Farskóli Kennaraháskóla Íslands

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:06:08 (1665)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Kennaraháskóli Íslands afgreiddi innkomnar umsóknir um skólavist í farskólanum í byrjun þessa mánaðar. Alls höfðu borist 194 umóknir. 60 fengu skólavist. Átta eru á biðlista en 126 fengu neikvætt svar. Af innrituðum nemendum eru nokkrir sem ekki verða í fullu námi þannig að þessir 60 einstaklingar munu samsvara 50 nemendum í fullu námi.
    Við undirbúning farskólans hefur Kennaraháskólinn áætlað heildarkostnað á hvern nemanda 250 þús. kr. á árinu 1993. Heildarkostnaður við innritaða nemendur í farskólanum mun því nema 12,5 millj. kr. Í ljósi kennaraskorts á landsbyggðinni er auðvitað erfitt að vísa frá 126 umsækjendum um farskólann. Ég get sem dæmi nefnt sem hér hefur raunar komið fram að af 194 umsækjendum voru flestir eða 37 frá Vestfjörðum. Fjórtán af þeim fengu skólavist, einn er á biðlista en synja þurfti 23.
    Það er stórfellt byggðamál að sem flestir sem þess óska komist í farskólann. Kennaraskortur er eitt af mögum vandamálum landsbyggðarinnar sem við verðum að taka á þrátt fyrir þrengingar í ríkisfjármálum. Að beiðni menntmrn. hefur Kennaraháskóli Íslands kannað möguleika á að taka
fleiri nemendur inn í farskólann. Miðað við skipulag námsins er mögulegt að bæta við fleiri nemendum fáist til þess fjármagn. Ég vil fyrir mitt leyti beita mér fyrir auknum fjárframlögum til farskóla Kennaraháskólans og það mál er nú í sérstakri athugun.
    Svar við síðari spurningunni um hvenær þetta nám hefst þá er ætlunin að það hefjist á næsta vori.