Sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 12:00:39 (1693)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan af þessu tilefni árétta að hér er um að ræða tímabundna sparnaðarráðstöfun. Hv. þm. spyr: Er það alveg víst að þeir fjórir starfsmenn sem þarna eru geti sinnt þeim verkefnum sem sinna þarf?
    Svarið við því er já. Fyrir því er nokkur reynsla. Þess má geta að starf fastanefndarinnar á hinum raunverulega álagstíma, sem er þegar allsherjarþingið situr er styrkt bæði með því að hv. Alþingi sendir fulltrúa þingflokkanna til starfa og sem betur fer hefur það í vaxandi mæli verið með þeim hætti að þeir taka virkan þátt í störfum nefnda á vegum þingsins. Auk þess sendir utanrrn. á álagstímum sérstakan starfsmann til þess að létta undir í þessum störfum. Við hefðum alls ekki gripið til þessarar sparnaðarráðstöfunar nema af sérstökum ástæðum og í fullri vitneskju og trausti þess að fastanefndin sem slík geti gegnt sínum störfum.
    Ég vil kannski að gefnu tilefni vekja á því athygli að það eru einmitt sérstaklega fastanefndirnar hjá fjölþjóðasamtökum Íslands sem eru í vaxandi mæli að taka á sig meiri og þýðingarmeiri störf fremur en þau sendiráð sem gegna tvíhliða samskiptum við einstök ríki. Þetta á að sjálfsögðu við fastanefndirnar hjá Atlantshafsbandalaginu, hjá Evrópubandalaginu, hjá EFTA í Genf og hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.
    Það er hverju orði sannara að fyrirsjáanlegt er að í framtíðinni mun starfsemi Sameinuðu þjóðanna eflast. Það er mjög í mótun og ef þær breytingar sem fram undan eru leiða í ljós að það sé nauðsynlegt að styrkja þessa fastanefnd frekar þá verður það gert vegna þess að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða. En hitt verður að undirstrika að því fer fjarri að með þessari sparnaðarráðstöfun hafi sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum verið lagt af eða einhver slík áform séu uppi.