Afstaða Landsvirkjunar til lækkunar orkuverðs

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:38:54 (1683)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns verð ég að vekja athygli á því að Landsvirkjun leggur nú talsvert af mörkum til að jafna orkuverð í landinu, þ.e. raforkan frá Landsvirkjun er seld á sölustöðum Landsvirkjunar, sama spenna vel að merkja, á sama verði hvar sem er á landinu. Þetta er út af fyrir sig talsvert skref í áttina til jöfnunar orkuverðs.
    Hins vegar hefur Landsvirkjun lítið vald á olíuverði eða verði heitu vatni og þar af leiðandi er málið ekki alfarið í í höndum Landsvirkjunar. Ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti

þurfa að koma þar að.
    Það er hins vegar skothent hjá ríkisstjórninni og ég felldi mig aldrei fyllilega við þau tilmæli sem Alþingi var að tillögu ríkisstjórnarinnar látið beina til fulltrúa sinna í stjórn Landsvirkjunar að þeir beittu sér fyrir lækkun á raforku til húshitunar. Vegna þess, og ég vek athygli á því, að fulltrúar Alþingis þó þeir standi saman í stjórn Landsvirkjunar, sem þeir reyndar gera oft, ráða ekki þessu fyrirtæki. Stjórn þess er þannig skipuð að borg og Akureyrarbær eiga helming fulltrúanna og formaður er ráðherraskipaður.