Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:27:16 (1746)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég tek til máls vegna þess að ég vil lýsa yfir stuðningi við það mál sem hér er á ferðinni. Ég er einn af þeim sem trúðu á verðtrygginguna í upphafi. Þegar verið var að kynna fyrir okkur á sínum tíma hugmyndirnar um að verðtryggja fjárskuldbindingar þá var sú hugmynd seld mönnum með eftirfarandi hætti: Það væri ósköp eðlilegt að menn ættu að greiða sínar skuldir, það sem þeir fengju lánað ættu þeir að borga til baka. Og þegar væri búið að verðtryggja fjárskuldbindingar þá mundi koma ró á þennan markað, menn færu að borga sem svaraði 1--3% vexti af sínum lánum og hættu að græða á því að fá lán og greiða ekki til baka samsvarandi upphæðir með vöxtum og eðlilegt væri. Þetta var sagt við þjóðina. En hver er svo reyndin? Hvað hefur gerst síðan? Við fengum ekki bara jákvæða raunvexti, við fengum margfalda raunvexti. Við fengum okurvexti sem menn voru settir í steininn fyrir að taka áður en þessi lög tóku gildi.
    Ég held að okkur hafi borið langt af leið í þessu máli og reyndar hafi stefnan frá upphafi verið röng, það verður að viðurkennast, einfaldlega vegna þess að leikreglurnar í þjóðfélaginu eru skekktar með svona ákvæðum. Eignir hljóta að verða að geta tekið breytingum, líka fjárskuldbindingar. Þjóðfélagið er alltaf að breytast og kaupi maður t.d. fasteign á einum stað þá sættir maður sig við það og veit að leikreglurnar eru þær að þessi fasteign getur selst fyrir minna eða meira þegar að því kemur að maður þarf að selja hana aftur. Og þegar einhverjir lána peninga í ákveðnum tilgangi, þá þurfa þeir líka að taka þessa áhættu. Það eru eðlilegar leikreglur fjármálakerfisins.
    Ég held þess vegna að tillagan sé löngu tímabær. Það hefur líka komið í ljós að þjóðfélagið hefur ekki verið tilbúið að standa við einhver svipuð ákvæði gagnvart t.d. launafólki, gagnvart launum og öðrum stærðum í þjóðfélaginu, enda ekki hægt. Það hljóta allir skynsamir menn að sjá að um leið og búið er að negla niður allar stærðir í þjóðfélaginu með verðviðmiðunum, þá mun kerfið springa vegna þess að við munum aldrei geta reiknað svo nákvæmlega út að ekki muni einhverju skeika og einhvers staðar þarf að myndast útblástur úr kerfinu. Það hefur verðbólgan séð um í þessu kerfi okkar. Með því að trúa á það að hægt sé að verðtryggja fjárskuldbindingar hafa menn séð til þess að þær skekkjur sem hafa verið á ferðinni í kerfinu hafa lent á einhverjum öðrum. Einhvers staðar hafa þær orðið að koma fram og það hafa þá

færri aðilar orðið fyrir skaðanum. Ég held að mönnum ætti að vera orðið þetta nokkuð ljóst eftir allan þennan tíma sem búið er að viðhalda verðtryggingu á hluta af þessu kerfi okkar en ekki á öðrum hluta. Það er að vísu eðlilegt að sumir aðilar í þjóðfélaginu sem eiga hlut að máli séu fastheldnir á verðtryggingar, þeir telja sig hafa í þeim tryggingar og hafa í sjálfu sér verið með sérstökum hætti friðaðir í þjóðfélaginu gagnvart því að tapa fjármunum. Ég held að þessi tími eigi að vera liðinn og menn eigi að vera tilbúnir til að gera upp við þessa fortíð og setja alla aðila í þjóðfélaginu undir sama hatt með því að þeir verði að taka þátt í fjármálakerfi þjóðarinnar undir sömu leikreglum.