Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 15:39:24 (1717)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram í umræðum um þessi málefni á norrænum vettvangi að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé einn mikilvægasti samningur milli Norðurlandanna um áratuga skeið. Ég vil leyfa mér að taka undir þetta sjónarmið sem fram hefur komið í umræðum á þingum annarra Norðurlanda og sömuleiðis á þingi Norðurlandaráðs og leyfa mér að fullyrða að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er stærsta skref fram á við í norrænu samstarfi um langt árabil.
    En hvers vegna segi ég þetta í byrjun umræðu um skýrslu um endurmat á norrænu samstarfi? Það er vegna þess, eins og fram hefur komið í máli manna sem hafa talað á undan mér, að þær breytingar sem eru á döfinni í Evrópu hafa gert nauðsynlega þá endurskoðun á norrænu samstarfi sem við erum að ræða um þó svo að hún hafi reyndar verið nauðsynleg í sjálfu sér hvort sem þessi þróun hefði orðið eða ekki. Og það er líka rétt sem haldið hefur verið fram á norrænum vettvangi að það er ekki spurning um það hvort Norðurlöndin geti valið að standa annaðhvort ein að samstarfi sín á milli eða taka þátt í Evrópusamstarfi. Þetta er spurningin um hvort tveggja, spurningin um að vera bæði aðilar að norrænu samstarfi og þátttakendur í því sem er að gerast á stærri vettvangi milli Evrópulandanna.
    Það er enginn vafi á því að norrænt samstarf á undanförnum árum --- bæði hið formlega og skipulagsbundna samstarf á vettvangi ríkisstjórna, þjóðþinga og embættismanna sem og hið óformlega samstarf sem allir þekkja til á hvaða vettvangi sem þeir starfa í þjóðfélaginu, grasrótarsamstarf af ýmsu tagi --- hefur verið Íslendingum gríðarlega mikilvægt. Og þó að það hafi verið lenska stundum að gera lítið úr þessu samstarfi, þá hygg ég að engum blandist um það hugur, sem með einhverjum hætti hefur kynnst eða tekið þátt í þessu samstarfi, hversu mikilvægt það er í raun og veru. Fyrir íslensk stjórnvöld og íslenska stjórnmálamenn er það staðreynd sem allir þekkja að samstarfið milli Norðurlandanna er gríðarlega mikill og öflugur bakstuðningur hvar sem Íslendingar fylgja fram sínu máli á alþjóðavettvangi. Þetta vita allir sem starfa á hinu háa Alþingi og þetta hygg ég að menn geri sér ljóst í æ ríkara mæli úti í þjóðfélaginu. Við getum ekki verið án þessa stuðnings, án þessa samstarfs við okkar norrænu bræðraþjóðir og við eigum að leggja töluvert á okkur til þess að því verði haldið áfram með þeim hætti sem okkur hentar og sem okkar hagsmunir krefjast.
    Eins og ég sagði áðan eru núna breyttar forsendur í Evrópu að mörgu leyti. Það er ekki bara samrunaþróunin í Mið- og Vestur-Evrópu. Það eru líka breyttar aðstæður í Austur-Evrópu. Það eru breyttar aðstæður við Eystrasalt og það hefur sem betur fer einnig gerst að þau Norðurlöndin, sem áður treystu sér ekki til þess að fylgja hinum þremur að því er varðar utanríkis- og öryggismál, hafa núna miklu frjálsari hendur en áður var, einkum og sér í lagi Finnland, til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir og sjálfstæða afstöðu í utanríkis- og öryggismálum. Auðvitað hafa forsendur líka breyst verulega í Svíþjóð að þessu leyti og almennt viðurkennt meðal ráðamanna þar að hlutleysisstefnan sem þeir fylgdu um áratuga skeið sé nú orðin úrelt.
    Þess vegna hefur það gerst samtímis að mjög margar og mikilvægar forsendur hafa breyst og er þess vegna nauðsynlegt og var nauðsynlegt og í samræmi við kröfur tímans þegar forsætisráðherrarnir ákváðu það fyrir um það bil ári síðan að beita sér fyrir að hið formlega norræna samstarf yrði endurskoðað en niðurstaðan sem liggur á borðum þingmanna sem þingskjal er sú skýrsla sem við erum að ræða.
    Það þurfti að huga að breyttu skipulagi þessa samstarfs og breyttu innihaldi að einhverju marki með tilliti til þess sem hefur verið að gerast á þeim vettvangi sem ég hef nefnt. Það er ekkert athugavert við að þetta skuli gert og þetta er gert þrátt fyrir þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum áratugum í samstarfi milli þessara landa sem óþarfi er að rekja hér sérstaklega og hefur verið gert margoft úr þessum ræðustól.
    Ég vakti athygli á því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði væri mikilvægt innlegg í þessi mál og hann væri mikilvægur samstarfssamningur milli Norðurlandanna. Það er auðvitað þannig að Norðurlöndin öll, þó svo mikið hafi verið um það talað, gátu ekki komið sér saman um samstarf með þessum hætti á vettvangi efnahags- og viðskiptamála. Það er búið að tala um Norðurlönd sem einn heimamarkað um árabil. Hann kemur ekki til framkvæmda fyrr en fyrst nú með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þannig mætti auðvitað lengi telja. En þetta hefur það í för með sér að ýmis mál sem áður hafa mikið verið til umræðu og fyrirferðarmikil á vettvangi Norðurlandanna verða nú rædd á nýjum vettvangi, þ.e. innan þess fyrirkomulags sem Evrópskt efnahagssvæði gerir ráð fyrir ef við reiknum með því að sá samningur nái fram að ganga. Eins og kunnugt er hafa þingin í kringum okkur nú hvert af öðru verið að ganga frá fullgildingu þess samnings, síðast í gær Evrópuþingið og í fyrradag finnska þingið. Það er því ljóst að það var full þörf á að endurskipuleggja þessi mál og ég tel að meginatriði þeirra tillagna sem nú liggja fyrir séu í samræmi við þá þróun sem þarna hefur orðið.
    Ég ætla nú að víkja nokkuð að einstökum atriðum í þeim tillögum sem fyrir liggja án þess að eyða mörgum orðum að hverju atriði fyrir sig. Það er ástæðulaust að fjölyrða um hluti sem við í Íslandsdeild

Norðurlandaráðs erum til að mynda sammála um og sömuleiðis kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að hann er sammála.
    Ég tel rétt og skynsamlegt á þessu stigi að fela forsætisráðherrunum aukna pólitíska ábyrgð á norrænu samstarfi og gera þá ábyrga fyrir þeirri virku formennsku sem er rauði þráðurinn í þeim skipulagsbreytingum sem hér eru lagðar til. Þetta útheimtir hins vegar aðrar breytingar á því skipulagi sem verið hefur og í tillögunum er gert ráð fyrir sérstakri stjórnarnefnd sem annist daglegan rekstur á þessu samstarfi ef svo mætti segja, sérstakri nefnd aðstoðarmanna ráðherra eða embættismanna á hæsta stigi í embættiskerfinu sem mundu sinna því verki.
    Áfram er gert ráð fyrir því að samstarfsráðherrann, sem við þekkjum frá árinu 1971, starfi eins og verið hefur. Hins vegar eru þeir gallar á þessari tillögu að hans verkefni eru ekki mjög vel skilgreind og satt að segja ekki ljóst hvaða hlutverki hann mun gegna innan þessa nýja fyrirkomulags. Ég hef heyrt þeirri hugmynd hreyft að það gæti verið skynsamlegt í stað þess að viðhalda embætti samstarfsráðherra Norðurlandanna að taka upp sérstaka stöðu aðstoðarmanna norrænna málefna í stjórnarráðum þessara landa og þá á skrifstofu forsætisráðherrans og undir beinni stjórn hans að sjálfsögðu. Ég vil nefna þessa hugmynd hér án þess að gera hana endilega að minni en ég tel í öllu falli nauðsynlegt að það verði skýr verkaskipting milli manna hvert svo sem endanlegt skipulag verður þannig að það liggi alveg fyrir hver á að gera hvað; samstarfsráðherrann, forsætisráðherrann, fagráðherrarnir og svo stjórnarnefndin nýja sem gert er ráð fyrir í þessari skipan. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið í ræðum manna fyrr í dag að það er ekki æskilegt að auka embættismannaveldið svokallaða í þessu samstarfi. Þvert á móti er ástæða til að auka áhrif og ábyrgð stjórnmálamannanna. Ég held að tillagan sem slík um virka formennsku og aukin áhrif forsætisráðherranna gangi einmitt út á það.
    Að því er varðar breyttar áherslur í verkefnavali og hinn nýja menningarsjóð vil ég segja það að ég tel mörgum spurningum ósvarað varðandi þennan sjóð. Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir hvaðan á að taka peningana. Með öðrum orðum liggur ekki fyrir hvaða verkefni eiga að hverfa af þeim sem nú eru í gangi eða hvaða norrænar stofnanir eigi að hverfa. Meðan það liggur ekki fyrir er auðvitað erfitt að leggja mat á hvort menn vilja fórna þeim stofnunum fyrir þennan nýja sjóð. Á Íslandi eru ekki margar samnorrænar stofnanir en til að mynda ein þeirra, Norræna eldfjallastöðin, er þess eðlis að þar eru ekki jafnbeinir hagsmunir hinna Norðurlandanna og okkar á rannsóknum á þessu sviði þó auðvitað hafi öll Norðurlönd áhuga á grundvallarrannsóknum í náttúruvísindum. Ég tel hins vegar að þessi stofnun gæti sem hægast fallið undir það ákvæði þessara tillagna þar sem talað er um að þær stofnanir eigi ekki að leggja niður sem séu nauðsynlegar vegna sérstakra aðstæðna í viðkomandi landi. En um þetta vitum við ekki nóg. Það er ekki búið að leggja fram tillögur um hvaða stofnunum eða verkefnum eigi að fórna til þess að stofna þennan nýja menningarsjóð.
    Sömuleiðis er ekki ljóst hver eiga að vera samskipti þessa sjóðs við þann norræna menningarsjóð sem við þekkjum í dag og heldur er það ekki ljóst hvort þessi nýi sjóður eigi að vera undir stjórn þingmanna eða eingöngu ríkisstjórnanna eða menningarmálaráðherranna. Ef það er hugmyndin, eins og má raunar skilja á þessum tillögum, tel ég það ekki æskilegt. Ég tel hins vegar að hugmyndin um þennan nýja menningarsjóð, jafnöflugur og hann á að vera, geti haft ýmislegt gott í för með sér einkum að því er varðar eflingu alls kyns óformlegs samstarfs, grasrótarsamstarfs, sem, eins og allir vita, er oft á sviði menningarmála hvort sem það eru leiklistarhópar eða listamenn aðrir sem eru á ferðinni milli landanna og þurfa á slíkum stuðningi að halda. Það er einmitt oft á sviði menningar-, æskulýðs- og íþróttamála sem þetta samstarf fer fram. Það má því vel hugsa sér það að þessi nýi sjóður gæti orðið ný innspýting fjármuna og vítamínsprauta fyrir slíkt starf. Ef það yrði raunin yrði þetta að sjálfsögðu jákvætt en þetta vitum við ekki heldur enn þá vegna þess að þessi hugmynd er ekki komin nógu langt.
    Hins vegar er það rétt sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns að fjármögnunarhugmyndin í kringum þetta er óvenjuleg. Það hefur ekki tíðkast á þessum vettvangi að safna beinlínis peningum í sjóði eða leggja inn á bankabækur heldur hefur þetta samstarf verið fjármagnað árlega með fjárveitingum. Það er þess vegna nýmæli og færi þá að sjálfsögðu eftir ávöxtun á slíku fé sem safnað væri hversu mikið yrði til ráðstöfunar á hverju ári. Það er eitt atriði til viðbótar sem ekki hefur verið upplýst skýrt hvernig á að haga.
    Að því er varðar spurninguna um fjárveitingar, fjárlög og fjármuni almennt vil ég taka undir það sem fram hefur komið hjá ræðumönnum að ég tel rétt að auka hlut ráðsins frá því sem nú er og ef ekki ráðsins þá forsætisnefndarinnar í að skipta upp fjárlögum Norðurlandaráðs. Það mætti hugsa sér a.m.k. í byrjun að það yrði þannig að fulltrúar ríkisstjórnanna, samstarfsráðherrar eða fjármálaráðherrar eftir atvikum, kæmu sér saman um heildarfjármunina sem til ráðstöfunar yrðu en það yrði síðan verkefni ráðsins sjálfs, hvernig svo sem það skipaði sínum málum, að skipta þessum fjármunum upp til hinna einstöku verkefna.
    Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að hugmyndunum um að sameina skrifstofurnar. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið, bæði í umræðunum og ræðu forsrh. Ég tel það skynsamlega ráðstöfun að sameina þessar skrifstofur en óskynsamlega ráðstöfun að flytja nefndaritarana heim til þjóðlandanna þar sem formaðurinn býr. Ég tek undir þau rök sem fram hafa komið í því efni hjá öðrum ræðumönnum. Hugmyndin með því að slá saman skrifstofunum tveimur er auðvitað tvíþætt. Bæði sú að reyna

að spara einhverja fjármuni, og eflaust má gera það með þessum hætti, en jafnframt sú að reyna að gera starfið straumlínulagaðra og virkara. Ég held að það megi ná því fram með þessum hætti. En þarna eru ýmsar gildrur á leiðinni sem þarf að huga vel að.
    Ég vil síðan að sjálfsögðu taka undir það sem menn hafa sagt hér um þátttöku ráðherranna á Norðurlandaráðsþingum. Það má auðvitað færa rök fyrir því að með sama hætti og í þjóðlöndunum beri að aðgreina fulltrúa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hafa það þannig að fulltrúar framkvæmdarvaldsins séu ekki að vasast inni á samkomum þar sem sitja þingmenn. Við erum að vísu almennt á því á okkar löggjafarsamkomu að þessu sé blandað saman og það hefur reynst okkur ágætlega. Auðvitað er Norðurlandaráðsþingið ekki þannig samkoma að það hafi neinar sérstakar hættur í för með sér gagnvart verkaskiptingu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að ráðherrar mæti þar. Þvert á móti er það eitt af því sem hefur aðgreint Norðurlandaráð frá öðrum alþjóðlegum samkomum þingmanna að þar hefur verið beinn aðgangur að handhöfum framkvæmdarvaldsins. Þar hefur verið hægt að tala beint við ráðherra og fulltrúa ríkisstjórna um þau mál sem uppi eru. Það hefur auðvitað verið mjög gagnlegt og æskilegt að svo verði áfram og undir það heyrist mér að flestir taki, bæði á Alþingi og sömuleiðis annars staðar á Norðurlöndum þar sem ég hef fylgst með umræðum um þessi mál.
    Hitt er síðan annað mál og menn hafa vakið máls á því að það getur verið hvimleitt þegar menn eru í umræðum á Norðurlandaráðsþingum að elta uppi ráðherra frá sínu eigin landi með fyrirspurnir sem ættu alveg eins heima innan lands hjá viðkomandi. Það getur verið hvimleitt fyrir aðra að hlusta á slíkar umræður milli manna frá sama þjóðlandi um innanríkismál í viðkomandi landi. En ég tel engu að síður að það sé kostnaður sem vert er að taka á sig. Ef það tryggir að ráðherrarnir verði áfram þátttakendur í þingunum er það ekki atriði til þess að setja fyrir sig. En ég bendi á þetta engu að síður.
    Ég vil einnig koma hér að, virðulegi forseti, tveimur atriðum sem ekki hefur verið minnst á í þessum umræðum enn sem komið er og koma ekki beint fram í þeirri skýrslu sem er til umræðu.
    Mönnum hefur orðið tíðrætt um það á norrænum vettvangi að nauðsynlegt sé að tengja saman það starf sem fram fer innan þjóðþinganna gagnvart Evrópumálunum því starfi sem unnið er á vettvangi Norðurlandaráðs. Auk þess er það útbreidd skoðun að í einstökum þjóðdeildum á Norðurlandaráðsþingum eigi að sitja menn með mikla pólitíska reynslu eða menn sem gegni trúnaðarstörfum fyrir sína þingflokka.
    Allt er það gott og blessað að sjálfsögðu en þetta vekur upp þá spurningu hvernig við höfum hugsað okkur á Alþingi að skipuleggja okkar mál með tilliti til Evrópumálanna og hvort við munum treysta okkur til þess að skipuleggja jafnframt Norðurlandasamstarf af okkar hálfu með tilliti til þess hvernig Evrópumálum verður fyrir komið á Alþingi í framtíðinni. Það er auðvitað hægt að segja að ástæðulaust sé að ræða það fyrr en það liggur fyrir hvort Íslendingar verða aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tel reyndar nokkuð víst að svo verði. En spurningin er þá sú: Eigum við að fara þá leið í þeim málum sem t.d. Danir hafa farið og mönnum er mjög tíðrætt um á norrænum vettvangi, að setja á laggirnar sérstaka þingnefnd til að fjalla um EES-málefni? Ég varpa spurningunni hér fram í þessu samhengi vegna þess að það er almenn skoðun, leyfi ég mér að segja, að það beri að tengja saman starf þeirra fulltrúa sem sitja fyrir sín þjóðþing á vettvangi Norðurlandaráðs og þeirra sem sitja í slíkum Evrópunefndum þjóðþinganna. Ég vek athygli á þessu sem máli sem er óleyst og eiginlega órætt með öllu á hinu háa Alþingi. En ég tel að við hljótum að þurfa að taka afstöðu til þess von bráðar, ef til vill síðar á þessu þingi.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég vekja athygli á einu praktísku máli varðandi þær breytingar sem á döfinni eru. Það er lagt til í þessum tillögum og ég geng út frá því sem ákveðnum hlut að framvegis verði tvö þing Norðurlandaráðs á ári. Næsta þing verður t.d. í Árósum eftir tvær vikur og næsta þar á eftir verður í Ósló í mars og næsta þar á eftir verður á Álandseyjum eftir um það bil ár héðan í frá. Það er búið að ákveða að hafa þingin tvö á hverju ári en reyna jafnframt að stytta þau, þannig að þau taki minni tíma hvert um sig og umræður séu knappari en áður var.
    Spurningin sem vaknar fyrir okkur er þessi: Viljum við ekki alveg örugglega búa þannig um hnútana að fimmta hvert þing verði haldið á Íslandi eins og verið hefur um hin reglulegu þing ráðsins? Er það ekki alveg öruggt að Íslendingar munu taka því opnum örmum að halda hér Norðurlandaráðsþing á þrjátíu mánaða fresti, tvö á hverjum fimm árum? Ég tel að það sé sjálfsagt og ekkert um annað að ræða í raun og veru en að við gerum það. Ég vænti þess að um það séu menn sammála. En mér finnst ástæða til að nefna þetta engu að síður á þessum vettvangi í umræðum um þetta mál.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa skýrslu að svo stöddu, virðulegi forseti, og hef lokið máli mínu.