Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 17:24:06 (1722)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða, það sem ég hef fylgst með, um þessa skýrslu sem hæstv. forsrh. leggur fyrir þingið um endurmat á norrænni samvinnu í framhaldi af því starfi sem verið hefur í gangi af því tilefni. Eðli málsins samkvæmt hafa þátttakendurnir fyrst og fremst verið hinir virku þátttakendur Alþingis Íslendinga í þessu samstarfi, þ.e. þeir sem sæti eiga í Norðurlandaráði og er það fullkomlega eðlilegt. Ég er ekki í þeim hópi en ætla engu að síður að leyfa mér að segja nokkur orð og gera þá sérstaklega að umtalsefni Vestnorræna samvinnu sem hér er lítillega vikið að. Ég tel það síður en svo lakara að einhverjir úr hópi þingmanna, sem ekki eru beinir þátttakendur í norræna samstarfinu, þ.e. eigi sæti í Norðurlandaráði, láti sig þessi mál varða. Reyndar sakna ég þess eins og fleiri hafa gert í sínu máli að hér mætti vera meiri áhugi á viðfangsefninu hvað viðveru snertir af því að ég er þeirrar skoðunar að norrænt samstarf sé þrátt fyrir allt ein mikilvægasta og dýrmætasta kjölfestan í utanríkistengslum okkar Íslendinga og okkur beri alveg sérstök skylda til að rækja það.
    En fyrst og fremst er erindi mitt hingað að segja fáein orð um þann þátt þessarar skýrslu þar sem vikið er að vestnorrænu samstarfi. Ég þakka fyrir að það hefur fengið þarna nokkurt rúm, bæði er að því vikið beint í tillögum nefndarinnar og eins í sérstökum kafla í skýrslunni. Meginniðurstaða starfshópsins eins og fram kemur á bls. 15 er sú að vestnorræna samstarfið eigi áfram að vera forgangsverkefni af vissu tagi í norrænni samvinnu og að það sé ástæða til að gæta hagsmuna þess eða Vestur-Norðurlanda með því að slík svæðisbundin samvinna verði sýnilegri í hinu norræna samstarfi í heild sinni. Ég get tekið undir þessa niðurstöðu, ég held að þess þurfi að gæta sérstaklega að svæðisbundið samstarf af þessu tagi einangrist ekki frá norrænu samstarfi í heild sinni, það eigi að vera í góðum og beinum tengslum við norrænt samstarf yfirleitt.
    Á hinn bóginn er ég jafnframt talsmaður þess að samskipti vestnorrænu þjóðanna þriggja og þjóðþinga þeirra þurfi að geta farið fram á sjálfstæðum forsendum eins og það hefur reyndar gert frá 1985. Ég er talsmaður þess að það skipulag verði varðveitt að Vestnorræna þingmannaráðið, sem er samstarfsvettvangur þjóðþinganna þriggja, sé áfram sjálfstæður vettvangur. Tengslin við hið norræna samstarf er auðvelt að útfæra með öðrum hætti en þeim, svo sem í gegnum það embættismannasamstarf og rekstur þeirra stofnana sem eru hluti af norræna samstarfinu í heild en einnig gæti vel komið til greina að einhvers konar tengsl yrðu mynduð með formlegum hætti milli Vestnorræna þingmannaráðsins og þinga Norðurlandaráðs.
    Sú hætta hefur vissulega oft komið til umræðu á síðustu árum að ekki aðeins vestnorræna samstarfið sem slíkt heldur og jafnvel Íslendingar sem slíkir gætu staðið frammi fyrir minnkandi áhuga á þessu svæði Norðurlandanna sem liggur á vesturmörkum. Hugur manna hefur beinst í aðrar áttir eins og kunnugt er, bæði til austurs og suðurs og þess vegna er það fullkomlega eðlilegt að menn velti því fyrir sér og ræði: Er sú hætta raunverulega fyrir hendi að við Íslendingar og vestnorrænu þjóðirnar tökum að einangrast í vaxandi mæli frá hinum Norðurlöndunum og norrænu samstarfi?
    Ég fagna því að andinn í þessari skýrslu er alls ekki í þá veru. Ég tel að eftir atvikum hafi tekist ágætlega til hvað þá grundvallarhugsun snertir að þessi bönd megi ekki á nokkurn hátt trosna. Og að

sjálfsögðu er það svo að okkur ber að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að svo verði ekki.
    Ég get þess vegna stytt mál mitt með því að segja að ég er eftir atvikum bærilega sáttur við það hvernig fjallað er um hið vestnorræna samstarf að svo miklu leyti sem það kemur inn í þessa skýrslu.
    Ég hefði að vísu vel getað hugsað mér að meiri uppskera hefði orðið af starfinu, bæði nefndastarfinu og umfjöllun forsætisráðherranna og því endurmati í heild sinni sem farið hefur fram hvað beinan stuðning við samstarf vestnorrænu þjóðanna snertir, t.d. í formi fjárstuðnings til meiri sameiginlegs reksturs sem tengdist vestnorræna samstarfinu beint.
    Ég er þeirrar skoðunar að það væri mjög nauðsynlegt að geta komið upp einhvers konar skrifstofu og starfsmannahaldi sem sérstaklega sinnti þessum verkefnum. Sú þróun hefur á undanförnum árum orðið að skrifstofan á Íslandi hefur tekið við skrifstofuhaldi fyrir Vestnorræna þingmannaráðið og sér nú um það fast í stað þess að það var áður á höndum þeirrar þjóðar sem hélt fundinn hverju sinni. Þetta er til bóta en þeir sem þekkja til um þá fjármuni og þann mannafla sem við höfum til að sinna öllum þessum stóru og miklu verkefnum sem tengjast norrænu samstarfi vita auðvitað að þar er ekki miklu á bætandi.
    Um tíma batt ég vonir við að út úr þessu starfi gæti komið meira hvað þetta snertir beint, að við fengjum aukinn stuðning við að byggja upp skipulagða starfsemi, skrifstofuhald og mannahald til að sinna vestnorrænum verkefnum sérstaklega. Það út af fyrir sig er ekki enda má segja að það hafi kannski ekki legið mjög vel við þegar sparnaðarandi svífur yfir vötnunum og talsverður niðurskurður er fyrirhugaður á sameiginlegum rekstri. (Gripið fram í.) --- Hv. formaður þingflokks Alþfl. er kominn til að ræða um norrænt samstarf og ég fagna því, það er ekki seinna vænna og hefur mikið til málanna að leggja eins og vant er.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, bæði vegna þess að það er ekki mikið meira um þetta að segja af minni hálfu en eins er það að bæði koma tillögur frá síðasta ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir þingið innan skamms í formi þáltill. eins og vant er og síðar á árinu mun að sjálfsögðu verða lögð fram skýrsla um það samstarf og rædd á Alþingi og vísa ég til þess. Hitt er mér ekkert launungarmál að ég held að það muni reyna á þetta samstarf, kannski með nýjum hætti á næstu árum m.a. vegna þeirra miklu erfiðleika sem eru í atvinnulífi og efnahagsmálum vestnorrænu þjóðanna og á vissan hátt geta tengst samskiptum þeirra. Nægir þar að nefna samskipti Íslendinga og Færeyinga á sviði sjávarútvegs. Einmitt á slíkum tímum reynir á það hvers virði vinskapar- og samstarfsböndin eru milli þjóða og ég þarf held ég ekki að fara um það fleiri orðum, hv. þm. vita væntanlega hvað ég á við.
    Að lokum þetta, hæstv. forseti. Ég tel að Íslendingum beri alveg sérstakar skyldur í þeim efnum að gæta hagsmuna hins norræna samstarfs og ég finn það líka að meðal margra, bæði embættismanna og stjórnmálamanna á hinum Norðurlöndunum sem er þetta samstarf kært, að þeir horfa þó nokkuð til Íslendinga um að við veitum í raun og veru forustu þeim sjónarmiðum sem vilja veg og viðgang þessa samstarfs áfram sem mestan, samskiptin náin og mikil og stöndum, ef svo má að orði komast, nokkurn vörð um þann anda og það samstarf sem einkennt hefur þetta á undanförnum árum. Ég vil tala alveg tæpitungulaust, ég á ósköp einfaldlega við það að hugur margra stjórnmálamanna og jafnvel embættismanna í stjórnsýslu á hinum Norðurlöndunum er orðinn mjög upptekinn af öðrum atburðum en norrænu samstarfi, bæði hræringum í austurvegi en þó ekki síður samrunaferlinu í Evrópu og aðlögun eða aðild Norðurlandanna að þeim atburðum. Margir óttast að þetta muni koma niður á norrænu samstarfi í framtíðinni og jafnvel fyrr en varir. Þeim sem er þetta samstarf hins vegar kært verður það á, skiljanlega finnst mér, að líta svolítið til Íslands sem sjálfstæðs aðila í þessu samstarfi og fullvalda ríkis sem gæti haft veruleg áhrif með sínum málflutningi á þessum vettvangi. Ég tel að við Íslendingar eigum ekki og megum ekki bregðast þeim skyldum sem við berum og þeim vonum sem við okkur eru bundnar að því leyti að við reynum að standa dyggan vörð um áframhaldandi gott og náið samstarf Norðurlandanna. Það er hvort sem er í okkar þágu, um það held ég menn deili ekki, ég hef ekki heyrt þau sjónarmið a.m.k. í dag og ég vil þess vegna fyrir mitt leyti leggja sérstaka áherslu á það að við stöndum okkur í þessu hlutverki.