Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 19:13:40 (1732)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki alveg klár á því hvað veldur þessari skerðingu. Ég get þó bent á að í lánsfjárlögum fyrri ára var um skerðingarákvæði að ræða þegar Stofnlánadeildin átti í hlut, þar á meðal t.d. vegna lánsfárlaganna 1991. Í 13. gr. þeirra laga var ákvæði sem skerti framlög verulega til Stofnlánadeildarinnar. Það snerti líka Lífeyrissjóð bænda en ég get ekki fullyrt að það sé í þessu dæmi sem hér er til umræðu. Ég efast ekki um að það sé hægt að fá upplýsingar um það í nefnd.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. ræðumanni að ég hafði ekki svarað annarri spurningunni um bankana. Það er líka kannski dálítið erfitt að svara því en ég get þó bent á af því að minnst var á fund Vinnuveitendasambandsins að einmitt á fundi Vinnuveitendasambandsins fyrir ári eða tveimur flutti Sigurður Stefánsson, er forstjóri Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, ræðu og taldi óhætt að koma inn með ný hlutabréf eingöngu vegna einkavæðingar upp á tvo til þrjá milljarða á ári.
    Sannleikurinn er sá að það vantar svona bréf markaðinn. Markaðurinn er m.a. veikur vegna þess að það vantar bréf í nýjum fyrirtækjum sem yrðu skráð á Verðbréfaþingi Íslands og það mundu þessi bréf verða. Lífeyrissjóðirnir og aðrir hafa verið að leita að dreifingu áhættu í sínum sparnaði og þá mundi einmitt eignaraðild að sterkum banka nýtast slíkum aðilum mjög vel.
    Í öðru lagi langar mig til að það komi fram að þótt rétt sé að Einar Oddur Kristjánsson hafi hælt þáv. ríkisstjórn og reyndar stjórnarandstöðu fyrir hvernig staðið var að þjóðarsáttarsamningunum á árinu 1990 var það nú svo að ekki gekk allt eftir því strax að loknum þeim samningum lýsti Einar Oddur Kristjánsson því yfir að það yrði að breyta samningunum við BHMR. Og aftur og aftur hamraði hann á því en ríkisstjórnin lét undir höfuð leggjast að gera það og því fór sem fór sumarið 1990. Þetta vil ég að komi hér fram og þarf auðvitað ekki að rifja upp fyrir hv. þm.
    Í lokin vil ég að það komi hér fram að auðvitað eiga fulltrúar ríkisstjórnarinnar, stundum formenn flokkanna, stundum ég og forsrh., stundum einungis fulltrúar fjmrn., samstarf og samráð við aðila vinnumarkaðarins um þá hluti sem nú er verið að ræða. Það liggur í hlutarins eðli vegna þess að margt af því sem þar er rætt er ekki hægt að fá upplýsingar um nema innan úr ráðuneytunum, þar á meðal útreikninga alls konar á skattamálum. Ég get hins vegar sagt að ég hygg að þetta starf sé ekki komið eins langt eins og ýmsir halda. Og ég tel ástæðu til að leggja áherslu á að gefa þessum aðilum frið til að komast að niðurstöðu. Það geta verið tvær til þrjár vikur í slíka niðurstöðu. Komi hún ekki hlýtur ríkisstjórnin að þurfa að taka á þessum vanda sem nú er augljós með viðeigandi hætti. Hún mun því ávallt bera ábyrgðina.