Fréttaflutningur af slysförum

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:30:19 (1773)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa ágætu þáltill. Ég tek undir hvert orð í ræðu frsm. og tel tillöguna mikilvæga við þær aðstæður sem blasað hafa við í samfélaginu um langt skeið.
    Í mínum huga er það mikilvægara nú en áður að reynt verði að ná saman reglum, starfsvenjum, um það þegar stórslys eiga sér stað.
    Við skulum gera okkur grein fyrir því að það hefur æ oftar gerst eftir hörmulega atburði að ættingjar og vandamenn hafa greint bifreiðir í sjónvarpsfréttatímum og frétt um leið að dauðsföll hafi átt sér stað. Slíkt getur valdið slíkri ringulreið að það verður aldrei bætt. Þess vegna tek ég undir það með frsm. að mikilvægt er að skipa nefnd, spyrna við fótum og ná samræmdum reglum um málið. Ég hef aldrei skilið kapphlaup fjölmiðlanna að hinum válegu slysum sem eiga sér stað. Sjónvarpsstöðvarnar eru ekki einar um það, þar eiga dagblöðin sinn hlut og útvarpsstöðvarnar líka. Ég hygg að fréttamenn þessara fjölmiðla séu einnig sammála um að þarna verði komið upp samræmdum reglum.
    Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri en þakka frsm. þessa ágætu till. og vænti þess að hún verði afgreidd á þinginu.