Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 15:16:37 (1755)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Þetta er í þriðja sinn á þessu þingi sem húshitunarkostnaðarmál landsbyggðarinnar koma til umræðu. Sannarlega er ástæða til að svo brýnt hagsmunamál landsbyggðarfólks sé oft til umræðu á hinu háa Alþingi enda er mjög mikilvægt að hægt verði að halda áfram að beita aðgerðum til þess að lækka húshitunarkostnaðinn á hinum köldu svæðum og beita aðgerðum er miða að jöfnun upphitunarverðs í landinu.
    Hæstv. iðnrh. gerði rækilega grein fyrir því í sínu máli að það hefði verið fyrsta verk eftir myndun ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir sérstakri aðgerð er lækkaði verð á húshitun á hinum köldu svæðum landsbyggðarinnar. Verðlækkunin nam allt að 11%. Þessi raunlækkun húshitunar á köldum svæðum landsbyggðarinnar hefur haldið sér allt fram til þessa og er, eins og ráðherrann gerði grein fyrir líka, í fjárlagafrv. fyrir árið 1993. Hæstv. ráðherra gerði einnig grein fyrir því að til þess að verja auknar niðurgreiðslur til lækkunar varð hann að grípa til niðurskurðar á öðrum þáttum í rekstri ráðuneytisins.
    Það er sannarlega ástæða til að þakka hæstv. ráðherra vasklega framgöngu í þessu máli allt fram til þessa. Það gefur vonir um að hann muni halda áfram að beita öllum ráðum til að ná enn frekari árangri í þessu brýna hagsmunamáli. Ég vil hvetja hv. þm. til að styðja svo góðan hug sem birtist í störfum hæstv. ráðherra í þessu máli. Ég lít svo á að till. þeirra framsóknarmanna til þál. sé einmitt sett fram í þeim tilgangi að styðja við bakið á hinni jákvæðu viðleitni hæstv. iðnrh. og framgöngu hans í þessu máli allt fram til þessa.
    Það verður nefnilega að segja eins og er að um fá mál hefur meira verið rætt á þingi mörg undanfarin ár en þetta en það hefur staðið á verkunum. Í raun hefur misréttið verið að aukast og húshitunarkostnaðurinn verið að vaxa og íþyngja heimilum á landsbyggðinni miðað við verðlagsþróun húshitunar á höfuðborgarsvæðinu. Er hér eitt talandi dæmi um það misrétti og aðstöðumun sem landsbyggðarfólk þarf að búa við andspænis höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er það mjög brýnt landsbyggðarmál að þarna náist jöfnuður með því að lækka með öllum tiltækum ráðum húshitunarkostnað á köldum svæðum landsbyggðarinnar.
    Á þessu hefur einmitt hæstv. iðnrh. mjög góðan skilning. Því ber sérstaklega að fagna. Og ríkisstjórnin hefur það líka. Það kom greinilega fram í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar strax í upphafi að hún ætlar sér verk að vinna í þessu eins og fyrsta verk hennar gefur fyrirheit um og störf hennar fram að þessu. Að verja þó niðurgreiðslurnar til húshitunar í þeim þrengingum og þeirri kreppu sem yfir okkur dynur núna. Allir eru sammála um að grípa þurfti til sparnaðaraðgerða og niðurskurðar í ríkisfjármálum. Þó hefur tekist gott samkomulag um að verja niðurgreiðslurnar og reyna að auka þær þegar vænkast hagur ríkissjóðs.
    Ég vil ítreka það að við eigum að reyna að ná góðum sáttum að styðja við bakið á ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra til góðra verka og frekari átaka í þessu máli. Það sem brýnast er að gera núna er að styðja frumkvæði hæstv. ráðherra í að opna augu stjórnar Landsvirkjunar fyrir því að hún fari að grípa til sérstakrar lækkunar á heildsöluverði raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis.
    Hv. flm. vita gjörla að gert var samkomulag um sérstaka áfangaáætlun eins og þessi till. til þál. kveður á um. Mikilvægur þáttur í þeirri aðgerð er að orkusölufyrirtækin mundu taka þátt í þessum samþáttaaðgerðum. Það er rétt sem hæstv. iðnrh. skýrði út áðan að nú er einmitt komið að þætti þeirra í þessu máli. Hæstv. ráðherra útskýrði nákvæmlega hvað hann hefði gert í þessu máli allt fram að þessu og hann hefði beitt öllum ráðum er hann byggi yfir til að reyna að kalla stjórn Landsvirkjunar til ábyrgðar og verka en það hefði lítið verið um jákvæð svör frá stjórn Landsvirkjunar fram að þessu önnur en þau að telja á þessu hin mestu vandkvæði.
    Nú reynir á hv. þm. á hvern hátt þeir treysta sér til að styðja hæstv. ráðherra í þeirri góðu viðleitni að opna augu stjórnar Landsvirkjunar fyrir því að hún taki hér þátt og bendi á leiðir með hvaða hætti slíkt mætti gera. Trúi ég því að hv. flm. sem að baki till. til þál. standa muni ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Alla vega við að hafa áhrif á sinn mann eða sína menn í stjórn Landsvirkjunar. Ég mun gera slíkt hið sama.

    Ég þakka hv. flm. að hafa vakið athygli enn á þessu máli. Ég tel að það sé samkomulag um að framkvæma þá áætlun sem fyrrv. ríkisstjórn gekk frá og samþykkti. Ég tel að það sé samkomulag um það innan núv. ríkisstjórnar að framkvæma þá áætlun. Og hafi fyrrv. ríkisstjórn hinar bestu þakkir fyrir góða framgöngu í því að koma þessu máli þó í þann farveg sem hún gerði.
    Virðulegi forseti. Tímanum er lokið og ekki meira um þetta mál að segja að þessu sinni.