Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 16:36:03 (1719)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu sem okkur hefur borist á íslensku. Við höfum að vísu fengið hana fyrir nokkru á einhverju máli Norðurlanda sem ég man ekki lengur hvert var. En það er mikilvægt fyrir okkur að fá hana á íslenskri tungu og að heyra viðhorf þingmanna á innihaldi hennar. Því miður virðist það vera svo að það erum fyrst og fremst við, fulltrúar í Norðurlandaráði, sem tjáum okkur um innihald hennar. Auðvitað hefði verið betra að við fengjum sjónarmið einhverra annarra en okkar, sem höfum hist á fundum áður, en það verður þá að hafa það þó þingmenn tjái sig ekki um innihald þessarar skýrslu. Ég held þó að segja megi um flesta ef ekki alla Íslendinga og þar með talda þingmenn, að þeir telji norrænt samstarf mjög mikilvægt. Í mínum huga er það einnig svo og ég hef merkt hér í máli manna að mjög mikilvægt sé að norrænt samstarf verði eflt en ekki úr því dregið. Ég held að það sé nauðsynlegt að endurskoða samstarfið á hverjum tíma, ekki síst nú í ljósi breyttra aðstæðna í Evrópu allri. Þá er ég ekki einungis að líta til Evrópubandalagsins heldur ekkert síður til Austur-Evrópu og þeirra breytinga sem þar hafa átt sér stað. Mér finnst skýrslan hins vegar líta allt of mikið til Evrópubandalagsins eingöngu en ekki til þeirra aðstæðna sem óhjákvæmilega hafa áhrif á norrænt samstarf, þ.e. aðstæðurnar í Austur-Evrópu.
    Samvinna Norðurlanda á alþjóðavettvangi er mjög mikilvæg, ekki eingöngu í Norðurlandaráði heldur ekki síður annars staðar t.d. á sviði Sameinuðu þjóðanna, RÖSE, EFTA og víðar þar sem Norðurlandaþjóðir hafa staðið saman og reynt að styrkja rödd sína með því að tala einróma eins og hægt er, þó það hafi auðvitað ekki alltaf tekist.
    Ég þarf kannski ekki að hafa langt mál um það sem hér hefur komið fram. Ég get t.d. tekið undir flest af því sem fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl. þar sem hann fór nánast í gegnum hvert einasta svið. Ég tel að það sé óþarfi að ræða það sérstaklega, en ég held að það sé mjög mikilvægt að við á Íslandi stöndum vörð um marga þætti því mikilvægt er að okkar þáttur sé þarna inni. Ég er sannfærð um að Íslendingar hafi fengið meira út úr norrænu samstarfi en flestir aðrir og þá er ég ekki að tala um á vettvangi Norðurlandaráðs eingöngu heldur á mörgum öðrum sviðum. Ég get t.d. nefnt svið sem ég þekki nokkuð vel og það er á sviði rannsókna. Þar hefur verið mjög víðtækt samstarf, t.d. rannsóknir á norðurslóð. Samvinna á milli Norðurlanda í rannsóknum, bæði í hafi og á landi, hefur verið Íslendingum mjög mikilvægt. Við erum mjög fá og getum í raun ekki farið ein út í það viðamiklar rannsóknir sem þarf að gera á ýmsum sviðum. Við verðum því að hafa samvinnu við aðra og samvinna við Norðurlöndin á þessu sviði er okkur mjög mikilvæg.
    Við höfum líka haft samstarf á mörgum öðrum sviðum, t.d. á sviði sjávarútvegsmála, iðnaðar og ég tala nú ekki um á sviði menningarmála þannig að þetta eru allt svið sem ég tel mjög mikilvæg og ég treysti mér mjög illa til að segja að þarna sé eitt mikilvægara en annað þó að það sé alveg rétt, sem bæði kemur fram í þessari skýrslu og margoft hefur verið talað um, að það er mjög mikilvægt að það sé farið yfir sviðið og passað að ekki sé um tvíverknað að ræða eða verið að gera sömu hlutina í mörgum hornum. En ég held að það séu allir eða flestallir sammála um að norrænt samstarf hefur verið okkur mjög mikilvægt og er mjög mikilvægt í framtíðinni.
    Þegar lesið er í gegnum þessa skýrslu er gengið út frá því að flest ef ekki öll Norðurlöndin verði aðilar að Evrópubandalaginu. Ég tel mjög óraunhæft að gera ráð fyrir því að þó að ríkisstjórnir flestra Norðurlanda, og þá undanskil ég íslensku ríkisstjórnina, hafi haft það á stefnuskrá sinni og sumar búnar að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, þá er fólkið í löndunum því ekki sammála þannig að ég get ómögulega skilið að það sé hægt að leggja upp með skýrslu sem þessa og miða allt samstarf út frá möguleika sem á allan hátt er óraunhæfur. Bara það væri nægjanlegt til þess í raun að segja að það þurfi að endurskrifa og endurskoða þessa skýrslu alla. En ef við gerum ráð fyrir því, sem flestir gera ráð fyrir, að það verði af hinu Evrópska efnahagssvæði þá sé ég heldur ekki að samstarf Norðurlanda geti verið með þeim hætti sem ég hefði helst viljað sjá það. Þó hefur því verið haldið fram að það sé hægt og ef við gerum þá ráð fyrir því þyrfti auðvitað að styrkja þetta samstarf. En því miður finnst mér ekki að það gangi upp með þeim hætti sem þessi skýrsla gerir ráð fyrir. Það gengur alls ekki upp ef ætlunin er að auka norrænt samstarf. Það get ég ómögulega séð. Orðin segja að það eigi að gera það en þegar kemur að framkvæmdinni þá virðist mér alls staðar eiga að draga úr og frekar stefna að því að það verði að engu.
    Ég hef ekki verið lengi í Norðurlandaráði, aðeins í eitt ár. Mér hefur fundist þingið vera ákaflega valdalítið og hafi lítið að segja og hefði frekar talið að það þyrfti að breyta því í þá átt að auka vald þess og áhrif en ekki að veikja það eins og mér finnst vera gert ráð fyrir í þessum tillögum. Mér finnst vera mjög mikil tilhneiging í þá átt í því sem þarna kemur fram. Ég er líka ósammála því sem kemur fram, að því er virðist, nú er þetta allt frekar óljóst, en ég les þannig úr þessu að ráðherrarnir eigi ekki að sitja fundi ráðsins. Það stendur reyndar orðrétt á bls. 42: ,,Ráðherrar eiga því ekki að sitja fundi ráðsins eins og hingað til með því að láta skipa sig fulltrúa í sendinefndum ríkjanna hjá Norðurlandaráði.`` Að vísu hélt ég að þeir væru ekki skipaðir fulltrúar eða létu skipa sig fulltrúa í sendinefndirnar en það er nú kannski misskilningur hjá mér, en ég átta mig ekki á hvernig þetta samstarf á milli þinganna og ráðherranefndanna á að fara fram. Er t.d. meiningin að viðræður milli ráðherranna og nefndanna eigi að falla niður? Ég átta mig ekki á hvernig þetta mun geta komið út ef þetta er raunin. Mig langar að nefna í tilefni af orðum hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, að það kom greinilega fram hjá Carl Bildt í Svíþjóð þegar hann gerði grein fyrir þessar skýrslu eða eins og menn túlkuðu hans orð, ég heyrði ræðuna auðvitað ekki, en hann sagði: Það er verið að klippa á milli ráðsins og ráðherranna. Það var hans boðskapur til þingsins að þarna væri algerlega verið að skilja á milli. Og ef það er rétt túlkun hjá honum, þá líst mér mjög illa á þetta.
    Ég tel einnig að það sé mjög sérkennilegt að gera ráð fyrir því, eins og ég reyndar sagði áðan, að allt þetta skuli horfa til Evrópubandalagsins og ekki neitt annað og átta mig alls ekki á hvernig Norðurlöndin, ef þau ganga í Evrópubandalagið eins og er gert ráð fyrir í þessari skýrslu, muni auka möguleikana til aukins samráðs norrænna þingmanna. Mér finnst þetta allt rekast hvað á annars horn, þau orð sem þarna eru sögð, þ.e. auka norrænt samstarf og svo þær tillögur sem lagðar eru fram.
    Það hefur verið gert hér að umtalsefni að lagt er til að skera niður t.d. sérstök verkefni um 2 / 3 og það eigi að koma upp einum menningarsjóði. Það er auðvitað gott og gilt að auka samstarfið á sviði menningarmála en við hljótum að setja spurningarmerki við það hvort við séum tilbúin til að fórna öllu því sem þarf að fórna fyrir þennan eina sjóð.
    Það eru auðvitað fjölmörg verkefni sem sjálfsagt má hætta við og skera niður og sameina öðrum, en ég á ákaflega erfitt með að sjá að það sé hægt að skera niður á þann hátt sem þarna er verið að gera nema það komi mjög alvarlega niður á mjög mikilvægum samstarfsverkefnum, m.a. mjög mikilvægum fyrir okkur Íslendinga. Það hefur hins vegar ekki legið fyrir nákvæmlega hvernig á að útfæra þetta en því hefur verið haldið fram eins og nú er háttað, að það fé, þessar 80--100 millj. danskra króna, sem þarna verður þá eftir í sérstök verkefni, verði meira en upp urið ef forgangsverkefnin eingöngu verða tekin. Þá verði nú þegar að skera niður forgangsverkefnin ef þetta gengur eftir. Og það er spurning hvort það hafi verið athugað hvaða afleiðingar þetta hefur og ég hlýt að draga þá ályktun að það hafi ekki verið athugað hvaða

afleiðingar slíkar tillögur gætu haft fyrir norræna samvinnu. Ég hef verulega miklar áhyggjur af því ef þessar tillögur ná fram að ganga og ég vænti þess að íslenski forsrh. muni gagnrýna þetta og reyna að ná fram breytingum á þessu sviði. Þar fyrir utan býst ég við að við séum ekki ein um það að gagnrýna þessa áherslu og hef raunar ýmislegt fyrir mér í því sambandi það sem ég hef heyrt í norrænum þingmönnum.
    Ég get bara tekið sem dæmi samstarf á sviði umhverfismála sem er eitt af forgangssviðunum sem nefnd eru í þessu plaggi. Ég tel að það sé eitt svið sem er okkur mjög mikilvægt og raunar heiminum öllum, en ef við tökum bara þau svið sem þar eru, svið á forgangslista varðandi umhverfismál, þá held ég að það sé ekki mjög mikill afgangur eftir í önnur svið eða verkefni. Ég hefði talið eðlilegt að t.d. varðandi verkefni á sviði ýmissa mála eins og t.d. umhverfismála, þá ætti áherslan að fara meira til umhverfisnefndar Norðurlandaráðs og hún mundi raða forgangsverkefnum upp og deila niður fjármagni til verkefna fremur en það sé eingöngu gert á vettvangi ráðherranna. Þannig mundu þingmennirnir koma meira inn í ákvarðantökuna og bera meiri ábyrgð á þeim áherslum sem þarna eru lagðar.
    Ég var búin að merkja við nokkuð mörg atriði hér og þar í þessa skýrslu sem ég hefði gjarnan viljað fá nánari skýringar á. Sumt eru atriði sem e.t.v. eru mjög óljós eins og mér hefur sýnst koma fram. Mörg af þeim hafa komið fram nú þegar þannig að ég ætla ekki að taka nema nokkur atriði og þá kannski fyrst það sem ég tel af hinu góða. Ég tel t.d. af hinu góða að forsætisráðherrarnir komi með meira afgerandi hætti inn í norrænt samstarf að svo miklu leyti að vísu sem þeir hafa tíma til en ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að hafa samstarfsráðherra einnig til að taka yfir ákveðin verkefni því að forsrh. hafa yfirleitt það mikið á sinni könnu að kannski er erfitt að þeir hafi algerlega umsjón með þessu starfi. Það vantar auðvitað inn í þetta meiri og skýrari verkaskiptingu og nákvæmlega hvað samstarfsráðherrum er ætlað að gera en það hefur verið upplýst hér á öðrum vettvangi að það sé verið að vinna að þeim málum þannig að það verður sjálfsagt ljósara þegar lengra kemur. En það sem mér líkar auðvitað illa við er þessi samstarfshópur eða stjórn háttsettra embættismanna sem á að því er virðist að hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna og stjórna meira og minna því sem þarna fer fram. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram hjá öðrum að mér líst ekkert á það fyrirkomulag.
    Ég vil einnig taka undir það sem hér hefur verið sagt varðandi ritara nefnda. Ég tel að þau rök, sem mæla gegn því að þeir flytji til skrifstofu landsdeildanna, séu miklu veigameiri og ég vil upplýsa það hér að t.d. Danir telja slíkt hið sama og eru mjög óánægðir með að reiknað skuli vera með því í þessum tillögum, enda eru þetta bara tillögur sem eru til umræðu og verði þá væntanlega að breyta. Ég sé ekkert athugavert við það þó að skrifstofur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar séu undir einu þaki en ég tel mjög mikilvægt að halda sjálfstæði hvorrar um sig og að ekki verði farið að grauta saman þessum tveimur þáttum.
    Ég verð að segja það að mér fannst hlutur sjálfstjórnarsvæðanna í lausu lofti í þessu plaggi og eins fannst mér, þó að það gleddi mig auðvitað að Vestur-Norðurlönd væru tekin sérstaklega þarna sem sérstakur pakki, þá fannst mér ekki alveg nógu skýrt að það verður að vera áfram áhersla á það samstarf. En almennt vildi ég segja um þessa skýrslu að þó að mikið sé um jákvæð orð í henni, þ.e. um að efla og auka norræna samvinnu, þá held ég því miður að það módel sem þarna er lagt upp með og kemur fram í skýrslunni gangi alls ekki upp ef ætlunin er að auka norrænt samstarf. Það þarf sem sagt að endurskoða þessa skýrslu nánast frá grunni ef við ætlum ekki að gera norrænt samstarf að engu.