Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:40:45 (1750)

     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það er rétt hjá hæstv. viðskrh. að verðbólgan var margföld miðað við það sem hún er nú þegar frv. var fyrst flutt, einkum í þrjú fyrstu skiptin ef ég man rétt. En þá voru líka töluverðar launahækkanir í landinu, bara miklar launahækkanir á þessu tímabili. En einmitt núna eftir að hin svokallaða þjóðarsátt var gerð, og síðan framlengd og maður er að vona að verði enn framlengd hvað sem kann að verða, þá er nauðsyn að sýna launþegum og atvinnurekstri í landinu að Alþingi Íslendinga ætlist til þess sama af þeim sem fjármagnið eiga og launþegum og atvinnulífi, að hafa hér taumhald á kaupgjaldi og líka á því sem fjármagnið fer fram á fyrir sig.
    Það er ætlast til þess að launþegar færi miklar fórnir við þær erfiðu aðstæður sem eru í þjóðfélaginu. Til þess að sýna launþegum að það sama skuli yfir alla ganga og ef ætlast er til þess að launþegar, sem tekið hafa lán og eru bundnir af verðtryggingu, stilli í hóf sínum kröfum hljóta þessir sömu launþegar að fara fram á það við stjórnvöld og við löggjafann að hann stilli í hóf álögum á þá í sambandi við vaxtamál.
    Það er auðvitað fleira en vextirnir sem kemur hér til. Það er ýmis kostnaður í sambandi við lánin sem er orðinn óheyrilega mikill. Lántökugjöldin eru ekki neinn smáskattur á þá sem taka lánin, hvort sem það er launþegi eða atvinnulífið. Það eru auðvitað margfalt hærri upphæðir sem atvinnureksturinn verður að bera. Þess vegna sagði ég það að ég teldi núna enn brýnni þörf fyrir því að flytja og fá frv. lögfest. Það hefur hæstv. viðskrh. ekki fallist á svo að við getum sæst á það að vera sammála um það að vera ósammála í þessum efnum.