Fræðsluefni um EES

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:34:16 (1650)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þessi fsp. hefur beðið svars nokkuð lengi vegna fjarveru minnar af þingi um tíma. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda biðlundina og það sama gildir raunar um aðrar fyrirspurnir til mín sem á dagskrá þessa fundar eru.
    Það er spurt hvort ég sé tilbúinn að beita mér fyrir því að ljósvakafjölmiðlar, sjónvarp og útvarp, standi fyrir víðtækri kynningu á gerð fræðsluefnis og þátta um EES. Svar mitt er þetta: Menntmrn. hefur til þessa ekki skipt sér af dagskrárgerð í ljósvakafjölmiðlum. Það er mikilvægt grundvallaratriði að ljósvakafjölmiðlar séu sjálfstæðir gagnvart framkvæmdarvaldinu og séu ekki á nokkurn hátt handbendi þess. Það eru ekki uppi áform í ráðuneytinu um að hverfa frá þeirri stefnu að láta dagskrárgerð ljósvakafjölmiðla afskiptalausa.
    Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra telji þessa fjölmiðla hafa möguleika til slíkrar dagskrárgerðar án sérstaks fjárhagsstuðnings. Hvað fjárhagslega getu ljósvakafjölmiðla til að sinna dagskrárgerð af þessu tagi varðar má benda á að ljósvakafjölmiðlar á Íslandi hafa mun rýmri möguleika til tekjuöflunar en tíðkast t.d. í öðrum ríkjum Norðurlanda þar sem íslenskum ljósvakafjölmiðlum er heimilt að afla tekna með afnotagjöldum og auglýsingum auk þess sem utanaðkomandi aðilum er heimilt að styrkja gerð einstakra dagskrárliða. Þessu til viðbótar er það hlutverk Menningarsjóðs útvarpsstöðva að veita styrki til dagskrárgerðar. Ég tel því að ljósvakafjölmiðlar hafi þessa möguleika án sérstaks fjárhagsstuðnings og þeir hafi raunar sýnt það.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Ef ekki, er ráðherra tilbúinn til þess að beita sér fyrir sérstakri fjárveitingu til þessa verkefnis?`` Mér sýnist að það ætti að vera óþarft með vísan til svars við 2. lið fsp. og jafnframt óheppilegt með vísan til svars við 1. lið fsp. að veita sérstaka fjárveitingu til dagskrárgerðar af þessu tagi.