Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:15:25 (1745)

     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. um lánskjör og ávöxtun sparifjár fjallar um það að óheimilt verði frá næstu áramótum að verðtryggja fjárskuldbindingar og þar með talin inn- og útlán í bankakerfinu, skuldabréf, verðbréf og fleira og að lánskjaravísitalan verði lögð niður.
    Hv. 6. þm. Suðurl. hefur áður flutt þetta frv. fimm sinnum og í þetta sinn gerðist ég samflutningsmaður hans að frv. Segja má að oft hafi frv. verið flutt nokkuð seint á þingi, oft ekki fyrr en undir þinglok og ég held í eitt eða tvö skipti ekki komist til nefndar, en mér finnst vera komin full ástæða til nú þegar þetta frv. er flutt á haustdögum að sú nefnd sem væntanlega fær það til meðferðar, efh.- og viðskn., taki frv. alvarlega og afgreiði það frá sér. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir sérstakri þrautseigju þingmannsins að flytja þetta mál svo ár eftir ár.
    Á sama tíma og við höfum í allmörg ár tekið kaupgjaldsvísitöluna úr sambandi þá getur það ekki gengið til lengdar að lánskjaravísitalan sé í sambandi því ekki fara saman hagsmunir launþegans og hagsmunir fjármagnseigandans eða þeirra sem fjármagninu stjórna. Til þess hefur verið ætlast á undanförnum árum með þjóðarsátt í kaupgjaldsmálum að launafólk í landinu geri ekki kröfur til kauphækkana og taki á sig í vaxandi mæli þá erfiðleika sem steðja að í þjóðfélaginu. Út af fyrir sig er þetta eðlilegt sjónarmið á þessum erfiðu tímum sem nú ganga yfir þjóðfélagið en það er óeðlilegt að sama skapi gagnvart þeim sem ætlast er til að haldi kröfum sínum í skefjum að þeir eigi yfir höfði sér að um það sem þeir skulda eigi að gilda allt annað lögmál. Þetta getur ekki gengið og ef þörf hefur verið á breytingu þá er hún rík nú og ríkari en áður. Þetta er það sem lýtur að launþegunum og þeim þjóðfélagsþegnum sem verða að láta sér nægja þau laun sem atvinnulífið og ríkisvaldið telja að hægt sé að greiða hverju sinni.
    En þá komum við aftur að hinu dæminu, þ.e. atvinnurekstrinum sjálfum. Er hann fær um það að viðhalda þeim vöxtum sem verið hafa á skuldum atvinnulífsins? Atvinnulífið, og sérstaklega útflutningsatvinnuvegirnir, hefur verið að margfalda skuldir sínir á mörgum undanförnum árum og hinir háu vextir eiga sína sök á því hvernig komið er. Því er kominn tími til að slíðra þar sverðin líka og taka tillit til þess sem hinn almenni launþegi á að taka að sér og á að búa við. Það má einnig huga að atvinnurekstrinum í þessu sambandi því það hefur líka í för með sér öryggi hins vinnandi manns hvernig ástatt er með atvinnureksturinn. Sumir segja að gengisfellingar séu bannorð í þjóðfélaginu þó öllum sjáandi mönnum sé fært að sjá það, þó slæmt sé að viðurkenna, að gengisfelling hefur orðið. Ég er ekki talsmaður gengisfellingar en ég vil líta á hlutina raunsæjum augum.
    Ég tel að þegar pundið fellur um um það bil 15% þá glati útflutningsatvinnuvegirnir sem selja í

sterlingspundum 15% af andvirði vöru sinnar, en þeir sem þurfa á gjaldeyri að halda til þess að eyða, og kannski það sem við segjum að óþörfu eða sem mætti draga úr, þeir fá hann á útsölu, með 15% afslætti.
    Ég held að við verðum að viðurkenna það að þessi aðferð er miður heppileg til að halda í við að menn fari gætilega með fjármuni og það sé verið að tefla á tæpt vað hvað útflutningsatvinnuvegina snertir, og alveg sama í hvaða grein það er, þetta er það sama.
    Við fáum ekki skilið, og það skilur það enginn nema helst ríkisstjórnin og Seðlabankinn, að þetta hafi engin áhrif. Þegar sterlingspundið fellur, þá eigi þetta engin áhrif að hafa á atvinnuvegina. Alls engin. Það átti engin áhrif að hafa heldur á atvinnuvegina þegar dollarinn féll. Fyrir einu ári fengu menn 62 kr. fyrir dollarann, núna hefur hann aðeins risið frá því að fara niður í 53 kr., ef ég man rétt. Á sama tíma erum við að myndast við að byggja upp nýjar atvinnugreinar. Við höfum lagt mikið upp úr ferðamannaþjónustu. Þar hefur verið farið í fjárfestingar upp á milljarða. Hvernig stendur hún að vígi? Er það aðlaðandi við þessa efnahagsstjórn að erlendir ferðamenn komi hér í ríkari mæli? Nei, ég held að það sé alveg öfugt. Þeir hljóta að draga úr ferðum til eins dýrasta lands í heimi. Það hlýtur að hrikta í stoðum undir ferðaiðnaðinum.
    Hvað er að gerast í öðrum greinum? Hvað er að gerast í iðnaði? Við erum að kaupa í ríkari mæli fullunna vöru sem er unnin af erlendu fólki og flytja til landsins og eftir því sem haldið er áfram á þeirri braut verður meira um það að framleiðsla leggst niður og atvinna minnkar í landinu.
    Því verður ekki á móti mælt að það verða að fara saman aðgerðir gagnvart launafólki almennt og aðgerðir gagnvart þeim sem fjármagnið eiga eða fara með umboð fyrir fjármagnið. Það verður að taka tillit á sama hátt í báðum þessum tilfellum.
    Þess vegna held ég að úr því sem komið er, bæði vegna þess hve lengi hefur lifað í þessum glóðum og vandamálin hafa hrannast upp á síðustu árum, þá sé enn ríkari þörf fyrir að samþykkja frv. í þessa átt en áður hefur verið. Þetta er ástæðan fyrir því að ég vildi leggja mitt lóð á vogarskálina með því að vera samflutningsmaður hv. 6. þm. Suðurl. En ég beini þeim tilmælum til formanns efh.- og viðskn. sem hér er inni, að það er ekki vansalaust fyrir Alþingi þegar frv. um sama efni er flutt árum saman að afgreiða það ekki úr nefnd. Það er hægt að afsaka sig og rík afsökun fyrir því þegar frv. er flutt seint á þingi að þá eru yfirleitt annir miklar og raunin hefur orðið sú að þá hafa nefndir verið þræluppteknar við að afgreiða stjórnarfrumvörp. Það er ekkert nýtt hjá þessari ríkisstjórn sem nú situr, aðrar ríkisstjórnir hafa lent í því sama, að vera með sinn annatíma í lok þings. Því er kannski ekki óeðlilegt að frv., þó þörf séu, mæti þá afgangi. En þegar frv. er flutt nú á haustdögum þá vænti ég þess að formaður efh.- og viðskn., sem er maður á besta aldri og knár og fljótur að bretta upp ermarnar, sjái sóma sinn og virðingu í því að afgreiða þetta frv. fljótt og vel.