Farskóli Kennaraháskóla Íslands

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:10:54 (1668)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka einnig hæstv. menntmrh. fyrir skýr svör og sömuleiðis ágætan vilja sem fram kom í hans máli. Ég vil hins vegar gera örfáar athugasemdir. Í fyrsta lagi það sem kom fram í máli hv. 6. þm. Vestf. að það væri ætlunin að þetta yrði aðeins einu sinni. Satt að segja hafði ég ekki haft hugmyndaflug til þess að láta mér detta í hug að það væri meiningin. Ég vil þess vegna skora á hæstv. menntmrh. að svara því hvort þetta er virkilega ætlunin.
    Það er náttúrlega alveg ljóst að þessi mikla aðsókn núna, 194 einstaklingar, yrði ekki jafnmikil næsta haust, svo ég nefni dæmi. Hér eru auðvitað saman komnir þeir sem hafa fyrstir áhuga á að ganga í þetta, tiltekinn hópur brennandi áhugamanna sem vill fara í þetta nám núna. Það er því alveg ljóst að umsækjendahópurinn yrði eitthvað minni að ári.
    Ég vil einnig taka undir það og segja að ég tel að okkur þingmönnum sé skylt að leita allra leiða til þess að fjárlagafrv. verði breytt ef nauðsyn krefur þannig að þarna verði hægt að bæta við fólki. Ég bendi á að ef 100 nemendur yrðu teknir inn eins og hefur verið talað um, þá mundi það kosta um 12,5 millj. kr. í viðbót ef ekki kæmi til hagræðing innan Kennaraháskólans sem auk þess kann að vera kostur á og ég þekki ekki í einstökum atriðum.
    Ég vil einnig leyfa mér að inna eftir því hvort hæstv. menntmrh. hefur við höndina tölur um hvernig sá hópur umsækjenda sem fengið hefur aðgang að fjarnáminu í Kennaraháskólanum skiptist á fræðsluumdæmin. Hann var með tölu fyrir Vestfirði. Það er hugsanlegt að hann hafi tölur fyrir önnur umdæmi sem væri þá fróðlegt að heyra.
    Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti að ég tel þetta eitt allra brýnasta jafnréttismál í menntamálum í landinu og að okkur þingmönnum í öllum flokkum beri að beita okkur fast með ráðherranum, úr því hann hefur þennan jákvæða vilja, til þess að lenda málinu með góðum hætti.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég hafði skilið það svo að ætlunin væri að byrja þetta nám núna um áramótin. Ég heyri að það á að byrja í vor og átta mig ekki alveg á því hvað hefur gerst í millitíðinni og hvort þessar 250 þús. kr. eru miðaðar við tvö missiri eða eitt.