Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 15:34:33 (1758)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hefði ekki verið flutningsmaður að þáltill. um lækkun húshitunarkostnaðar sem hér er um fjallað nema vegna þess að ég tel þann ójöfnuð sem er í hitunarkostnaði mjög alvarlegan og tel útúrsnúninginn afskaplega ósmekklegan sem hv. síðasti ræðumaður viðhafði. Ég skil hann satt að segja ekki. Hann er að tala um góðan hug og fagran hug og ætlar síðan öðrum eitthvað allt annað. Það er undarlegur málflutningur. En það er náttúrlega ekki það sem þetta mál snýst um. Ég er að tala um það að því miður hefur raforkuverð hækkað. Ég get nefnt dæmi um lítið fyrirtæki í Dalasýslu sem rekið er fáa mánuði ársins og borgaði 300 þús. kr. meira í raforku í fyrra en í hittiðfyrra. Það er þetta sem ég er að tala um, hv. þm. Ég vona að við getum verið sammála um það og þurfum ekki að vera að snúa útúr hvort fyrir öðru að þessi jöfnuður náðist því miður ekki eins og að var stefnt.