Gjaldeyrismál

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:04:51 (1769)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma fram að ég tel það enn skynsamlega og rétta stefnu að í framtíðinni tengist íslenska krónan nánar hinu evrópska myntkerfi og þar með evrópsku mynteiningunni. En það er jafnljóst að vegna þeirra erfiðleika og umróts sem gætt hefur innan hins evrópska gjaldeyrissamstarfs að undanförnu hljótum við að staldra við og meta okkar stöðu að nýju. Við munum meta hana eftir því sem framvindan skýrir það mál hjá Evrópumönnum. Það er ekki skynsamlegt fyrir okkur að taka afstöðu til þess endanlega nú. Það er heldur ekki þörf á því. Þetta er mín afstaða. Ég tel að í framtíðinni muni viðskipti við Evrópusvæðið verða enn mikilvægari. Það er afar auðvelt að sýna fram á það með tölum um þróunina undanfarin ár í hvaða átt þetta hefur stefnt. En við hljótum fyrst og fremst að horfa á það sem kemur okkur best og fær best borgið íslenskum hagsmunum. Ég tel að það sé sú stefna sem við fylgjum nú.
    Það er þarflaust að ræða það í þingsölum hvert sé hið rétta gengi íslensku krónunnar. Það sem ég vék hér að áðan var eingöngu það að markaðshreyfingar, viðleitnin á markaðnum, bentu ekki til þess að þeir sem kaupa og selja galdeyri telji gengið valt.