Fræðsluefni um EES

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:40:31 (1654)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt sem hefur komið fram að hér er um sérstakt og stórt mál að ræða sem skiptir miklu fyrir þjóðina. Ég dreg ekki úr því. En ég bendi hins vegar á að stjórnvöld hafa gengist fyrir mjög mikilvægu og fjölbreyttu kynningarstarfi og það hefur fyrst og fremst verið á vegum utanrrn. Kynningarbæklingur var sendur inn á hvert einasta heimili. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson minntist hér á útgáfu bókar Evrópustefnunefndar sem var mjög fróðleg bók og kannski væri ástæða til einmitt að kynna betur og koma henni sem víðast á framfæri.
    Ég íteka líka að Ríkisútvarpið hefur á undangengnum missirum gengist fyrir mjög víðtækri kynningu á því sem hér er á dagskrá með mörgum þáttum um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Það að Ríkisútvarpið ber við peningaskorti eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda má vel vera. En Ríkisútvarpið verður að meta það í hvað það leggur sitt fjármagn,

hvort því þykir t.d. mikilvægara að senda upptökumenn og fréttamenn til Tyrklands til þess að segja okkur frá því sem þar er að gerast, en að kynna nú á þessum dögum EES. Ég treysti mér ekki til þess að hafa bein afskipti af því hjá Ríkisútvarpinu.