Farskóli Kennaraháskóla Íslands

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:08:24 (1666)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Ég spurði einnig um það á síðasta þingi hvað liði þessum málum og ég er mjög ánægð að heyra það í svari ráðherra að þetta nám er fyrirhugað. Hins vegar finnst mér rétt að benda á hversu fáir komast að og jafnframt að þetta nám mun fyrirhugað aðeins einu sinni. Ég tel þess vegna að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að miklu fleiri geti stundað þetta nám, sérstaklega með tilliti til þess ef það á ekki að vera nema einu sinni sem mér finnst raunar svolítið undarlegt líka. Því þegar einu sinni er búið að koma þessu námi á hlýtur það að vera ódýrara að halda því áfram heldur en þegar það er sett á stofn í fyrsta skipti.