Gjaldeyrismál

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 13:53:19 (1765)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir vandaða vinnu við meðferð frv., bæði á fyrra þingi og í sumarhléi og loks á því þingi sem nú stendur. Það er mjög ánægjulegt að samstaða skuli hafa náðst í nefndinni um þetta mikilvæga mál. Ég vil láta í ljós þakklæti mitt til nefndarmanna fyrir það starf. Ég vil taka það skýrt fram að ég er hlynntur þeim brtt. sem nefndin gerir, styð þær og tel þær vera til bóta.
    Ég ætla þá að snúa mér að þeim spurningum og athugasemdum sem til mín var beint, bæði af hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 18. þm. Reykv. Vegna þess sem fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég láta það koma skýrt fram að stöðugleiki í gengismálum er eitt mikilvægasta markmið stefnunnar í efnahagsmálum. Það er eitt mikilvægasta markmið stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Þær breytingar sem boðaðar eru með samþykkt þessa frv. í þá átt að leyfa meiri áhrif frá markaðsöflunum á gengisskráninguna frá degi til dags breyta ekki þessu meginmarkmiði. Það er hins vegar skoðun mín að við eigum að haga okkar efnahagsmálum að öðru leyti þannig að stöðugleiki í gengi haldist innan þeirra marka sem sett verða þegar þar að kemur.
    Ég vil taka það fram að undirbúningi að millibankamarkaði með gjaldeyri miðar með eðlilegum hætti. Það er alveg ljóst að þar verður farið mjög gætilega. Tilvísun til þess mikla umróts sem varð á gjaldeyrismörkuðum heimsins, ekki síst gjaldeyrismörkuðum Evrópu á þessu hausti, er nægileg til að skýra það að þar munum við fara fram af fyllstu varkárni. Ég tek undir með hv. 18. þm. Reykv. að þar má ekki og verður ekki hrapað að neinu.
    Síðan segi ég vegna þeirrar spurningar sem hv. 6. þm. Norðurl. e. bar fram um fráviksmörk eftir að sett hefði verið miðgildi fyrir gengið í kerfi frjálsra viðskipta með gjaldeyri. Ég tel ekki tímabært að nefna þær tölur en vil eingöngu endurtaka það sem fram kom hér þegar málið var síðast rætt. Ég taldi að þau mörk ættu ekki að vera ákaflega þröng og benti þar á fordæmi frá evrópska myntkerfinu þar sem dæmi eru um fráviksmörk alveg upp í 6% til hvorrar áttar frá viðmiðunargengi. Þetta segi ég ekki sem beina tillögu eða niðurstöðu í málinu heldur eingöngu sem sjónarmið sem ég held að hljóti að verða uppi. Í jafnsveiflukenndum búskap og Íslendingar búa við hlýtur slík viðmiðun í fráviksmörkum að vera mjög ákveðið til skoðunar.
    Síðan kem ég að spurningum hv. 18. þm. Reykv. Hinni fyrri hef ég í reynd svarað. Það verður farið mjög gætilega í þessu máli og ekki tekin nein áhætta að nauðsynjalausu. Í öðru lagi spurði hv. 18. þm. Reykv. hvað liði undirbúningi og framlagningu frv. til nýrra seðlabankalaga. Ég get látið það koma hér fram að ég hef að undanförnu fengið fjölmargar umsagnir um frv. eins og það kom frá þeirri nefnd sem samdi það og eins og það var kynnt á þinginu í vor. Það er verið að vinna úr þessum umsögnum. Frv. verður væntanlega lagt fram í þinginu í þessum mánuði. Það er auðvitað háð því að niðurstaða fáist í nokkrum tiltölulega smávægilegum málum. Frv. fékk, eins og þingmenn muna, allgóðar viðtökur í þessari kynningarumferð í vor er leið. Ég á von á því að það geti tekist víðtæk samstaða um þær breytingar sem þar eru uppi um tillögur. Mér finnst afgreiðsla þessa frv. um gjaldeyrismál vísbending um að það verk eigi að geta heppnast vel.