Foreldrafræðsla

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 13:49:40 (1741)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Mig langar til þess að taka undir orð þeirrar þingkonu sem talaði hér fyrir þáltill. að umönnun barna er brýnasta mál þessa þjóðfélags. Það er ekkert, ég vil segja í veröldinni, sem er mikilvægara en það hvernig við stöndum að uppeldi nýrra kynslóða. Það ræður úrslitum í rauninni um framtíð samfélaganna hvernig að þeim málum er staðið.
    Þegar við komum að skólakerfinu er í grundvallaratriðum aðeins tvennt sem þyrfti að kenna ef út í það væri farið. Í fyrsta lagi að kenna fólki að afla sér lifibrauðs þannig að það geti séð sér farborða síðar meir. Í öðru lagi að kenna fólki að annast sjálft sig og afkvæmi sín. Þetta tvennt er í grundvallaratriðum það sem kenna þarf í skólakerfinu fyrir utan ýmislegt sem utan á þetta má hengja. En það vantar dálítið mikið upp á að í íslensku skólakerfi sé fólki kennt svo vel sé að annast sjálft sig og ekki síður afkvæmi sín.
    Ég held að ef við hugsum sjálf til baka til þess tíma þegar við vorum í skóla hafi ekki verið lögð sérstaklega mikil áhersla á hvernig við ættum síðar meir að sinna foreldrahlutverkinu. Það á fyrir flestum okkar að liggja að verða foreldri. Ef ég hugsa til minna menntaskólaára minnist ég þess varla að þar hafi verið nokkurt námsefni sem laut að því að síðar meir ætti maður eftir að verða foreldri.
    Það er mjög mikilvægt mál og mjög brýnt að fara að taka á þessu vegna þess að mér sýnist að að ýmsu leyti getum við merkt það í samfélaginu í dag að verulega skorti á þekkingu fólks á börnum og því hvernig umgangast beri börn og hvernig sinna beri börnum. Að einhver þráður hafi rofnað a.m.k. í nútímaborgarsamfélagi, sem kannski tengdi kynslóðirnar betur saman áður og skilaði þekkingu og reynslu frá einni kynslóð til annarrar, og þess vegna verði að fara að taka á þessum málum. Ég fagnaði því mjög þegar ég heyrði félmrh. lýsa því yfir nýverið að hún teldi að þetta ætti að vera eitt af brýnustu forgangsmálunum í íslensku samfélagi á næstu árum. Ég vona svo sannarlega að það sé raunverulegur vilji fyrir þessu og við sjáum þess stað í því sem þá verður gert af hálfu ríkisstjórnarinnar, í fjárlögum og ýmsum frv. sem hér eiga eftir að líta dagsins ljós og ýmsum verkefnum sem ríkisstjórnin mun beita sér fyrir.
    Sumt fólk lendir í miklum vandræðum með börn sín vegna efnalegs skorts vegna þess að það hefur ekki aðstæður eða efni til að búa nógu vel að börnum sínum. Aðrir lenda líka í þessu hreinlega af þekkingarskorti vegna þess að þeir vita ekki á hverju börn þurfa að halda og hvernig annast á börn. Mig langar í þessu sambandi að benda á úttekt í Morgunblaðinu sunnudaginn 20. sept. Þar kom þetta hræðilega orð ,,pokabarn`` fyrir. Í íslensku samfélagi er orðið talsvert af svokölluðum pokabörnum sem koma heim til sín á daginn að læstum dyrum þar sem poki hangir á hurðarhúninum. Í honum er það sem þau eiga að hafa til viðurværis yfir daginn. Það er náttúrlega hrein og klár tragedía að þannig skuli vera að börnum búið í okkar samfélagi. Þar er ekki bara við stjórnvöld að sakast heldur líka við foreldra sem bera auðvitað ábyrgð á börnum sínum.
    Mig langar að vísa í það sem segir í þessari könnun, sem var unnin af tveimur konum úr Kennaraháskóla Íslands. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt þessari könnun blasir sú staðreynd við að helmingur allra átta ára barna í Reykjavík er einhvern tíma vikunnar án umsjár fullorðinna og 25% allra sex ára barna. Um 36,8% barna af heildarsvarendahópi eru allt upp í 30 klst. á viku án umsjár fullorðins aðila. Eru þau annaðhvort alein eða með systkinum eða félögum. Systkini eru oft á svipuðum aldri og börnin eru í könnuninni og í flestum tilvikum undir tólf ára aldri.``
    Þetta hefði kannski getað gengið og getur kannski gengið að einhverju leyti til sveita í dag. En í íslensku borgarsamfélagi gengur þetta engan veginn.
    Þessar tvær konur, sem heita Hrönn Pálmadóttir og Jóhanna Rútsdóttir, segja í viðtali:
    ,,Það sem vekur mesta furðu okkar er hversu ánægðir foreldrar eru þó yfirleitt. Við óttumst að það sé orðin almenn samþykkt í þjóðfélaginu að börn séu orðin fullorðin átta ára gömul og geti því bjargað sér sjálf. Kannski má líka skoða þessar niðurstöður í ljósi þess að þegar Íslendingar eru spurðir um ánægju og lífshamingju telja þeir sig gjarnan meðal ánægðustu og hamingjusömustu þjóða heims. Þeir vilja bera sig vel og finnst neikvætt að vera með barlóm.``
    Það er ábyggilega nokkuð til í þessu. En það breytir þó ekki staðreyndinni hversu mörg börn ganga sjálfala. Þær segja áfram: ,,Við ætlumst til mikils af börnum, t.d. að þau sýni kærleika, séu kurteis, umburðarlynd, hlýðin, beri virðingu fyrir fullorðnum og séu dugleg að læra,`` segja Hrönn og Jóhanna. ,,En hvaða forsendur hafa þau til að standa sig þegar þeim er ekki sinnt sem skyldi? Bernska þeirra einkennist oft af öryggisleysi, kvíða og mótþróa og þessi vanlíðan barnanna kemur ekki síst fram í skólastarfi.``
    Ástæðurnar fyrir því að svo illa er búið að yngstu kynslóðinni telja þær Hrönn og Jóhanna einkum vera þrjár. Í fyrsta lagi hafi skólamál ekki verið á forgangslista stjórnvalda --- og ég vek athygli á því vegna þess að það snýr ekki síst að okkur sem hér sitjum. Í öðru lagi gera foreldrar litlar kröfur þegar börn þeirra eiga í hlut. Í þriðja lagi hefur skólinn of lengi hjakkað í sama farinu. Hann er rekinn með svipuðum hætti og þegar mæður voru heima, þ.e. fyrir 30--40 árum.
    Þess vegna held ég að það sé orðið mjög brýnt fyrir okkur að taka á þessum málum. Ég held að ekki síst í ljósi þess þjóðfélagsástands sem við blasir ef hér verður áframhaldandi samdráttur og atvinnuleysi, sem við auðvitað vonum öll að verði ekki, eigi ástandið síst eftir að batna. Því við vitum að þá bætast oft ofan á þá erfiðleika sem fyrir eru ýmsir félagslegir erfiðleikar sem stafa af atvinnuleysi og slæmum efnahag.
    Ég ítreka það hér að ég tel þetta mjög mikilvægt mál. Við verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að taka á þessum málum og til að gera foreldrum kleift að sinna sínum skyldum --- ég vil taka það fram að þetta eru skyldur sem barnalögin leggja okkur á herðar. Stundum verður manni hugsað til þess vegna starfa hins hv. Alþingis að ekki sé alltaf borin mikil virðing fyrir barnalögunum á hinu háa Alþingi þegar vinnutími þingmanna er skipulagður.