Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:03:19 (1710)


     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Það er enginn vafi á því að Suðurnesjamenn gjalda þess nú mjög að hafa á undanförnum árum og áratugum orðið háðir erlendum her um atvinnu sína, erlendum her sem nú dregur saman seglin þegar hagsmunum hins erlenda stórveldis hentar. Og sannast því það sem andstæðingar þessarar hersetu hafa sagt um árabil hversu fallvalt það er að setja traust sitt á slíkan vinnuveitanda.
    Dæmin um þetta eru fleiri. Í mínu heimabyggðarlagi var á sjötta áratugnum reist herstöð og rekin þar í 15 ár. Það tímabil einkenndist þar umfram allt af stöðnun, algerri stöðnun í annarri atvinnuuppbyggingu á meðan. Einn angi af sambúð Suðurnesjamanna og landsmanna við herinn er sú staðreynd að helsti millilandaflugvöllur landsmanna er rekinn á herstöðvarsvæðinu. Ég fullyrði að möguleikar þessa flugvallar hafa á engan hátt verið nýttir á undanförnum árum til umsvifa og atvinnusköpunar eins og hægt væri. Forsenda þess að mínu mati að gera það er að gjörbreyta því skipulagi um stjórn og uppbyggingu sem þar hefur verið við lýði. Það þarf að taka flugmferð Íslendinga undan stjórn utanrrn., stjórna henni eins og öðrum samgöngumálum í landinu. Sömuleiðis þarf að taka það landsvæði sem er umhverfis flugstöð og þjónustusvæði undan þessari stjórn. Þá eru miklir möguleikar til að nýta þessa aðstöðu til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar ef rétt verður á málum haldið, en það mun ekki gerast undir stjórn utanrrn. sem af einhverjum ástæðum virðist hafa verið eins og mús undir fjalaketti allan þann tíma og alltaf þegar þessi mál eru til umræðu.