Foreldrafræðsla

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:03:41 (1743)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar með örfáum orðum að lýsa yfir stuðningi við tillöguna sem hér er flutt af þingmönnum Kvennalistans og hefur reyndar verið flutt áður.
    Hér er hreyft einhverju mikilvægasta máli í okkar þjóðfélagi, máli sem snýr að börnum. Þeir hv. þm. sem hafa talað á undan mér hafa rakið það mál nokkuð og eins þá umfjöllun sem hefur verið í fjölmiðlum nýlega um vanrækslu á börnum.
    Hér er bent á ýmsar leiðir sem mættu verða til þess að styrkja foreldra í sínu hlutverki. Ýmist með því að taka upp innan skólakerfisins fræðslu á þessu sviði, á heilsugæslustöðvum, í fjölmiðlum og eflaust væri hægt að hugsa sér námskeið og fleira. Ekki ætla ég að dæma um hvaða leið væri affarasælust. Fyrst og fremst vil ég taka undir með hv. flm. hvað það snertir að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.
    Ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að koma fyrir inni í skólakerfinu. Þá á ég sérstaklega við grunnskólann þegar alltaf er verið að fækka kennslustundum. Nú er svo komið að kennarar halda því fram að þeim undirstöðugreinum sem kenna þarf í grunnskólanum sé svo þröngur stakkur sniðinn að það sé orðið vandamál. Þá á ég kannski ekki síst við lestrarkennsluna. Kennarar biðja foreldra hreinlega um að láta börnin lesa heima. Láta þau lesa upphátt heima vegna þess að þeir hafi ekki tíma til að láta börnin lesa á þessum stutta skóladegi. Nú er ég ekki að finna að því að foreldrar séu beðnir um þetta. Ég nefni þetta aðeins vegna þess að ég er sannfærð um að sú stefna sem hefur verið uppi hjá stjórnvöldum og sérstaklega það skref sem stigið var í fyrra með svokölluðum bandormi er mjög hættuleg.
    Hæstv. menntmrh. heyrir því miður ekki mál mitt en ég veit að hann er ekki langt undan. Ég velti því mjög fyrir mér þessa daga hvaða stefnu hann hyggst taka og hvaða leiðir hann hyggst fara í málefnum barna. Eftir því sem ég best veit er búið að taka út úr grunnskólalögum ákvæði um einsetinn skóla, lengri skóladag og skólamáltíðir. Hverjar skyldu hugmyndir hæstv. mennmrh. vera í þeim efnum að koma þessum mikilvægu áhersluatriðum inn í lög að nýju? Kannski eru engar hugmyndir uppi um það. Þetta er kannski örlítið annað mál en hér er á dagskrá en þó tengist öll fræðsla og allar nýjungar sem vissulega þarf að koma inn í grunnskólann því að skóladagur verði lengdur. Ef við sjáum fyrir okkur grunnskólann þannig að skóladagur sé lengri og gefinn kostur á skólamáltíðum þá erum við að tala um allt annað þjóðfélag. Ég held að nú sé svo komið að þetta sé það sem við verðum að setja á oddinn. Þrátt fyrir að hér séu ákveðnir erfiðleikar í efnahagsmálum, sem enginn mótmælir, verður ekki hægt að láta þá erfiðleika koma niður á börnum.