Farskóli Kennaraháskóla Íslands

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:09:23 (1667)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa fsp. og jafnframt hæstv. menntmrh. fyrir þær jákvæðu undirtektir sem komu fram í máli hans varðandi þessa hugmynd sem ég er sammála um að er eitt af því mikilvægasta til að leysa þann mikla vanda sem steðjar að landsbyggðinni vegna kennaraskortsins.
    Ég vil vekja athygli á því vegna þess að það var talað um og kom raunar fram í svari við fsp. sem ég lagði fram um þessi mál að hlutfall fólks án kennararéttinda við kennslustörf er hæst á Vestfjörðum. Þá er engu að síður nauðsynlegt að vekja á því athygli að margt þetta fólk er með ágæta undirbúningsmenntun en skortir hins vegar hina eiginlegu kennarmenntun. Fyrir þetta fólk er auðvitað óskaplega mikils virði að hafa aðgang að kennaramenntuninni í gegnum kennaranám með fjarkennslusniði eða dreifða og

sveigjanlega kennaramenntun.
    Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að þessu máli sé alveg sérstaklega sinnt og ég met mjög mikils yfirlýsingu hæstv. menntmrh. þess efnis að hann hyggist beita sér fyrir því að hægt verði að taka fleiri nemendur, því ljóst er að það að taka inn 60 nemendur, 50 nemendur í fullu námi, er engan veginn lausn á þeim mikla vanda sem við er að glíma á landsbyggðinni í þessum efnum.