Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 13:50:18 (1704)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Atvinnulífið í landinu glímir nú við óvenju margslunginn og erfiðan vanda. Til viðbótar aflaskerðingu og erfiðleikum sem fylgja almennri efnahagslægð í heiminum bætist sá vandi sem fylgir því að flytja atvinnustarfsemina frá störfum sem tengjast varnarmálum og hernaðarmannvirkjum til annarra starfa. Þetta eru allt saman almennir þættir en það vill svo til að þeir falla allir saman í einn stað á Suðurnesjum. Þar veldur samdráttur framkvæmda á Keflavíkurflugvelli uppsögnum starfsmanna hjá Aðalverktökum. Þar veldur erfiður róður í áliðnaði heimsins frestun á framkvæmdum á Keilisnesi. Þar eru erfiðleikar í sjávarútvegi tilfinnanlegir. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að atvinnuleysið er tvöfalt meira á Suðurnesjum en annars staðar á landinu. En þetta eru líka rökin fyrir því að taka þurfi sérstaklega á þessum staðbundna vanda.
    Efnahagsvandi af þessu tagi verður ekki leystur með neinum skyndilausnum, hvorki gengisbreytingu né fjáraustri úr ríkissjóði. Við þurfum að taka á þessu með skipulegum hætti og stjórnvöld hafa sérstakar skyldur við þetta svæði af þeim ástæðum sem ég hef þegar lýst. Þetta hefur verið viðurkennt í verki með því að setja nefnd til starfa á vegum ríkisstjórnarinnar eins og hæstv. forsrh. lýsti. Hún mun leitast við að fella í einn farveg þær aðgerðir sem horfa til þess að treysta atvinnulífið á Suðurnesjum. Ég nefni þar aðgerðir á sviði sjávarútvegs, ekki síst markaðssókn inn á Evrópusvæðið. Ég nefni þar eflingu iðnaðar og staðsetningu stóriðju. Ég nefndi þar eflingu flugvallarins og markaðsfærslu hans. Ég nefni þar átak í ferðamálum. Ég nefni það líka að Íslenskir aðalverktakar eigi og hljóti að taka þátt í þessari uppbyggingu með einhverjum skynsamlegum hætti.
    Þetta, virðulegi forseti, tel ég ástæðu til að segja í þessari umræðu sem að sjálfsögðu er við mjög knappan tíma. En eitt er mjög mikilvægt og það gildir að sjálfsögðu um Suðurnes eins og alla aðra staði á landinu. Það þarf að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna án þess að glata þeim stöðugleika sem unnist hefur á undanförnum missirum. Af því munu Suðurnesjamenn hafa sérstakt gagn og um það þarf að mynda breiða samstöðu í landinu.