Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 13:48:16 (1703)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það er í senn bæði hlægilegt og sorglegt að fá hálftíma á Alþingi til að ræða þetta stórkostlega alvarlega mál, atvinnuástandið á Suðurnesjum. Reyndar verð ég að segja að svarræða hæstv. forsrh. var sorgleg. Hæstv. forsrh. er enn þá að ræða um fortíðarvandann. Hæstv. forsrh. sagði ekki orð um þá stöðu sem er núna með miklu minni verðbólgu t.d. til þess að ráðast í nýjar framkvæmdir á sviði atvinnuveganna. Það var ekki allt rétt sem hæstv. forsrh. sagði, t.d. það að síðasta ríkisstjórn leyfði vegna atvinnuástands á Suðurnesjum að ráðast í mjög stóra byggingu flugskýlis þar sem er til þess að auka þar vinnu í viðhaldi flugvéla. Einnig má nefna það að ég setti á fót nefnd til þess að skoða hvort ekki mætti, eins og nú er kallað, markaðssetja Keflavíkurflugvöll.
    Ég vildi gjarnan nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað líður athugun á þeirri skýrslu sem nýlega er komin fram og tillögu um að gera Keflavíkurflugvöll að miðstöð alþjóðlegra farþega- og vöruflutninga. Ég tel þetta afar athyglisvert mál og sjálfsagt að ráðast í það sem fyrst.
    Ég vil hins vegar nefna það að Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum beittu sér fyrir fundi með þingmönnum. Þar kom fram vilji þingmanna til að standa saman að aðgerðum á Suðurnesjum og ég legg mikla áherslu á að á það verði reynt.
    Hins vegar hljótum við að vilja hér miklu ítarlegri umræðu um atvinnuástandið almennt ekki síst eftir ræðu hæstv. forsrh. Ég vil fara formlega fram á að hér verði utandagskrárumræða um atvinnuástandið í landinu og með ótakmörkuðum tíma.