Íslenskt sendiráð í Vínarborg

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 12:07:43 (1696)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. spyr: Hvers vegna stendur til að opna nýtt íslenskt sendiráð í Vínarborg?
    Svarið við því er mjög einfalt: Það stendur ekki til. Það hefur ekki staðið til og mun ekki standa til eftir því sem ég best veit.
    Það er ekki verið að opna nýtt sendiráð í Vínarborg. Því miður. Eða ekkert því miður, það er ekki verið að opna nýtt sendiráð í Vínarborg.
    Við höfum haft fastafulltrúa hjá Ráðstefnuninni um samvinnu og öryggi í Evrópu frá árinu 1986 og það eru einir fjórir embættismenn sem hafa gegnt því starfi hingað til. Það sem hefur verið ákveðið, án þess að auka kostnað við þessa starfsemi um krónu, er að hagræða þátttöku Íslands hjá ráðstefnunni með því að gefa þeim fulltrúa, sem hingað til hefur verið útsendur heiman af aðalstöðvum, stöðu fastafulltrúa. Það er reyndar sparnaðarráðstöfun vegna þess að kostnaður við það að halda honum úti án starfsaðstöðu búandi á hótelum og á dagpeningakjörum ráðuneytismanna var óhagkvæmara en það fyrirkomulag sem nú er sem er í því fólgið að leigja íbúð og skrifstofu með skrifstofuaðstöðu.
    Eins og ég sagði þá hafa fjórir slíkir útsendir embættismenn haft fasta viðveru í Vínarborg frá árinu 1986. Eftir því sem ráðstefnan hefur vaxið að umfangi og hefur verið stofnanabundin og hefur höfuðstöðvar ekki einasta í Vín heldur í Prag, Berlín og Varsjá þá hefur álag á þennan útsenda starfsmann vaxið gríðarlega mikið. Spurningin sem var til ákvörðunar var sú: Eigum við að hætta þátttöku í þessu eða eigum við að skapa þá lágmarksaðstöðu að hægt sé að sinna starfinu?
    Mín niðurstaða var sú í ljósi þess að hér er um að ræða víðtækasta samstarfsvettvang og reyndar eina samstarfsvettvanginn, sem við höfum við hin nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu, ekki síst á sviði afvopnunarmála, á sviði ráðgjafar um lýðræðislegar stofnanir, kosningar og fleira þess háttar --- og reyndar er margt sem bendir til þess að þetta samstarf verði enn þá víðtækara --- þá hefði það ekki samrýmst íslenskum hagsmunum að leggja þetta af. Þess vegna var fundið upp fyrirkomulag sem gerir okkur kleift að sinna þessu með lágmarkstilkostnaði, minni tilkostnaði en við gerðum áður. Því er fsp. um að við séum að stofna íslenskt sendiráð í Vínarborg eða það er gefið í skyn að það sé með auknum kostnaði á misskilningi byggð.
    Mér finnst það skjóta skökku við af því að ég veit að hv. þm. er að gera mér þær hugmyndir fyrir fram að hv. þm. sé friðarsinni, þá lýsi ég eftir því: Er hv. þm. virkilega þeirrar skoðunar að Ísland eitt Evrópuríkja hefði átt að segja sig frá víðtækasta samstarfi

Evrópuríkja á sviði afvopnunarmála, öryggismála, friðarmála og samstarfs á sviði lýðræðislegrar þróunar? Ég ímynda mér að eftir skoðun hefði hv. þm. komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki verjandi að segja sig frá þessu samstarfi. Hvað sem líður því að ráðherrafundir eða þingmannasamkundur í tengslum við þessi samtök kunna að þykja heldur innihaldslitlir þar sem menn fara með heimastíla, sem er rétt, þá breytir það ekki því að þessi ráðstefna er vissulega sá vettvangur sem hefur skipt sköpun í þróun í Evrópu. Það var á vettvangi þessarar ráðstefnu í framhaldi af Helsinki-fundinum sem samið var um mestu afvopnunarsamninga í sögu heimsins. Og það er reyndar svo að sem aðili að Atlantshafsbandalaginu hefur Ísland þar hagsmuna að gæta og er þess vegna nauðugur einn kostur að taka þátt í þessu samstarfi.
    Svo vil ég að lokum taka fram, virðulegi forseti, af því að það gafst ekki tími til að svara því hér áðan, að það er enginn bandarískur lögfræðingur í þjónustu utanrrn. sem ráðgjafi í hvalamálum. Hann er í þjónustu einhverra annarra.