Gjaldeyrismál

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 13:51:32 (1764)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Þetta frv. til laga um gjaldeyrismál er eitt af hinum svokölluðu fylgifrv. EES-samningsins en í raun er það algerlega óháð þeim samningi. Ég lít svo á að við hefðum stefnt í þessa átt þótt samningurinn um EES hefði ekki verið til umræðu. Þar sem ég er almennt fylgjandi frjálsum viðskiptum, þótt ég sé ekki hrifin af þeirri viðskiptablokk sem verið er að koma upp úti í Evrópu, vil ég styðja frv.
    Það er mikilvægt varðandi þetta mál að það verði mjög varlega farið í framkvæmd þess. Ég vil minna á að Seðlabankinn hefur heimild til að grípa inn í ef hætta steðjar að og því tel ég rétt að styðja þetta mál.
    Ég vil beina tveimur spurningum til hæstv. viðskrh. Það er annars vegar spurning um hvernig hann hyggst standa að framkvæmd þessara laga í ljósi þeirra viðvarana sem hv. efh.- og viðskn. setur fram í sínu nál.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað líður framlagningu frv. til nýrra seðlabankalaga sem vissulega tengjast þessu máli og ýmsum öðrum sem við höfum til umfjöllunar?