Bæklingur meiri hluta stjórnar LÍN

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:55:05 (1660)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svar mitt við fyrstu spurningunni er svohljóðandi:
    Bæklingurinn kostaði 333.760 kr. Meiri hluti stjórnar LÍN gaf hann ekki út. Hann var gefinn út af stjórninni í heild þó rétt sé að taka fram að ágreiningur var hafður uppi af hálfu minni hluta stjórnarinnar um orðalag í honum og fulltrúar námsmanna mótmæltu útgáfu hans. Það breytir ekki því að fyrir útgáfu bæklingsins var stjórnarsamþykkt. Mótatkvæði rýra ekki gildi hans.
    Önnur spurningin: Telur ráðherra eðlilegt að almannafé sé varið til útgáfu áróðursbæklinga á vegum fulltrúa ríkisstjórnarinnar í stjórn LÍN?
    Ég vísa til svars við fyrstu spurningu og hafna því að hér sé um áróðursbækling á vegum fulltrúa ríkisstjórnarinnar í stjórn LÍN að ræða. Bæklingurinn er gefinn út af stjórninni sem slíkri. Ég tel fullkomlega eðlilegt að almannafé sé varið til útgáfu upplýsingabæklings sem þessa og treysti stjórn LÍN til að meta slíkt.
    Í bæklingnum koma fram afarmikilvægar upplýsingar um staðreyndir. Þar er skýrt með glöggum hætti hvaða vanda var við að glíma í málefnum lánasjóðsins, hvaða lykilhlutverki hann hefur gegnt í íslensku þjóðlífi og hversu brýnt var að koma í veg fyrir að hann kæmist í greiðsluþrot og gæti ekki gegnt því hlutverki áfram. Þá er enn fremur gerð grein fyrir því hvernig framtíð sjóðsins er tryggð. Hér er því ekki um áróðursbækling að ræða, miklu fremur tel ég að í bæklingnum sé komið á framfæri mikilvægum upplýsingum sem rétt er og skylt að láta þeim í té sem fyrst og fremst þurfa að fjalla um málefni LÍN, þ.e. alþingismönnum og fjölmiðlum.
    Þriðja spurningin er: Ætlar menntmrh. að beita sér fyrir því að minni hluti stjórnar LÍN gefist kostur á að kynna sjónarmið sín í litprentuðum bæklingi?
    Svar mitt er að ég tel það ekki í verkahring menntmrh. að hlutast til um einstakar útgáfur á vegum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Sá bæklingur sem hér er rætt um var gefin út af stjórn LÍN. Það er í valdi þeirrar sömu stjórnar að taka afstöðu til þess ef tillögur koma fram um útgáfur á vegum sjóðsins og ég mun ekki skipta mér af því.