Gjaldeyrismál

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:00:35 (1767)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Vegna ítrekaðrar spurningar hv. 6. þm. Norðurl. e. um myntkörfuna, sem fylgt er við gengisstjórn á Íslandi, vil ég láta það koma fram að ég er honum ekki sammála um það að núgildandi myntkarfa endurspegli ekki vel viðskiptamynstur Íslendinga í utanríkisviðskiptum. Sannleikurinn er sá að viðskiptakarfan sem nú er notuð er þannig gerð að þar eru 75% ECU, evrópska mynteiningin, 8% jen og afgangurinn Bandaríkjadalur. Þetta er ágæt mynd af okkar utanríkisviðskiptum ef menn vilja hafa það til viðmiðunar. En reyndar er það fleira sem ræður, bæði fjármagnsstraumar og þjónustugreiðslur, svokallaðar ósýnilegar hreyfingar, sem ég held að breyti þessu hvorki til né frá.
    Um það hvort hætta er á því að við frjáls viðskipti mundi gengið þegar fara í neðri mörk vil ég líka láta það koma fram að það hefur ekki gætt tilhneigingar til þess að flýta eða tefja greiðslur út eða inn eins og jafnan vill gæta þegar markaður telur hættu á gengisbreytingu. Þessa hefur ekki gætt á Íslandi á undanförnum vikum og mánuðum sem verður að teljast mjög merkilegt miðað við það umrót sem ríkt hefur í gengismálum í veröldinni undanfarnar vikur. Þetta er einfaldlega staðreynd.
    Í öðru lagi vil ég líka láta það koma fram að vöruskiptajöfnuður Íslendinga hefur batnað það sem af er þessu ári gagnstætt því sem margir virðast álíta. Það er verulegur samdráttur í innflutningi og meiri samdráttur en í útflutningi. Þetta held ég að nægi til að svara þeim álitamálum sem hv. 6. þm. Norðurl. e. hreyfði áðan.