Bæklingur meiri hluta stjórnar LÍN

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:57:10 (1661)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Ég verð þó að segja að ég er túlkun hans mjög ósammála. Það kann að vera að minni hluti stjórnarinnar hafi ekki haft uppi mikinn ágreining um útgáfu þessa bæklings en ég veit þó að fulltrúar námsmanna í stjórn lánasjóðsins eru ekki sammála þeirri túlkun sem þar kemur fram. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að kynna námsmönnum og aðstandendum þeirra þær breytingar sem gerðar voru á reglunum sem gilda um sjóðinn, annað er ekki eðlilegt, því þarna verða verulegar breytingar á kjörum námsmanna og þeir verða að sjálfsögðu að vita hvað þeirra bíður í framtíðinni varðandi afborganir af sínum lánum.
    Það þarf ekki annað en skoða þennan bækling til að sjá að hér er einhliða áróður á ferðinni. Hér er ákveðin túlkun á ferðinni. Þeir kalla þetta t.d. í millifyrirsögn ,,Viðreisn sjóðsins``. Þegar búið er að lýsa samkvæmt þeirra túlkun stöðu sjóðsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Við þessar aðstæður varð menntmrh. Ólafur G. Einarsson og stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna að grípa til mjög róttækra úrræða til að forða lánasjóðnum frá þroti og reisa fjárhag hans við.``
    Það lá á þessum tíma fyrir skýrsla sem sýndi að hefði sjóðurinn verið gerður upp í fyrra hefði hann átt fyrir skuldum. Ég gæti tekið fleiri dæmi sem sýna þessa einhliða túlkun.
    Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því, virðulegi forseti, að sú stefna sem tekin hefur verið í Lánasjóði ísl. námsmanna er mjög umdeilanleg. Og ég teldi ekki óeðlilegt að menntmrh., sem er yfirmaður þessa málaflokks, gæti þess að réttlætið nái fram að ganga og að önnur sjónarmið eigi að koma fram en þau sem hér eru túlkuð af stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna.