Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 16:03:42 (1718)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði reiknað með að hæstv. forsrh. væri viðstaddur umræðuna því ég ætlaði að einhverju leyti að beina máli mínu til hans sem leggur fram þessa skýrslu. Ef forseti vildi kanna hvort forsrh. er í húsinu og getur verið viðstaddur.
    Þessi skýrsla sem við ræðum um endurmat á norrænni samvinnu snertir afar þýðingarmikið mál fyrir okkur Íslendinga. Það hefur verið góð samstaða um það á liðnum áratugum að taka af þrótti þátt í norrænni samvinnu. Íslendingar hafa notið góðs af þessu samstarfi í mjög mörgum greinum og í skjóli hinnar opinberu samvinnu hafa skotið rótum hér á landi mun nánari tengsl við önnur Norðurlönd en ella hefði

orðið. Þannig hefur þetta samstarf verið okkur mjög mikils virði og er það áfram. Umræða um endurmat á þessu samstarfi frá okkar bæjardyrum séð hlýtur að snúast um það með hvaða hætti er unnt að verja þá ávinninga sem náðst hafa, styrkja grundvöllinn, treysta samvinnuna og efla hana á þeim sviðum sem skynsamlegt er og hægt að ná samstöðu um.
    Það er auðvitað alveg ljóst að við Íslendingar ráðum ekki ferðinni í norrænu samstarfi. Hins vegar höfum við alla burði til þess að láta rödd okkar heyrast þar og hljótum að gera það varðandi okkar hagsmuni. Við hljótum jafnframt að leitast við að hafa áhrif á norrænt samstarf til að það þróist þannig að það verði okkur til hagsbóta almennt séð. Við tökum að sjálfsögðu ekki ákvarðanir fyrir önnur þjóðlönd og ætlum okkur það ekki. En við getum með alþjóðlegu samstarfi haft áhrif á það hvert hugur beinist og við getum varað við í þeim efnum ef við teljum að í óefni stefni. Það hefur verið verkefni á undanförnum árum á vettvangi Norðurlandaráðs að fjalla um Evrópumálin. Það hefur verið eitt af meginumræðuefnum þinga Norðurlandaráðs á undanförnum árum að ræða þá þróun bæði í nefndum og á þingum og álykta um þau efni. Þar hafa Íslendingar látið rödd sína heyrast. Þar höfum við tekið okkar ákvarðanir og ráðstafað okkar atkvæðum eftir því sem hverjum og einum hefur sýnst réttmætt.
    Ég sakna þess vissulega að við skulum ekki hafa gert meira af því á vettvangi Alþingis og þá alveg sérstaklega Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að fara yfir þessi efni og leggja okkur kannski betur fram um það heldur en við höfum gert að stilla saman strengi og átta okkur á því hverju sinni hvað er það sem full samstaða er um. Ég segi þetta ekki sem gagnrýni á neina sem sæti eiga með mér í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, það væri ómaklegt. Ég get alveg eins beint því til sjálfs mín. Ég hef kannski ekki ýtt á það sem skyldi og höfum við þó oft tekið þessi efni fyrir en oftast haft takmarkaðan tíma til þess að ræða málin.
    Tillögurnar sem hér liggja fyrir og hugmyndir frá forsætisráðherrum Norðurlanda og einkafulltrúum þeirra eru viðamiklar og kannski ekki hægt að átta sig á þeim í öllum greinum því sumpart eru þær mótsagnakenndar. Mér finnst nauðsynlegt að nefna það og vekja athygli á því. Vissulega fer það eftir því með hvaða hugarfari menn lesa á milli línanna í það sem ekki er sagt og hvernig menn meta þann almenna grundvöll sem þessar tillögur eru reistar á. Þar má vera að ég líti á málin með dálítið öðrum hætti vegna þess hvernig ég met áhrif samstarfs innan Evrópsks efnahagssvæðis ef til kemur á norrænt samstarf, að ekki sé talað um aðild að Evrópubandalaginu ef svo færi að meiri hluti Norðurlanda yrði aðilar að Evrópubandalaginu. Mér hefur sýnst að það væri býsna ólíkt mat uppi á vettvangi Norðurlandaráðs hvaða þýðingu og hvaða áhrif slík skref og slík binding einstakra Norðurlanda inni í þessu evrópska samstarfi muni hafa inn á við á hið norræna samstarf.
    Ég ætla að reyna að þjappa því nokkuð saman sem ég vildi sagt hafa á þessum tíma um þetta efni þó hér sé af mjög mörgu að taka. Ég vil fyrst víkja að hinum formlega þætti og hinum formlegu tengslum og breytingum sem eru á döfinni samkvæmt þessum tillögum og víkja síðan að innihaldinu um hvað þetta norræna samstarf eigi að snúast.
    Þar er fyrst til að taka að lögð er mikil áhersla á virka forustu og formaður Íslandsdeildarinnar, sem talaði áðan, taldi eitt meginefnið hina virku forustu sem nú ætti að koma til á vegum forsætisráðherra landanna. Og óhætt er um það að því er hægt að fagna. Það væri ástæða til að fagna því að forsætisráðherrar Norðurlanda ætluðu sér meiri hlut í norrænu samstarfi en áður ef það snerist um raunverulegt innihald sem fæli í sér aukið norrænt samstarf en ekki það sem því miður er --- þá er ég kominn að innihaldinu jafnhliða --- að verið er að draga mjög verulega úr þessu samstarfi í reynd. Það er ekki það sem við viljum sjá.
    Ég hugsa að við séum í raun sammála um það sem tölum í þessari umræðu og almennt á Alþingi Íslendinga að við viljum ekki sjá hnignun í norrænu samstarfi. Það sýnist mér þó vera það sem er á döfinni. Síðan eru slegnir nokkrir varnaglar varðandi þessa virku forustu forsætisráðherranna. Það birtist okkur í tillögugerðinni varðandi formið t.d. í kafla 9 á bls. 12 og 13 í skýrslunni þar sem dregin eru saman aðalatriðin um aðlögun starfsins í norrænu ráðherranefndinni. Þar er í fyrsta lagi að finna verulega gagnrýni á samstarfsráðherra Norðurlanda á liðinni tíð. Það á ekki við neinn einstakan en ég les almenna gagnrýni út úr upphafsgrein kaflans á bls. 12. Síðan kemur að því að gert er ráð fyrir eins og þar segir að skipuð verði stjórn fimm aðstoðarmanna ráðherra eða embættismanna í sambærilegri stöðu. Sýnist mér komin þar í raun tillagan sem formaður Íslandsdeildar var að lýsa eftir áðan að kæmi til greina að einhver aðstoðarmaður ráðherra í forsrn., sem ég les út úr þessu, bæri ábyrgð á fyrir hönd síns forsætisráðherra. Ekki vil ég fullyrða það og kann að vera að ég lesi ekki rétt í textann. Þannig skil ég þetta þó.
    Þetta er þessi fimm manna stjórn sem gæti verið aðstoðarmenn ráðherra, þá meira pólitískir, eða embættismenn eins og hér segir. Ef það verða embættismenn er farið að dofna svolítið yfir þessum svip á þessari virku forustu. Síðan kemur það sem mér finnst ákveðin rúsína í þennan pylsuenda þar sem segir: ,,Stjórnin kann að fá verkefni beint frá forsætisráðherrunum, en starfar að öðru leyti undir stjórn samstarfsráðherranna og er jafnframt stjórn skrifstofu ráðherranefndarinnar.``
    Ég er alveg hissa á forsætisráðherrum Norðurlanda að leggja fram svona óljósa tillögu og mér liggur við að segja heldur ófrumlega á þingum Norðurlanda og að þeir skuli ekki draga upp skýrari mynd af verkaskiptingu. Það er hægt að túlka þetta þannig að það eigi að vera toppforusta. Það er ósköp gott. Forsætisráðherrarnir ætla að mæta á aðalfundi Norðurlandaráðs en svo er þetta í höndum fimm manna stjórnar og svo eru samstarfsráðherrarnir eftir sem áður á sínum stað. Þetta er ekki sannfærandi og á það hafa fleiri bent í umræðunni. Ég geri ráð fyrir að þetta verði gagnrýnt af mörgum og spurt: Hvernig er hugmyndin að halda þessu?
    Síðan er það sjálfur Helsingfors-sáttmálinn, grunnsáttmáli hins norræna samstarfs, sem á að breyta. Um hvað eru þær tillögur? Ég verð að segja að mér finnst heldur illa í hendur okkar búið og er þó pappírinn nokkuð langur og kvarta ég ekki undan því. En mér finnst heldur óljós og óskýr framsetning á bls. 46--48 þar sem verið er að rekja breytingar og nýtt orðalag á Helsingfors-sáttmálanum. Það er ekki haft fyrir því að segja hvað það er sem er verið að taka út því það er aðallega verið að taka út. Hvernig stendur á því að menn eru í rauninni að fela það með þessum hætti? Hvaða breytingar eru það sem verið er að gera tillögur um?
    Kjarninn í þessum breytingum er sá að skilja á milli þingmanna í Norðurlandaráði og Norðurlandaráðs sem þingmannasamkomu og hinna norrænu ráðherra. Það er kjarninn. Það er verið að taka það hér út grein eftir grein eftir grein í Helsingfors-sáttmálanum að þeir séu með skuldbindandi viðveru á þingum Norðurlandaráðs. Vissulega má lesa þetta þó með óljósum hætti, eins og hefur komið fram í máli manna, út úr skýrslunni annars staðar. Þetta er það sem verið er að gera.
    Auðvitað stendur til að leggja niður fagráðherranefndir. Ekki les ég þetta öðruvísi. Þeir mega koma að nánast ef þeim hentar en það er verið að leggja niður fagráðherranefndirnar. Það er látið liggja að því að það geti fallið að nefndakerfinu í Norðurlandaráði sem segir þá um leið, og þarf kannski ekki að koma á óvart, að það stendur til að fækka nefndum og fella niður nefndir á vegum Norðurlandaráðs samkvæmt hugmyndum forsætisráðherranna ef það á að vera samræmi á milli í þessum efnum.
    Þetta leyfi ég mér að benda á og gagnrýna og vara við því sem þarna er á ferðinni. Ég tel að þarna horfi óvænlega ef það á að verða niðurstaðan að lagt sé af að hægt sé að gera kröfu til skuldbindandi viðveru norrænna ráðherra á vettvangi Norðurlandaráðs. Til þess að standa skil sinna mála og til þess að svara fyrirspurnum eins og við höfum notað mikið á þeim vettvangi. Auðvitað hafa þeir í leiðinni hitt sína samstarfsmenn og átt fundi með þeim. Þeim hefur fylgt mikill skari embættismanna sem ég held að væri að ósekju hægt að fækka til mjög mikilla muna á þessum vettvangi þó auðvitað þurfi embættismenn að vera með í ákveðnum mæli. Það er þó meginatriði að hinir pólitísku fulltrúar séu til staðar ef menn ætla að veita þessu samstarfi innihald og hafa þau tengsl og þau samskipti á milli þingmanna og ríkisstjórna sem þarf að vera ef þetta á að skipta einhverju teljandi máli. Þetta er varðandi formið á þessu.
    Síðan eru það rökin fyrir þessum breytingum. Það er Evrópskt efnahagssvæði. Það er væntanleg aðild flestra eða allra Norðurlanda að Evrópubandalaginu á tíunda áratugnum eins og við lesum í skýrslunni. Auðvitað er það ástæðan. Auðvitað er það ástæðan fyrir því að þetta er tekið upp, fyrir þessu frumkvæði forsætisráðherranna. Þeir eru að bregðast við því sem þeir telja líklegt að verði ofan á: Aðild að Evrópsku efnahagssvæði og aðild að Evrópubandalaginu fyrir flest ríkin í framhaldinu.
    Ég verð hins vegar að nefna það vegna þess að mér þótti það ánægjulegt að ég hef heyrt það á hæstv. forsrh. að hann hefur heldur dregið í land síðustu mánuði þegar aðild að Evrópubandalaginu hefur borið á góma. T.d. frá því sem hann svaraði á síðasta þingin Norðurlandaráðs við fyrirspurn sem ég leyfði mér að bera fram á þeim vettvangi. Það tel ég út af fyrir sig góðra gjalda vert. Batnandi manni er best að lifa. Það á við hæstv. forsrh. Íslands sem og aðra. Ég vona að það sé innihald á bak við orðin. Það vona ég sannarlega í þessu efni.
    Víða í þessari skýrslu koma einmitt fram skýringarnar á þessum forsendum sem menn eru að gefa sér. Þá vil ég segja að ég tel að menn séu í rauninni allt of snemma á ferðinni með þær tillögur sem hér liggja fyrir, menn séu að flýta sér mjög um of, alveg sérstaklega þegar verið er að gera því skóna að Norðurlöndin fari inn í Evrópubandalagið. Ég er ekki að saka hæstv. forsrh. Íslands í þeim efnum. Ég á við talsmenn þeirra ríkja sem hafa þegar lagt inn aðildarumsókn eða eru að leggja inn aðildarumsókn eins og menn eru að gera ráð fyrir að gerist í Noregi núna innan fárra daga eftir þing Verkamannaflokksins. Þeir telja sig hafa það í hendi sér.
    Mér finnst fólgin í þessu mikil lítilsvirðing gagnvart almenningsálitinu á Norðurlöndum. Að ætla að fara að stíga þær breytingar sem hér er verið að leggja til og gefa sér það sem forsendu sem gengur eins og rauður þráður í gegnum skýrsluna að Norðurlöndin verði öll nema kannski Ísland aðili að Evrópubandalaginu á þessum áratug. Hvernig er almenningsálitið á Norðurlöndum um þessar mundir hvað þetta snertir? Alveg kvitt og klár meiri hluti samkvæmt skoðanakönnunum nú um lengri tíma gegn aðild. Og langt bil á milli þeirra sem segja já við hugmyndinni um aðild að Evrópubandalaginu. Sama er uppi í Svíþjóð og kemur mörgum á óvart nú hálfu öðru ári eftir að Svíar ákváðu að leggja inn umsókn um aðild. Meiri hluti kosningabærra manna sem svara lýsa sig á móti aðild að Evrópubandalaginu. Í Finnlandi? Finnar hafa verið svo forsetahollir að þeir hafa að meiri hluta til elt skottið á forseta sínum í þessum efnum enn sem komið er. Þó er vaxandi andstaða þar gegn hugmyndinni um aðild. Danmörk er aftur í Evrópubandalaginu og er að reyna að komast út úr spennitreyju Maastricht-samkomulagsins. Þannig standa málin nú. Því miður horfir svo að þannig gæti farið að við lentum í Evrópska efnahagssvæðinu, þó er það ekkert einsýnt enn sem komið er. Það hafa ekki verið greidd atkvæði um það á Alþingi Íslendinga né heldur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss um þessi efni. Vel kann að vera að menn eigi eftir að sjá einhverja nýja fleti í því máli og síðan kemur spurningin um það hvort þjóðirnar uni þeirri treyju sem verið er að færa þær í í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði.
    Andstaðan í Noregi á eftir að segja til sín gagnvart þeim samningi. Hún er allt önnur en styrkleikahlutföllin í Stórþinginu um þessar mundir. Þeir flokkar sem eru í eindreginni andstöðu við Evrópskt efnahagssvæði, Miðflokkurinn norski og Sósíalíski þjóðarflokkurinn, hafa sópað til sín fylgi á undanförnum missirum og a.m.k. annar þeirra, Miðflokkurinn, lýst því yfir að hann muni berjast fyrir því að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði verði sagt upp. Óskandi væri að þeim miðflokkum fjölgaði sem slá sér í þann hóp.
    Menn sjá það síðan t.d. á bls. 22 og bls. 41 í skýrslunni að verið er að gera að því skóna að þetta útvatnist, renni út eftir því sem ríkin koma inn í Evrópubandalagið, verði nánast ástæðulaust og þá getum við slegið striki undir þetta. Því miður er þetta undiraldan og við verðum að taka eftir þessu. Enginn taki orð mín þannig að ég vilji mála skrattann á vegginn eða telja að það sé ekki ómaksins vert að reyna að snúa þessu við. Þvert á móti.
    Ég er sannfærður um að hugur fólks á Norðurlöndum víðar en á Íslandi sé í þá átt að vilja styrkja norrænt samstarf, viðhalda formlegu norrænu samstarfi og ekki láta hugmyndina um Evrópskt stórríki, sem nú er í mótun, verða til þess að brjóta niður norræna samheldni og norrænt samstarf. Auðvitað er ljóst, eins og er viðurkennt í skýrslunni, að innan EES og EB verður ekki um neitt formlegt samstarf Norðurlanda að ræða. Það samrýmist ekki reglum bandalaganna, hvorki Evrópubandalagsins né EES, því EES er ekki Norðurlönd. EES er fjögur Norðurlönd og þrjú Alpalýðveldi, sem við köllum stundum svo. Og það er þar sem á að tala einum rómi. Við notum ekki EES-vettvang til þess að bera okkur saman um samnorræn málefni. Sá vettvangur nýtist okkur ekki þannig að menn verða að fara krókaleiðirnar, hringja á milli ráðuneyta og landa með óformlegum hætti til þess að bera sig saman um það hvernig stilla eigi saman strengi í hinu evrópska samstarfi. Þannig met ég stöðuna í þessum efnum og hef miklar áhyggjur af því.
    Virðulegur forseti. Þá ætla ég að fjalla aðeins um innihaldið. Í skýrslunni eru dregin upp svið sem ráðherrarnir telja að eigi að leggja áherslu á og þar stendur menningarsviðið upp úr. Einnig eru talin upp félagsmál, umhverfismál og samvinna á sviði efnahagsmála. Satt að segja er þessum sviðum gerð afskaplega lítil skil í skýrslunni og því með hvaða hætti og um hvað samvinnan á þessum sviðum eigi að snúast. Af hverju tóku menn ekki svolítið pláss undir það í þessum pappír að útfæra það? Satt að segja er það afskaplega lítið sannfærandi sem verið er að segja um félagsmálasviðið og umhverfissviðið og innihaldslaust.
    Svo er það gulrótin. Hver er hún í þessum pappír? Það er menningarmálasjóðurinn. (Gripið fram í.) Já, formaður Íslandsdeildar las rétt í hug minn um það. Það er menningarmálasjóðurinn norræni. Það er gulrótin sem á að auðvelda mönnum þá sýn sem dregin er upp á þessum síðum, veikingu á innihaldi norræns samstarfs. Það hefur komið nokkuð vel fram í umræðunni að ég er ekki einn um það að vera gagnrýninn á þessa gulrót þó að ég vilji mjög gjarnan sjá aukin fjárframlög til norræns samstarfs og þá jafnframt á sviði menningarmála. En það er nú engum ósköpum fyrir að fara miðað við þá útreikninga sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson kom með eftir að hafa skoðað fjárlögin og stöðu þessara mála. Þetta eru engar stórsummur. Við hljótum að biðja hæstv. forsrh. um að skýra það svolítið betur fyrir okkur. Hver er hugmyndin með þessu og hvers vegna nýr sjóður um jafnveiklulega fjármuni og þarna eru á ferðinni? Hver er ástæðan fyrir því að setja upp nýjan sjóð? Er ekki verið að tala um að hagræða og fara gagnrýnið yfir o.s.frv.? Er þá ástæða til þess að búa til nýjan sjóð í kringum ekki meira? Hvað er það í reglum menningarmálasjóðsins, ég er með þær hérna, samninginn milli landanna um menningarsjóð Norðurlanda, sem veldur því að það má ekki ávaxta þessa viðbótaraura og ráðstafa vöxtunum inn í menningarsjóð Norðurlanda? Er stjórnin, sem í eru fimm frá ráðherranefndinni, fimm frá Norðurlandaráði og einn frá sjálfstjórnrsvæðunum, ástæðan fyrir því að það þarf að búa til nýjan sjóð í kringum þetta? Eða er þetta aðferðin til þess að skera niður með þeim hætti sem stendur skýrum stöfum í skýrslunni, 2 / 3 af því fjármagni sem varið hefur verið til samnorrænna verkefna? Það er kannski kjarninn. Kannski eru peningarnir kjarninn. Það er verið að skera þetta niður við trog þannig að 1 / 3 standi eftir. Síðan koma menn saman, kvarta og segja: Við verðum að standa saman um það sem skiptir okkur Íslendinga máli. Auðvitað verðum við að gera það besta úr þessu, það er rétt. En við mótmælum slíkri meðhöndlun á fjármagni inn í norrænt samstarf. Það er verið að lama norrænt samstarf með þessum hætti. Auðvitað á að fara gagnrýnið yfir samstarfsverkefni og það er skylda ráðherranefndarinnar á hverjum tíma að sjá um að ekki sé verið að sólunda í einhver samstarfsverkefni sem ekki skila árangri. Það þarf engar skýrslur til þess eða samþykktir. Það ætti að vera sjálfsögð vinnuregla að það séu ekki einhverjir kalkvistir sem þetta snúist um.
    Ég er ansi hræddur um að víða eigi eftir að heyrast kveinstafir úr horni hérlendis þar sem haldið er uppi margháttaðri mikilvægri starfsemi sem snertir okkur hér á landi sumpart einvörðungu að heita má út á samnorrænt fjármagn. Það er þannig ljóst að það verða slegnar af stofnanir hér og fjölmörg verkefni þegar hnífurinn kemur sem skera á 2 / 3 af þessum verkefnum niður við trog. Mér líst ekki á það.
    Hitt er annað mál að þetta kemur mér ekkert mjög á óvart. Ég las þetta út úr fyrstu yfirlýsingunni frá Maríuhöfn í nóvember 1991. Það var í rauninni þetta sem var þar á ferðinni. Mér finnst þeir þingmenn, sem slógu sér í hóp hins breiða meiri hluta á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors í vetur og hrópaði húrra fyrir hinu væntanlega aukna norræna samstarfi innan EES og Evrópubandalagsins, ekki þurfa að vera svo hissa eða geta kveinkað sér því það var einmitt þetta sem verið var að kortleggja í Maríuhöfn strax

í fyrra. En það er nú svona og þessi Mið-Evrópusegull er ansi sterkur. Hins vegar hafa orðið dálítil veðrabrigði frá því veturinn 1991--1992 í sambandi við þá siglingu. Ég óttast bara að þau verði ekki nógu sterk og ekki nógu skörp til þess að snúa mönnum af þessari siglingu og að við lendum í þeim ófarnaði að taka ákvarðanir eða verða að lúta ákvörðunum sem verða til að veikja norrænt samstarf Norðurlöndum öllum til óþurftar og mörgum af þeim hugsjónum sem við tengjum við Norðurlönd og norræn samfélög.
    Ég vek t.d. athygli á því hvaða þýðingu það hefur gagnvart samstarfi við nágrannasvæði Norðurlanda í austri, Eystrasaltsríkin, héruðin í Rússlandi og önnur slík, þegar menn ganga í Evrópska efnahagssvæðið svo ekki sé talað um þegar menn ganga í Evrópubandalagið. Þar eru menn að loka á margháttaða samstarfsmöguleika sem þeir hafa verið að tala um í orði að þeir ætli að vera þátttakendur í og hafa verið að halda að Eystrasaltsríkjunum að Norðurlönd geti komið hjálpandi hendi og séu reiðubúin til aukins samstarfs, að styðja þau og styrkja. Þetta lesum við reyndar hérna líka. En það er ansi hætt við því að hindranirnar verði margar eftir að við gengjum í Evrópska efnahagssvæðið að ekki sé talað um eftir að við yrðum hluti af stórríkinu með þeim tollamúrum út á við sem því fylgja. Það verður kalt bak og kaldur hryggur sem snúið verður að Eystrasaltsríkjum og öðrum Austur-Evrópuríkjum ef Svíþjóð, Finnland og Noregur ganga í Evrópubandalagið eins og forsætisráðherrar þessara landa eru að strekkja í að verði. Það fylgir því nefnilega margt að ætla að sogast inn í evrópskt stórríki og lúta þeim boðum og bönnum sem þar eru og þeirri stefnu sem þar er sett á, þar á meðal utanríkisstefnu og hermálastefnu sem hugmyndin er að verði hluti af þessu ríki.
    Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að leggja skýrsluna fram og mæla fyrir henni. Ég heyri það á hæstv. forsrh., bæði í ræðu hans og á fundi með Íslandsdeild Norðurlandaráðs, að hann er hugsi yfir ýmsu af því sem hér er á blaði þótt í hans nafni sé, með óbeinum hætti þó þ.e. frá einkafulltrúum hans sem gefa skýrsluna en hún hefur fengið nokkuð almenna blessun af hálfu forsrh., ásamt öðrum forsætisráðherrum.
    Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við Íslendingar sem erum á vettvangi Norðurlandaráðs með stuðningi frá Alþingi og ríkisstjórn Íslands, reynum að leggja okkur fram um að styrkja stöðu okkar í þessu á þeim sviðum þar sem við erum sammála. Ég vil ekki gera meira úr ágreiningnum en efni standa til, en það á heldur ekkert að draga fjöður yfir hann sé um misjafnt mat á forsendum að ræða. Um hitt held ég að við séu sammála í mörgum greinum, að reyna að treysta hið norræna samstarf og stöðu okkar í því. Því það er ljóst að Ísland hefur sérstöðu að því er varðar framtíðarsýn ef því má treysta að menn ætli ekki alla leið inn í Evrópubandalagið.
    Það eru nokkur minni háttar atriði í skýrslunni sem ég ætla ekki að taka tíma í frekar. Ég er þegar kominn aðeins yfir þann hálftíma sem ég ætlaði mér til málflutnings hér. Það eru svolitlir meinbugir fyrir utan ritvillur í skýrslunni. Ég rak t.d. auga í það á bls. 11, svo farið sé í sparðatíning sem þó er ekki við hæfi undir lokin, að þar er talað um menningarmálanefndina þegar um er að ræða menningarmálasjóðinn og starfsreglur hans og annað slíkt. Það þarf því kannski að líta yfir það þannig að um samræmda þýðingu verði að ræða. A.m.k. á þetta við ef borin er saman norræni textinn og sá íslenski. En ég endurtek þakkir til forsrh. fyrir það að koma fram með skýrsluna og hlýða á mál manna hér. Ég treysti honum til þess að íhuga þau efni sem hér eru rædd hver sem í hlut á og að leggjast á sveif með okkur um að reyna að halda því sem mögulegt er og varðar íslenska hagsmuni. Auðvitað eigum við líka að vera hollráðir gagnvart frændum okkar á Norðurlöndum og gæta þess að þeir lendi ekki á bólakaf í þá ófæru sem þeir eru að halda í áttina til, inn í sjálft Evrópubandalagið.