Skilgreining á hugtakinu Evrópa

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:50:02 (1688)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Mér fannst þau sýna það að hann nálgast þetta mál með opnum huga, enda tel ég rétt að gera það en gjarnan má umræðan um þetta verða meiri. Við þingmenn, sem sæti eigum í Evrópuráðinu, höfum hugsað okkur að standa fyrir því að slík umræða eigi sér stað í þinginu enda hafa verið lagðar fram miklar skýrslur í Evrópuráðinu þar sem tekið er á þessum málum og í þeim er m.a. skorað á þjóðþingin að ræða þessi mál.
    Kjarni þeirrar spurningar, sem ég lagði fyrir hæstv. utanrrh., er auðvitað sá, hvaða áhrif það hefur þegar þessar þjóðir austast í álfunni koma inn í Evrópusamstarfið á hvaða sviði sem er. Menn hafa m.a. bent á að t.d. hjá þeim þjóðum sem eru múslimar gilda allt aðrar réttarreglur en við eigum að venjast. Hvaða áhrif hefur það t.d. þegar fulltrúar þessara ríkja koma inn í Mannréttindadómstól Evrópu og aðrar þær stofnanir þar sem tekist er á við ýmis þau vandamál sem álfan á við að glíma? Þetta eru mjög mikilvægar spurningar sem munu hafa áhrif á allt okkar samstarf en mér hefur sýnst þróunin vera sú að menn voru mjög efablandnir í fyrstu hvort það væri hreinlega rétt að hleypa þessum þjóðum að en eftir því sem menn skoðuðu málið betur þá varð sú niðurstaða ofan á, t.d. í þeim nefndum sem ég á sæti, að það væri bæði rétt og skylt að þjóðir Vestur-Evrópu reyndu að veita þessum þjóðum alla þá aðstoð og leiðbeiningar sem hægt er að láta af hendi. Það væri miklu nær að hleypa þeim að og aðstoða heldur en að útiloka þær frá samstarfi Evrópuþjóða. En íslenska þingið þarf að ræða þessi mál og okkur öllum að vera ljóst hvaða breytingar eru fram undan í Evrópusamstarfinu.