Skilgreining á hugtakinu Evrópa

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:41:12 (1684)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum þremur árum hafa miklar breytingar orðið í ríkjum Austur-Evrópu. Flestar þær þjóðir sem áður lifðu við kommúnískt kerfi hafa tekið stefnuna í átt til lýðræðis- og markaðsbúskapar þótt misjafnlega gangi. Þjóðir Austur-Evrópu allt austur að Úralfjöllum vilja gerast aðilar að því mikla samstarfi sem í gangi er milli ríkja Vestur-Evrópu hvort sem er á efnahags-, menningar- eða hernaðarsviði.
    Sú spurning hefur vaknað hvaða þjóðir séu Evrópuþjóðir. Á að miða við landfræðilega eða menningarlega skilgreiningu? Það er ljóst að menning þjóða eins og Azera og Íslendinga er afar ólík. Réttareglur og trúarbrögð eru af ólíkum toga og fleira mætti telja. Í Evrópuráðinu þar sem ég á sæti ásamt nokkrum öðrum íslenskum þingmönnum hefur mikil umræða átt sér stað um þetta efni, m.a. vegna þess að fjöldi þjóða ber að dyrum og vill fá inngöngu. Það skiptir miklu máli fyrir framtíð hvers kyns Evrópusamstarfs hvaða sameiginlegi skilningur verður lagður í hugtakið Evrópa.
    Þetta er atriði sem Alþingi Íslendinga þarf að ræða en mig fýsir að vita hvort málefnið hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar eða í utanrrn. og hvort afstaða hefur verið tekin til þess hvernig beri að skilgreina Evrópu.
    Því spyr ég hæstv. utanrrh.: Hefur íslenska ríkisstjórnin tekið afstöðu til þess hvernig beri að skilgreina Evrópu í ljósi þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað í álfunni á undanförnum árum? Ef svo er, hver er sú skilgreining?