eins og svo oft hefur komið fram eitt mikilvægasta mál sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Samningurinn varðar alla þjóðina afar miklu og þess vegna fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að hann verði borinn undir þjóðaratkvæði. Tillagan virðist þrátt fyrir það falla í grýttan jarðveg hjá hæstv. ríkisstjórn. Ráðherrarnir telja þjóðina ekki nægilega vel að sér til að meta samninginn. Hæstv. utanrrh. hefur t.d. haldið því fram að þjóðin viti ekki um hvað samningurinn snúist og þess vegna sé hún ekki fær um að greiða atkvæði um hann.
    Það er mjög alvarlegt mál ef ætlunin er að afgreiða samning um Evrópska efnahagssvæðið án þess að kynna hann rækilega fyrir íbúum landsins. Ekki er hægt að bera fyrir sig að tækifæri til þess bjóðist ekki. Við rekum bæði ríkisútvarp og ríkissjónvarp. Vissulega hefur ákveðnum þáttum samningsins verið gerð skil í fréttum frá Alþingi en það er greinilega langt frá því að vera nægjanlegt. Nauðsynlegt er að gera sérstaka fræðsluþætti þar sem kynnt verða helstu atriði samningsins og fram koma bæði sjónarmið þeirra sem eru samningnum andvígir og þeirra sem styðja hann.
    Ég hef spurst fyrir um það hvort slík þáttagerð sé á döfinni hjá Ríkisútvarpi eða sjónvarpi en hef fengið þau svör að svo væri ekki vegna peningaskorts hjá stofnuninni. Ekki veit ég hvaða reglur gilda um skiptingu fjármagns milli deilda hjá Ríkisútvarpi/sjónvarpi eða hvar metnaður þeirra liggur í þeim efnum en oft finnst mér að meira fjármagn mætti fara til fréttastofu og til þess að gera fréttatengda þætti. Það er það efni sem flestir horfa á.
    Því hef ég á þskj. 78 leyft mér að bera fram þessa spurningu til hæstv. ráðherra:
  ,,1. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því að ljósvakafjölmiðlar, sjónvarp og útvarp, standi fyrir víðtækri kynningu, gerð fræðsluefnis og þátta um EES?
    2. Telur ráðherra þessa fjölmiðla hafa möguleika til slíkrar dagskrárgerðar án sérstaks fjárstuðnings?
    3. Ef ekki, er ráðherrann tilbúinn til þess að beita sér fyrir sérstakri fjárveitingu til þessa verkefnis?``