Foreldrafræðsla

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 13:57:03 (1742)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Hér er hreyft mjög þörfu máli og nauðsynlegt að gefa sér dálítinn tíma til að skoða það í þessari virðulegu stofnun.
    Þannig vill til að ég á sæti í hv. menntmn. og gefst kostur á að fara aðeins yfir málið þar. Ég ætla því að spara mér athugasemdirnar í meginatriðum þangað til. Ég ætla þó að drepa á nokkur atriði.
    Í fyrsta lagi: Að hverju lýtur sá almenni vilji sem hér kemur fram í þegar fluttum þremur ræðum? Hann lýtur að því að það eigi að búa sæmilega að börnum almennt í þessu þjóðfélagi. Hvernig á að gera það og hvernig getum við nálgast það verkefni sem eigum sæti á Alþingi? Það er ekki auðvelt. Hvaða börn er hér um að ræða? Það eru auðvitað í fyrsta lagi þau börn sem eru á vegum stofnana sem með einhverjum hætti snerta opinbera aðila. Það eru leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar.
    Hvernig háttar þessu til að því sem varðar leikskóla í landinu? Staðreyndin er sú að þar erum við aftar en flestar aðrar þjóðir á svipuðu menningarstigi. Við búum mjög illa að okkar börnum að þessu leytinu til, sem m.a. sést af þeirri könnun sem hv. 10. þm. Reykv. vitnaði til áðan. Fjórðungur sex ára barna er einhvern tímann vikunnar einn, á sínum eigin vegum. Hér er verið að tala um sex ára einstaklinga.
    Í öðru lagi eru það grunnskólarnir. Þar stöndum við frammi fyrir því að skornir hafa verið niður tímar. Samkvæmt nýlegum upplýsingum kemur í ljós að sá tímaniðurskurður kemur einkum og sér í lagi niður á almennum grunngreinum t.d. íslensku. Jafnframt þýðir þessi niðurskurður það að ekki er hægt að taka á ýmsum sérverkefnum sem aðalnámskrá grunnskóla kemur inn á og snertir þann þátt sem við erum einmitt að ræða hér. Með öðrum orðum er verið að loka fyrir að þeim málum sé sæmilega sinnt.
    Um framhaldsskólann gildir það sama. Það er verið að loka framhaldsskólunum. Það er verið að tala um að þrengja þá verulega frá því sem er samkvæmt lögunum frá árinu 1988.
    Þetta er skólinn. Og þegar ég tala um skólakerfið er ég ekki að tala bara um grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Ég er líka að tala um leikskóla. Ég tel að þar sé mjög víða pottur brotinn. Þetta er skólinn, það er einn þáttur þessa máls sem að börnum í landinu snýr.
    Hinn meginþátturinn sem að börnum snýr í landinu eru fjölmiðlar. Það liggja fyrir ítarlegar rannsóknir sem sýna að verulegur hluti barna eyðir stórum hluta ævi sinnar á fyrstu mótunarárum fyrir framan fjölmiðla. Þá er ég að tala um myndmiðla, sjónvörp af ýmsu tagi.
    Í þriðja lagi eru það svo heimilin sem hafa auðvitað áhrif á mótun barnanna á þessu skeiði. Þar er við margs konar vanda að glíma, ekki síst um þessar mundir þegar nærri fjögur þúsund Íslendingar eru á atvinnuleysisskrá. Sennilega hittir atvinnuleysið fyrir um það bil 10.000 landsmenn með beinum eða óbeinum hætti. Líka börn.
    Svona lítur þetta dæmi út í dag. Þrátt fyrir þau fögru orð sem menn kunna að láta falla hér er veruleikinn úti í þjóðfélaginu hins vegar afar dapur, satt best að segja, að því er varðar aðhlynningu barna.
    Spurningin í þessu efni er þess vegna að mínu mati í fyrsta lagi: Hvað er hægt að gera til þess að auka og styrkja ábyrgðartilfinningu foreldra þannig að þau taki umönnun barnsins fram yfir allt annað? Ég varð t.d. var við það þann tíma sem ég var menntmrh. og reyndi að ýta undir foreldrastarf í skólum með skipulögðum hætti að ég heyrði það dálítið að menn segðu sem svo: Jú, þetta er gott og blessað en við höfum ekki tíma til að sinna þessu foreldrastarfi. Vafalaust er það til í einhverjum tilvikum að fólk er önnum kafið við að afla sér lífsviðurværis en það er líka til að hlutirnir eru í vitlausri forgangsröð.
    Það er mikilvægara að mínu mati að sinna barni heldur en að afla tekna til þess að byggja sér tvöfaldan bílskúr svo ég nefni dæmi. Ég held að það þurfi í raun og veru að ýta á hlutina þannig að barn hafi ríkari og skarpari forgang í þjóðfélaginu en virðist vera nú í þjóðfélagi samkeppni, vöruþróunar, vöruæðis að ég segi ekki neyslusýki.
    Í annan stað eigum við að skilgreina ábyrgð skóla. Í þriðja lagi eigum við að skilgreina ábyrgð fjölmiðla, í fjórða lagi sveitarfélaganna og í fimmta lagi ríkisins. Þetta á að gera með skipulegum hætti. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því líka að sú tillaga sem hér er verið að flytja kostar fjármuni. Ég spyr: Hver á að borga þá? Á ríkið að greiða þetta eða eru það sveitarfélögin? Við þurfum að svara því líka.
    Staðreyndin er nefnilega sú að það er verið að taka, liggur mér við að segja, börnin frá umræðum í þessari stofnun. Það er verið að færa þjónustu við börn eingöngu yfir til sveitarfélaganna. Það er verið að tala um að flytja grunnskólana til sveitarfélaganna. Það er búið að flytja leikskólana til sveitarfélaganna. Hver verður þá okkar hlutur í þessari stofnun að því er varðar stefnu gagnvart börnum, að því er varðar barnaheill almennt í landinu? Mitt svar er það að okkar hlutur verða fyrst og fremst hin almennu lífskjör. Meðan þau eru þannig að um 10.000 manns verða fyrir barðinu á atvinnuleysi með beinum eða óbeinum hætti á hverjum degi höfum við ekki staðið okkur sem skyldi. Við eigum að byrja að treysta almenn lífskjör í landinu til að standa sæmilega að málum að því er varðar börn og foreldrafræðslu líka.
    Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, um leið og ég endurtek það sem ég sagði áðan að þar sem ég á sæti í hv. menntmn. gefst mér kostur á að skoða þetta mál betur. En ég tel þetta mikilvægt og þarft mál og mér þykir vænt um að það skuli koma til umræðu í þessri stofnun sem ræðir sjaldan um hagsmuni barna.