Afstaða Landsvirkjunar til lækkunar orkuverðs

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:35:12 (1680)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Þetta er einkar þörf umræða og hv. 1. þm. Norðurl. v. dró athyglina að því sem mestu máli skiptir sem er hvernig við getum aukið hlut raforkunnar í orkubúskap landsins. Til þess þarf að sjálfsögðu að beita verðkerfi orkufyrirtækjanna og eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur Landsvirkjun upp á síðkastið einmitt unnið að því, m.a. í samstarfi við dreifiveiturnar, á grundvelli samkomulags sem um það var gert í byrjun þessa árs. Þetta er gott og blessað en ég tel að Landsvirkjun þurfi að taka alveg sérstaklega á húshitunarmálinu vegna eindregins vilja þingsins og ríkisstjórnarinnar að fyrirtækið taki þátt í því máli.
    Ég mótmæli því sem kom hér fram hjá hv. 6. þm. Vestf. að það lýsi einhverjum tvískinnungi að í sama fjárlagafrv. skuli fjallað um styrki til húshitunar til landsmanna og arðkröfu til Landsvirkjunar. Það er eðlilegur hlutur. Þarna þarf auðvitað að finna jafnvægi. Eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. benti á eigum við að beita þessu öfluga fyrirtæki landsmanna í þágu þeirra allra því að fyrirtækið lýtur núna sérstakri stjórn með lögbundnum og samningsbundnum hætti. Það hefur sjálfstæða fjárhagslega stöðu. Þess vegna hlýtur ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið og reyndar einnig löggjafarvaldið á þessu stigi máls að starfa með því að beina tilmælum til Landsvirkjunar. Ég veit að þingið mun sameinast um það, en þar má aldrei gera neitt sem brýtur í bága við eðlilega fjárhagslega forsjá í þessu fyrirtæki. Því veit ég að enginn þingmaður mælir bót.