Sendiráð Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 12:02:56 (1694)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það er afar mikilvægt starf sem fastanefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum gegnir og mér finnst miðað við þau framlög sem eru í frv. til fjárlaga áætluð, 27 millj. kr., að nefndinni verði afar þröngur stakkur sniðinn hvað varðar fjárhag. Þessi 8 millj. kr. sparnaður finnst mér líka svolítið skondinn þegar ég hugsa til þess að í fjárln. hafa komið fram þær upplýsingar að á sama tíma og verið er að skera niður þarna þá er sérstakur lögfræðingur á föstum launagreiðslum erlendis og líklega staðsettur á nálægu svæði sem hefur í laun hátt í það sem á að spara með því að ráða ekki fastafulltrúa í New York. Sá lögfræðingur starfar að hvalveiðimálum eftir því sem okkur er sagt.