Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 18:01:36 (1725)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt vegna þess sem hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, sagði um þetta fyrirhugaða samstarf sem kennt er við Barentssvæðið. Ég vildi aðeins láta það koma fram að auðvitað mun utanrrh. Íslands halda fram okkar hagsmunum í þessu máli á þessum fundi sem verður haldinn 13. jan. í Kirkjunesi eins og hv. þm. raunar sagði.
    Ég held við þurfum hér aðeins að greina á milli. Við erum að tala um margs konar samstarf á norðurslóðum. Mér sýnist í ýmsu að þetta samstarf muni kannski í töluverðum mæli beinast að þeim landsvæðum sem þarna eru. Síðan erum við aðilar að annars konar samstarfi norðursvæðanna sem er Rovaniemi-samstarfið, sem tekur til þessara svæða hringinn í kringum norðurskautið. Það samstarf beinist fyrst og fremst að því að fylgjast með lífríkinu, að ýmsum sviðum umhverfismála. Síðan er þess að geta að Kanadamenn hafa hreyft þeirri hugmynd og henni hefur verið jákvætt tekið af okkar hálfu að stofnað yrði eins konar heimskautaráð, það sem þeir hafa kallað Arctic Council. Við höfum tekið þeirri hugmynd vel.

    Hér er því býsna margt að gerast og við skulum bara sameinast um það að hlutur Íslands verði ekki með neinum hætti fyrir borð borinn í því samstarfi sem þarna er að hefjast. Ég veit að þar getum við átt gott samstarf.