Fræðsluefni um EES

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:36:24 (1651)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikla máli. Það eru allir sammála um að hér sé um að ræða eitt mesta og stærsta mál íslenska lýðveldisins og vissulega þurfa menn að fá sem gleggstar upplýsingar. Ég vil vekja á því athygli að Alþingi gaf á sínum tíma út þessa bók, Ísland og Evrópa, sem ég er með hér í hendinni. Hún er hið merkasta plagg og er undirrituð af mér sem formanni Evrópustefnunefndar 7. des. 1990. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en upplýsingar hafa verið af nokkuð skornum skammti fyrir almenning og er nauðsynlegt að fá að vita hvað er að gerast.
    Ég skil ósköp vel sjónarmið hæstv. ráðherra að auðvitað á ríkisvaldið sjálft ekki beinlínis að ráða dagskrárgerð nema í þessu tilfelli þar sem Alþingi er að auglýsa núna þessa bók. Alþingi hefur gert annað. Það getur samið við Ríkisútvarpið og þess vegna er síðasti liður fsp. alveg eðlilegur. Alþingi getur gert þetta með beinni fjárveitingu.