Farskóli Kennaraháskóla Íslands

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:03:30 (1664)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ein af þeim ánægjulegu nýjungum sem ákveðin var á síðustu missirum í menntamálum var stofnun dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar sem undirbúin var í Kennaraháskóla Íslands, aðallega af Berit Johnsen lektor á sinni tíð.
    Það hefur verið gert ráð fyrir því að farskóli Kennaraháskóla Íslands hefji störf á næsta ári. Okkur þingmönnum hafa borist fjölmörg bréf um það mál frá m.a. Kennarasambandi Íslands og fleiri aðilum. Ég leyfi mér, virðulegi foreti, að lesa upp stutt bréf sem barst afrit af til menntamálanefndarmanna frá fræðslustjóra Vestfjarðaumdæmis. En Vestfjarðaumdæmi hefur verið verr sett vegna skorts á menntuðum kennurum en önnur umdæmi. Bréfið er á þessa leið:
    ,,Hér með er þess farið á leit við yður, hæstv. ráðherra, að þér beitið yður fyrir því að fjármagn fáist til að taka á móti a.m.k. 100 kennaranemum í farskóla Kennaraháskóla Íslands, sem hefst um næstu áramót. Enn fremur er farið fram á að sérstaklega verði tekið tillit til þeirra fræðsluumdæma sem búið hafa við kennaraskort á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum frá Kennaraháskóla Íslands hafa 194 alls sótt um inngöngu í farskóla Kennaraháskóla Íslands, þar af 36 frá Vestfjörðum. Umsækjendur héðan að vestan hafa mjög margir starfað við kennslu undanfarin ár og eru búsettir á svæðinu. Ef þeir fá aðgang að þessu námi og ljúka því gæti kennaraskortur hér á Vestfjörðum heyrt sögunni til eða a.m.k. minnkað verulega.
    Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá Kennaraháskóla Íslands er áætlaður kostnaður pr. nemenda í þessu námi um 250 þús. kr. á ári sem er lægra en annað háskólanám hérlendis.
    Þá er minnt á niðurstöður fræðslustjóra frá vorinu 1991 um ráðstafanir til úrbóta kennaraskortinum á landsbyggðinni þar sem m.a. var bent á þessa leið sem vænlega til lausnar. Þessar niðurstöður voru kynntar í þingflokkum á sínum tíma en ekkert var aðhafst í málinu. Enn fremur er minnt á ráðstefnu um þetta efni sama vor þar sem aftur var bent á þessa lausn og einnig hvatt til aukningar við almennt kennaranám við Kennaraháskóla Íslands.
    Það er skoðun mín`` --- segir fræðslustjórinn á Vestfjörðum --- ,,að hér sé um að ræða virkustu og ódýrustu aðgerð sem völ er á til að bæta úr kennaraskorti hér og því ítreka ég beiðni þá sem ég setti fram í upphafi að þér styðjið mál þetta sem nauðsynjamál skólakerfisins.``
    Með hliðsjón af þessu bréfi svo og bréfi sem borist hefur frá Kennarasambandi Íslands og dags. 20 okt. 1992, hef ég leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh.: Hversu margir nemendur verða teknir í farskóla Kennaraháskóla Íslands á næsta ári og hvenær hefst það nám?