Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 17:35:06 (1723)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil færa mönnum þakkir fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað sem ég hygg að hafi verið gagnlegar á marga lund, a.m.k. fyrir mig. Allir þingmenn fengu þessa skýrslu, eins og lög gera ráð fyrir, í tæka tíð fyrir þessa umræðu og menn hafa haft orð á því að það séu tiltölulega fáir sem hafa talið ríka nauðsyn til þess að sitja alla umræðuna eða jafnvel hluta hennar. Það væri freistandi að túlka það svo að þingmenn hefðu lesið skýrsluna nokkuð vel og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri harla góð og þyrfti lítið um hana að segja og þeir mundu samþykkja hana með fjarveru sinni hvað þetta snertir. Ég held hins vegar að það væri varasamt að draga þá ályktun, fremur megi draga þá ályktun að þingmenn telji að félagar þeirra í flokkunum hér á þinginu, sem valist hafa til forustu um norræn málefni, séu þeirrar gerðar að þeim megi treysta til þess að halda málinu vel til haga á þessum fundi. Ég tel að það hafi þeir gert ágætlega. Ég finn auðvitað til þess að margur sá sem hér hefur talað er með miklu ríkari þekkingu á norrænu samstarfi en ég. Auðvitað var það þannig að ég fann fyrir því þegar fundir forsætisráðherranna um þessi mál hófust að það háði mér nokkuð að ég hafði ekki tekið þátt í norrænu samstarfi á verulegum grundvelli fyrir það starf, þess vegna var afskaplega mikilvægt fyrir mig að fá til samstarfs mann á borð við Matthías Á. Mathiesen sem gegnt hafði forsetaembætti Norðurlandaráðs og utanríkisráðherraembætti og eins Jón Júlíusson. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim þeirra vinnu og framlag og áhuga og ágætt samstarf.
    Menn hafa nefnt í þessari umræðu, og ég hygg að það sé rétt, að sitthvað í þessari skýrslu væri þess eðlis að þar væru hlutirnir ekki algjörlega ljósir og sumt jafnvel virtist vera í mótsögn hvað við annað og sumir hafa nefnt að jafnvel mætti lesa út úr skýrslunni að forsætisráðherrarnir og umboðsmenn þeirra stefndu að því í einstökum greinum að draga úr norrænu samstarfi en ekki að auka það. Ég vek athygli á því að þó að þetta kunni að líta þannig út þá þarf það í sjálfu sér ekki að vera óeðlilegt. Ég bendi á, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Austurl. fyrr í dag, að til stóð og hugur manna var þannig að þróunin væri að verða sú að það væri óhjákvæmilegt að draga mjög mikið úr samstarfi á þessum vettvangi. Síðan hafa menn verið að snúast í aðrar áttir og vilji forsætisráðherranna hefur gengið í þá áttina. Engu að síður má segja að menn hafa ekki farið alla leiðina til baka, menn hafa verið á vissum sviðum að draga úr og laga sig að breyttum veruleika í heiminum. Við margir fulltrúar Íslendinga á margvíslegum vettvangi norræns samstarfs höfum fundið fyrir því að við erum örlítið orðin meira utan gátta, a.m.k. meðan mesti móðurinn hefur verið á mönnum í evrópskum samruna og margir hafa talið að við værum í raun að hluta til að dæma okkur úr leik þar sem þróunin og umræðan hlyti að snúast um hin evrópsku málefni. Ég held að þetta sé reyndar aðeins að snúast aftur og ég tel að í þessu starfi hafi þó það unnist að þeim í þessum hópum sem hlynntari voru því að glata ekki þeim vettvangi og því samstarfi, sem hefur átt sér stað á Norðurlöndunum og gert gríðarlega mikið gagn, hefur vaxið ásmegin og hinir hafa frekar lagað sig að þeim heldur en öfugt og það tel ég vera mjög gott spor í rétta átt.
    Hv. 4. þm. Austurl. benti á og það gerðu fleiri að margt í þessum tillögum tæki mið af þeirri þróun sem menn teldu að væri að verða varðandi Evrópu og hann sagði sem svo að þarna kynnu menn að vera of fljótir á sér. Ég fer ekki orðrétt með þetta en efnislega rétt, hygg ég. Ég er honum ekki sammála að þessu leyti til. Jafnvel þó að þróunin yrði ekki nákvæmlega sú sem þeir, sem lengst vilja ganga og á það trúa, telja þá sé til bóta að taka á máli eins og þessu einmitt á þessum tímapunkti. Segjum nú svo að þróunin yrði sú sem hv. 4. þm. Austurl. telur bersýnilega að ekki muni verða en hún muni verða jafnör og menn trúðu, hraðlestin muni bruna jafnört og menn trúðu í fyrstunni. Þá kynni að verða of seint að taka með sama gagni á hinni norrænu samvinnu. Þá væru menn búnir að tapa sér ef svo mætti segja í því sem þá væri að gerast. Ég held því að tímasetningin, hvort sem þetta fer á þeim hraða sem sumir trúa eða hægar eins og hv. 4. þm. Austurl. trúir, sé rétt. Ég tel að vinnan hafi sýnt það. Það er reyndar erfitt að gerast spámaður. Þó vil ég aðeins fyllast örlitlum drýgindum fyrir mína hönd og hv. 4. þm. Austurl. Þó við eigum nú ekki alltaf samleið er það þannig --- það hlýtur að vera skráð í þingtíðindum --- að þegar skoðanakannanir spáð enn þá miklum meiri hluta við Maastricht í Danmörku vorum við tveir sem töldum í þessum ræðustól að þar gæti farið á aðra lund. Þar reyndumst við sammála og sá spádómur reyndist réttur. Ég hef ekki uppi neina spádóma núna en þó er enginn vafi að það hefur orðið viss hugarfarsbreyting á Norðurlöndunum eins og reyndar líka í Evrópuríkjunum varðandi þennan mikla og hraða samruna. Ekki af því að forustumennirnir í sjálfu sér hafi snúið af sinni braut eða þeir telji sig hafa verið á rangri braut heldur hefur fólkið í löndunum ekki fylgt þeim eftir á þeim hraða sem þeir gerðu ráð fyrir. En þrátt fyrir þetta þá tel ég og vil taka það fram að það hafi verið rétt tímasetning á þessari vinnu.
    Ég sagði að þessi umræða hefði verið gagnleg og hún er gagnleg náttúrlega vegna þess að menn eru ekki að ræða endanlegt plagg. Við erum stundum í alþjóðlegri samvinnu í þeirri stöðu vegna þess að samningar hafa átt sér stað með löngum aðdraganda. Menn hafa samið fram og til baka niður í smæstu atriði. Í þingsalnum erum við í þeirri stöðu eins og reyndar okkar viðsemjendur í sínum þingsölum að verða nánast að taka samningana eins og þeir eru eða hafna þeim. Hér er ekki um samningsgerð af þessu tagi að ræða sem betur fer vil ég segja. Þess vegna er umræðan gagnlegri en áður.
    Ef þetta væri ekki svo hefðu menn orðið að eiga þessa umræðu miklu fyrr og forsætisráðherrarnir að eiga kost á að heyra þessi sjónarmið miklu fyrr en við eigum nú. Að vísu mun sumt af þessu ganga fram fljótlega eftir Árósafundinn einkum það sem snýr að forsætisráðherrunum beint. En mörg önnur atriði eru enn þá nánast á umræðustigi enda nokkuð óljós og ekki fullfrágengin eins og hér hefur komið fram og margir hafa bent á.
    Menn hafa til að mynda vakið athygli á menningarsjóðnum sem til átti að stofna og þar séu hlutir óljósir. Þeir eru vissulega óljósir. Ég verð að viðurkenna að ég hafði skilið málið þannig að þessar 200 millj. væru hámarksupphæð. Ef hún næðist ekki með þeim niðurskurði sem menn töluðu um yrði tvennt að gerast. Annars vegar að hámarksupphæð næðist á lengri tíma eða menn yrðu að taka ákvörðun um að að beina hærri fjárframlögum í þá átt til að ná þessu marki. Við mundum auðvitað gera ráð fyrir því að aðalhöfundarnir að þessari tillögu og áhugaaðilinn, þ.e. sænska ríkisstjórnin, mundi þá hafa frumkvæðið í þeim efnum. Jafnframt hafði ég skilið málið svo, það má vel vera að það sé misskilningur, að eftir að þessari stöðu hefði verið náð varðandi sjóðinn með þessari skerðingu þá mundi annað norrænt samstarf njóta fulls fjárframlags að öðru leyti. Þannig að þó þetta mundi þrengja að um hríð mundi sjóðurinn þegar hann væri hættur að taka til sín lifa á sínum eigin vöxtum og þá mundu þau framlög sem áður voru notuð til að byggja hann upp mega nýtast til annars. Það má vel vera, ég viðurkenni það, að þetta hafi ég misskilið. En ég hef þá eins og aðrir, þar sem þetta er ekki frágengið, tækifæri til þess að koma mínum sjónarmiðum að og heyra skoðanir okkar samstarfsaðila í hinu norræna samstarfi varðandi þetta atriði.
    Varðandi hina nýju stjórn sem talað er um að sett verði á laggirnar af hálfu ráðherranna les ég það svo líka eins og hv. 4. þm. Austurl. að þar sé um að ræða að forsætisráðherrann tilnefni af sinni hálfu mann. Að vísu mun það vera svo að aðrar þjóðir kunni að hafa þar aðra skipan á eins og mun vera í Danmörku. Þar hafa þeir þá skipan á að utanríkisráherrann tilnefni mann í þetta starf. Ég hefði fremur kosið að það gengi hjá öllum að það væri á forsætisráðherrans vegum en það er ekki þar þó forsætisráðherrann eigi að hafa þennan atbeina sem þar er nefndur. Það er reyndar eitt af því sem bersýnilegt er að sá upprunalegi vilji sem menn höfðu hefur ekki alveg náð að ganga fram. Það er auðséð á þessum plöggum að menn hafa fengið bakþanka.
    Í hverju eru þeir bakþankar fólgnir? Markmiðið var að auka forustuhlutverk forsætisráðherranna og afskipti þeirra af hinu norræna samstarfi. Þetta eru allir menn sammála um. Þegar síðan til stykkisins kemur fara menn að velta fyrir sér tíma þeirra og fara þá í næsta leik nokkuð að draga úr. Þetta blasir við og er kannski að hluta til eðlilegt og að hluta til mannlegt. En það er auðvitað dálítið hættulegt að hafa þá aðferð á hlutunum. Og ég tel mikilvægt að forsætisráðherrarnir séu í þessu af eins miklum þunga og hægt er eða þá að þeir séu ekki að taka til sín ábyrgðina.
    Þar sem sú skipan er á að þeir vilja taka til sín ábyrgðina held ég að við ættum að ýta á það og það eigi að vera í framtíðinni að þeir komi sem minnstu af sér í þessum efnum því þá gæti í raun sá pólitíski ávinningur sem á að vera af þátttöku þeirra og sú þungavigt sem því ætti að fylgja orðið minni en að hafði verið stefnt.
    Varðandi þátt ráðherranna sem menn hafa nefnt hef ég skilið málið svo að í sjálfu sér sé ekki gert ráð fyrir því að minnka þeirra afskipti af málefnum Norðurlandaráðs. Vegna þess, eins og hv. 1. þm. Austurl. benti á, að þó menn geri ráð fyrir víðtækara og óformlegra samstarfi sem ég tel einnig að EES í sjálfu sér kalli á ætti ekki að þurfa að gera ráð fyrir að í norrænu samstarfi dragi úr samstarfi á vegum einstakra fagráðherra þó þeir kunni að vera með öðrum hætti bundnir gagnvart viðveru í ráðinu en nú er.
    Ég hef líka skilið það svo að eftir að þessar skýrslur hafa komið til umræðu á öðrum þjóðþingum hafi þetta atriði jafnframt verið gagnrýnt þar þannig að menn hljóta að skýra það nánar svo það liggi ljósar fyrir gagnvart þinginu hvert verði verkefni og skylda ef við getum sagt sem svo norrænna ráðherra gagnvart setum á Norðurlandaráðsþingum.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, á þessari stundu að fjalla nánar í einstökum atriðum um það sem hér hefur komið fram en segi á nýjan leik að þær athugasemdir verða bæði mér og þeim sem að þessum málum starfa mjög gagnlegar. Ég vonast til þess að okkar fulltrúar á þingi Norðurlandaráðs hafi líka við þær umræður sem þó hafa getað átt sér stað milli okkar og þeirra fulltrúa og eins hér í þinginu hafi markvissara og betra tækifæri til þess að láta til sín taka í lokameðferð málsins á næstu væntanlega tveimur fundum Norðurlandaráðs.