Skilgreining á hugtakinu Evrópa

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:48:00 (1687)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd, enda heimila þingsköpin víst ekki annað. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa spurningu hér vegna þess að ég, eins og hv. þm., á sæti í Evrópuráðinu og þar er einmitt mikil umfjöllun um það nú hvernig Evrópuráðið eigi að taka á samskiptum við Asíuþjóðir fyrrverandi. Sovétríkjanna, hver samskipti eigi að vera þar á milli og hvernig samskipti þeirra við Evrópuráðið eigi að vera.
    Ég þakka því ráðherra fyrir svör hans einnig en tel ekki óeðlilegt að komið væri á fundi með fulltrúum Alþingis sem sitja í Evrópuráðinu og fulltrúum utanrrn. til þess að fjalla nánar um þessi mál. Þó að við þekkjum nokkurn veginn um hina landfræðilegu skilgreiningu eins og hún hefur verið túlkuð hingað til, og við erum svo sem ekki að gera því skóna að farið verði í miklar breytingar á henni, eru uppi ákveðin vandamál varðandi þessi samskipti.
    Ég á sæti í svokallaðri efnahagsnefnd Evrópuráðsins þar sem fjallað hefur verið um samstarf við þessar þjóðir, hvernig hægt sé að styrkja þær og styðja í lýðræðisþróun þeirra og efnahagslegri uppbyggingu og þess vegna finnst mér afar mikilvægt að eiga gott samráð við utanrrn. og ríkisstjórnina um það hvernig við eigum að taka á þeim málum þegar þau koma til umræðu í þeim nefndum og því starfi sem við innum af hendi í Evrópuráðinu.