Skilgreining á hugtakinu Evrópa

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:52:38 (1689)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurnartími er satt að segja orðinn að lexíu í landafræði og ást, svo ég noti nafn á einhverjum ærslaleik sem settur hefur verið á fjalir. Landafræðin er út af fyrir sig óbreytt í breytilegum heimi. Það sem við erum að tala um er pólitík og hin pólitíska spurning er þessi: Eru Evrópuþjóðir reiðubúnar að opna vettvang sinn til samstarfs við aðrar þjóðir og þá á hvaða skilmálum?
    Ef við lítum á þau meginskjöl Evrópusamstarfsins, sem liggja því til grundvallar, lokaskjal Helsinki-sáttmálans, Parísaryfirlýsinguna og ýmsar grundvallaryfirlýsingar annarra slíkra alþjóðasamtaka og skilgreiningar Evrópuráðsins á þeim skilmálum sem ríki verða að fullnægja til aðildar þar þá snúast þau um tiltölulega einfalda hluti. Þau snúast um það að hér sé um að ræða lýðræðisríki, samkvæmt skilgreiningu okkar hefða um fjölflokka lýðræðisríki þar sem lýðræðislegar kosningar fara fram með reglulegum hætti. Þær snúast um réttarríki, að einstaklingsfrelsi og mannréttindi séu virt og í hávegum höfð, fyrir utan það að af pólitískum ástæðum hafa ýmsir talað um að þau verði að vera valddreifð ríki, hvort sem menn kenna það við markaðshagkerfi eða blandað hagkerfi. Þetta eru almennt þeir mælikvarðar sem menn hafa notast við og í reynd hafa verið lagðir til grundvallar þegar á reynir um það hvort ríkjum skuli hleypt inn í þessi samtök.