Málefni Ríkisútvarpsins

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:50:16 (1658)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans en ég bendi á að samkvæmt áliti þeirra sem um málið hafa fjallað er ekki önnur lausn í sjónmáli á næstu 10--15 árum en að nota langbylgjustöð. Til að tryggja boðleiðir Almannavarna ríkisins er langbylgjan nauðsynleg. Það er ekki fullnægjandi að treysta á FM-bylgju. Hún getur dottið út og gerir það oft.
    Ríkisútvarpið verður að ná til allra landsmanna og hafa minnst eina varaleið. Ég ætla mér ekki að fara út í tæknilegar útskýringar, ég hef engar forsendur til þess. En ég held líka að það sé skammsýni að ætla að nota lóranmastrið á Gufuskálum til þessara hluta svo ég er fegin að heyra að það skuli ekki lengur vera inni í myndinni.
    Í þessu sambandi verðum við líka að tala um öryggismál skipanna í kringum landið. Það er nauðsynlegt fyrir þau að hafa lóranstöðina á Gufuskálum.
    Það er með öllu óviðunandi að sífellt sé farið í kringum gildandi lög eins og gert er með Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Á sama tíma hafa auglýsingatekjur útvarpsins verulega dregist saman fyrir áhrif frá öðrum fjölmiðlum. Nú kemur til viðbótar í fjárlagafrv. fyrir árið 1993 að stofnunin á að greiða virðisaukaskatt sem gæti numið um 120 millj. kr. ásamt greiðsluuppbót til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að upphæð 20 millj. kr. Það er því mjög þrengt að fjárhag Ríkisútvarpsins á alla kanta og því ekki gert mögulegt að sinna hlutverki sínu, jafnvel þó komið hafi fram í máli hæstv. ráðherra að nú séu á fjárlögum 59 millj. kr. hærri fjárveiting til útvarpsins en á síðasta ári.
    Ég tel því að til þess að Ríkisútvarpið geti staðið við nauðsynleg fjárútlát á þessu ári þyrfti að koma til stórhækkun afnotagjalda. Þeir tala um allt að 10%. Það er alls ekki góður kostur á þeim tímum sem við lifum nú. Ég vænti þess að endurskoðun á útvarpslögum muni skila árangri fyrir útvarpið.