Skilgreining á hugtakinu Evrópa

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:42:56 (1685)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Nýjar lexíur í landafræði og sögu hafa vissulega verið ræddar í utanrrn. þótt ofmælt væri að segja að við höfum komist að endanlegum kórréttum niðurstöðum.
    Samkvæmt hefðbundinni landbundinni skilgreiningu nær Evrópa yfir vestasta hluta meginlands Evrasíu. Mörkin í norðri eru í Norður-Íshafi, mörkin að Asíu í austri og í suðaustri liggja um Úralfjöll, Kaspíahaf, Kákasusfjöll, Svartahaf og Eyjahaf. Miðjarðarhaf skilur að Afríku og Evrópu og Norður-Atlantshaf skilur að Evrópu og Norður-Ameríku. Stærstu eyjar Evrópu eru Novaja Semlja, Spitzbergen, Ísland, Stóra-Bretland og Írland.
    Eins og kunnugt er er heimsálfan Evrópa fremur skilgreind á grundvelli sögulegra, pólitískra, efnahags-, félags- og menningarlegra þátta heldur en á grundvelli þessarar lexíu í landafræði.
    Ríkisstjórnin hefur ekki talið ástæðu til að breyta með formlegum hætti skilgreiningu á Evrópu í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á undanförnum árum. Það hvort ríki teljist til Evrópu eða óski eftir samstarfi við Evrópu á samstarfsvettvangi hennar er kannað í hverju tilviki fyrir sig. Almennt teljast t.d. Rússland og Tyrkland til Evrópu þótt þau liggi landfræðilega að verulegu leyti í Asíu. Asíuríki fyrrum Sovétríkja eru meðlimir í Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu þótt þau teljist ekki landfræðilega til Evrópu, en þau voru áður meðlimir sem hluti af Ráðstjórnarríkjum. Í Evrópuráðinu er talað

um að þessi lönd geti haft samvinnu eða tengsl við ráðið ef þau hafa evrópskt stjórnkerfi að leiðarljósi og hafa haft stjórnmála og söguleg tengsl við Evrópu.
    Þá má nefna að fyrrum nýlendur aðila að Evrópuráðinu hafa nána samvinnu við Evrópuríki og við Evrópuráðið þótt þessi ríki teljist ekki landfræðilega til Evrópu.
    Hjá Sameinuðu þjóðunum starfar t.d. samráðshópur, ríkjahópur sem kennir sig við Vestur-Evrópu og önnur ríki en í þeim hópi starfa t.d. lönd eins og Nýja-Sjáland, Ástralía, Bandaríkin og Kanada af sögulegum ástæðum vegna þess að þessi lönd byggðust að stofni til af innflytjendum af evrópskum uppruna. Einnig má nefna að þar er ríkjahópur Austur-Evrópuríkja sem í dag er samstarfshópur um kosningar í ráð og nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna.
    Í ákveðnum tilvikum er talað um Evrópu sem samstarfsvettvang fyrir lýðræðislegt stjórnarfar ef menn vilja beita pólitískri skilgreiningu. Hugsanlegt er að hafa náið samstarf á vettvangi Evrópusamstarfs við lýðræðisríki, jafnvel þau sem eru einangruð frá alþjóðlegu samstarfi í sínum heimshluta.
    Stundum er með hugtakinu Evrópa og einkum og sér í lagi í Evrópuráðinu og innan Evrópubandalagsins átt við Evrópubandalagið eitt sér eða samrunaferli þess. Slík skilgreining er hins vegar undir engum kringumstæðum notuð í utanrrn. og fellur ekki að þessu svari, virðulegi þingmaður.