Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 13:52:41 (1705)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það eru dapurleg tíðindi fyrir Suðurnesjamenn að hér í dag skuli forsrh. enn koma og boða kredduna um engar sértækar aðgerðir og ráðherrar Alþfl. skuli taka undir þann söng. Það ber að harma.
    Það sem er þó jákvætt við það sem hefur verið að gerast og er að gerast á Suðurnesjum hefur verið byggt á sértækum aðgerðum. Það er rétt að segja forsrh. frá því ef hann veit það ekki. Þegar ég samþykkti sem fjmrh. að fella niður aðflutningsgjöld vegna flugskýlisbyggingar Flugleiða sem mun skapa um 200 ný störf, þá var það sértæk aðgerð. Þegar við gerðum samkomulagið um stækkun Fjölbrautaskólans við sveitarfélögin á Suðurnesjum eitt sér og ekki við neitt annað svæði, þá var það líka sértæk aðgerð. Það hús er nú tekið í notkun rúmlega ári seinna og flugskýlið er að rísa. Báðar þessar byggingar eru byggðar á sértækum ákvörðunum. Þess vegna er það auðvitað þannig að ef menn ætla að halda sig við kredduna um engar sértækar aðgerðir verður fórnarkostnaðurinn áframhaldandi atvinnuleysi á Suðurnesjum.
    Nú á að gera samkomulag sveitarfélaganna og ríkisins um byggingu D-álmunnar með sama hætti og Fjölbrautaskólans. Sveitarstjórnirnar á Suðurnesjum eru reiðubúnar til þess að gera slíkt samkomulag. Ég vona það strandi ekki á kreddunni um engar sértækar aðgerðir hjá ríkisstjórninni.
    Nú á að ákveða að Aðalverktakar komi með tækjakost sinn og mannafla og fjármuni í að breikka Reykjanesbrautina og aðrar atvinnuskapandi aðgerðir á Suðurnesjum.
    Það er leitt að utanrrh. skuli segja það hér að hann treysti sér ekki til að hafa vald á því máli vegna þess að meirihlutaeign ríkisins í Íslenskum aðalverktökum sé marklaus. Ég vona að ráðherrarnir hverfi frá sínum kreddum því það væri dýrt að atvinnuleysi á Suðurnesjum þurfi að bera fórnarkostnaðinn vegna þess að í landsstjórninni eru menn sem halda fast við úreltar kreddur.