Sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:55:00 (1690)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 163 beini ég eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh.:
  ,,1. Hvers vegna hyggst ráðherra leggja niður sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum?

    2. Telur utanrrh. að mögulegt verði að sinna öllu því starfi sem Íslendingar þurfa að taka þátt í og fylgjast með hjá Sameinuðu þjóðunum án sendiráðs í New York?``
    Því er ekki að leyna, virðulegi forseti, að þessar spurningar eru sprottnar af fréttum sem birst hafa í fjölmiðlum og einnig þeim upplýsingum sem er að finna í frv. til fjárlaga fyrir árið 1993. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Aðrar helstu breytingar í starfsemi sendiráða og fastanefnda eru að gert er ráð fyrir að sendiherra Íslands í Bandaríkjunum gegni jafnframt starfi fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Við þessa ráðstöfun er talið að sparast muni um 8 millj. kr.``
    Til starfseminnar í New York, bæði þeirrar sem fram fer á vegum Sameinuðu þjóðanna og eins hjá ræðismanni Íslands eða þeirra sem gegna þeim störfum, eru ætlaðar 27 millj. kr. en sparnaður nemur eins og ég sagði áðan 8 millj. Nú er það ekki sparnaðurinn sem ég er að spyrja um heldur fyrst og fremst það hvernig starfinu hjá Sameinuðu þjóðunum verður háttað eftir þessar breytingar. Ég tel að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því.
    Ég hef sjálf verið fulltrúi Kvennalistans hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir næstum því tíu árum síðan og þá sýndist mér að þar færi fram mjög mikið starf. Ég gat ekki betur séð en íslensku starfsmennirnir ættu fullt í fangi með að sinna því starfi og við varaþingmenn, sem þar voru, hlupum þar inn í eftir því sem þurfa þótti.
    Nú hygg ég að á næstu árum muni Sameinuðu þjóðirnar eflast ef eitthvað er í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í heiminum og þar má nefna þá þróun sem fylgdi í kjölfar styrjaldarinnar við Persaflóa. Ég verð að segja að ég mundi heldur vilja sjá Sameinuðu þjóðirnar eflast en ýmsar stofnanir sem verið er að koma á fót og því tel ég ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvað verða muni um starf Íslendinga hjá Sameinuðu þjóðunum og því legg ég þessar spurningar fyrir hæstv. utanrrh.